Ingólfur hengir upp hattinn
Ingólfur Hjaltason er fæddur og uppalinn á Fáskrúðsfirði. Hann er einn af átta systkinum og hér í þessum firði hefur hann dvalið mestan part lífs síns og segir sjálfur að hann sé “heimaríkur og mikill Fáskrúðsfirðingur”. Hann sagðist líta á það sem forréttindi að geta unnið svona nálægt heimilinu og geta gengið í vinnuna.
Hann stundaði nám í vélvirkjun í Iðnskólanum á Neskaupsstað og Iðnskólanum Í Hafnarfirði og útskrifaðist þaðan. Ingólfur sagði það hafa verið hálfgerð tilviljun að hann hóf nám í vélvirkjun á sínum tíma en þannig hafi það verið að þegar hann var 19 ára gamall hafi Jón Erlingur (Guðmundsson, þá útgerðarstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga) komið að máli við sig og sagt rétt sí svona: “finnst þér nú ekki kominn tími til að hætta þessu rugli Ingólfur minn. Viltu ekki koma á samning í smiðjunni”? Var Jón Erlingur þarna að vísa til lifnaðarhátta Ingólfs sem ungur maður. Ingólfur skellti sér á samning hjá Alberti Kemp og þar með hófst starf hans hjá Kaupfélaginu og síðar Loðnuvinnslunni.
“Mér hefur liðið vel hjá fyrirtækinu og velti því aldrei fyrir mér í neinni alvöru að flytja mig um set” segir Ingólfur og hlær við.
En nú er komið að leikslokum, Ingólfur hefur hengt upp hattinn sinn eftir 47 ára starf.
En þessi 66 ára gamli maður er í góðu líkamlegu ásigkomulagi og gæti eflaust unnið einhverja áratugi til viðbótar hefði hann kært hann sig um. En af hverju að hætta og hvað tekur við? „Þetta var orðið gott og tímabært að yngri menn tækju við keflinu. Ég var orðin þreyttur á mikilli vinnu og vildi hætta á meðan ég hefði enn heilsu til að gera allt þetta skemmtilega, og nú ætla ég að einbeita mér að áhugamálum mínum“ svaraði Ingólfur. En vinnan var skemmtileg, og ég hef verið svo lánsamur að vinna með góðum mönnum og lærlingarnir eru á bilinu 20 til 30 sem ég hef kennt og leiðbeint.
Áhugamál Ingólfs eru mörg, eins og ræktun af ýmsu tagi eins og glögglega má sjá allt í kring um heimilið, blóm í öllum regnbogans litum sem Ingólfur fóstrar frá fræjum og laukum til blómstrandi plantna og tré sem mynda voldugan skjólgarð fyrir gróðurhúsið. Þá hefur Ingólfur unun af útivist og hreyfingu hvers konar. Og á sínum yngri árum var hann liðtækur fótboltamaður og spilaði fótbolta með Leikni auk þess að spila t.d. í Færeyjum eitt sumar. Þar að auki starfaði hann sem dómari í flestum deildum knattspyrnunnar í 30 ár. Þegar hann setti skóna á hilluna og hætti að starfa sem dómari hlaut hann gullmerki KSÍ fyrir vel unnin störf við dómgæslu. Á heimasíðu KSÍ er þetta sagt um gullmerkið: “Heiðursmerki þetta veitist aðeins þeim sem unnið hafa knattspyrnuíþróttinni langvarandi og þýðingamikil störf.” Svo þarna hlaut Ingólfur mikinn heiður og var vel að honum kominn.
Þó svo að Ingólfur hlaupi ekki lengur á eftir bolta, þá er hann á sífelldri hreyfingu, hann gengur og hjólar og er búinn að fá sér kayak sem hann rær á. „Maður reynir að velja heilbrigt líferni til þess að teygja aðeins á þessu lífi“ segir Ingólfur og brosir.
Hann hefur líka gaman af því að ferðast, Kína, Bali, Kúba, Bahama eru meðal þeirra landa sem hann hefur heimsótt. Og honum þykir líka gaman að ferðast innanlands með hjólhýsið í eftirdragi. „En nú hef ég mikið meiri tíma til að ferðast heldur en Steina (eiginkona Ingólfs er Steinunn Elísdóttir) því hún er enn að vinna, ég sendi henni þá bara kort“ laumaði Ingólfur út úr sér og uppskar hlátur frá greinarhöfundi. “Þá er alveg dásamlegt að fá barnabörnin í heimsókn” segir hann og fær þetta blik í augað sem afar og ömmur gjarnan fá þegar talið berst að barnabörnum.
Þegar greinarhöfundur leitaði Ingólf uppi til að eiga við hann stutt spjall fannst hann upp í stiga að pússa þakskeggið, rykugur upp yfir haus en glaður og reifur og sagði: „það besta við að hætta að vinna er að ég get valið í hvað dagurinn fer“. Og er það ekki einmitt málið, að reyna að vernda líf og heilsu svo að við getum öll, á einhverjum tímapunkti, valið hvað dagurinn fer í.
BÓA


Nýtt Hoffell – móttökuathöfn
Sunnudaginn 19. júní siglir nýtt Hoffell SU-80 inn Fáskrúðsfjörð og að því tilefni verður efnt til móttökuathafnar kl. 14:00 þar sem hið glæsilega skip verður blessað og því gefið nafn.
Að athöfn lokinni verður skipið til sýnis og eru allir velkomnir. Sjómenn úr áhöfninni munu fara um skipið með gestum.
Við hvetjum Fáskrúðsfirðinga ásamt íbúum Fjarðabyggðar og aðra gesti til að koma og samgleðjast með okkur á þessum stóru tímamótum í sögu fyrirtækisins.

Nýtt Hoffell að taka á sig mynd
Spennan er farin að magnast fyrir heimkomu nýs Hoffells sem er heldur betur að taka á sig mynd þessa dagana. En þessa mynd tók útgerðarstjórinn, Kjartan, í Noregi í gær.

Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Byrjar vel í júní
Bátar Loðnuvinnslunar byrja sem fyrr á toppnum og lika búnir að fara í flesta róðranna auk Jónínu Brynju ÍS
Tryggvi Eðvarðs SH með stærsta róðurinn enn sem komið er um 27 tonn,
nokkrir bátar komnir á Siglufjörð

Sæti | áður | Nafn | Heildarafli | Róðrar | Mesti afli | Höfn |
1 | Sandfell SU 75 | 84.0 | 8 | 18.9 | Stöðvarfjörður, Fáskrúðsfjörður | |
2 | Hafrafell SU 65 | 71.1 | 7 | 21.4 | Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Fáskrúðsfjörður | |
3 | Kristján HF 100 | 59.9 | 6 | 16.7 | Neskaupstaður | |
4 | Tryggvi Eðvarðs SH 2 | 54.4 | 4 | 26.8 | Ólafsvík | |
5 | Fríða Dagmar ÍS 103 | 48.6 | 6 | 12.6 | Bolungarvík | |
6 | Einar Guðnason ÍS 303 | 40.6 | 5 | 12.0 | Suðureyri | |
7 | Jónína Brynja ÍS 55 | 37.9 | 7 | 9.0 | Bolungarvík | |
8 | Háey I ÞH 295 | 28.5 | 4 | 10.8 | Raufarhöfn | |
9 | Óli á Stað GK 99 | 27.7 | 6 | 6.2 | Siglufjörður | |
10 | Gullhólmi SH 201 | 22.4 | 2 | 12.4 | Siglufjörður | |
11 | Vigur SF 80 | 17.4 | 1 | 17.4 | Hornafjörður | |
12 | Bíldsey SH 65 | 10.0 | 1 | 10.0 | Siglufjörður |
Vel heppnuð Sjómannadagshelgi að baki
Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið með Fáskrúðsfirðingum þessa helgi þar sem veðurspáin um úrhellisrigningu gekk ekki eftir og fengu gestir okkar flott veður í Sjómannadagssiglingunni. Eftir löndun úr Ljósafelli á laugardagsmorgun fór áhöfnin beint í að þrífa skipið hátt og lágt áður en gestum var boðið að koma um borð og í siglingu út fjörðinn. Að vanda var boðið uppá gos og getterí sem tilheyrir þessum degi og mátti sjá bros í andliti barnanna sem virtust skemmta sér vel í siglingunni.
Um kvöldið hélt starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar veglega skemmtun fyrir starfsólk sitt í félagsheimilinu Skrúð þar sem Jógvan Hansen var veislustjóri og spilaði hann ásamt Jóni Hilmari Kárasyni og hljómsveit fram á nótt. Allir virtust skemmta sér konunglega og var mikil ánægja starfsfólks með þessa skemmtun. Sjórn starfsmannafélagsins tilkynnti einnig að Sjóamnnadagsskemmtunin væri komin til að vera. Meðal skemmtiatriða var að setja saman hljómsveit með Jógvani og Jóni Hilmari sem tóku síðan lagið Smoke on the water með Deep Purple, þetta vakti mikla lukku og tókst þetta atriði einstaklega vel.
Á sjálfan Sjómannadaginn var hátíðleg messa í Fáskrúðsfjarðarkirkju þar sem var mjög góð mæting, gestir héldu síðan í veglegt kaffihlaðborð sem Slysó konur stóðu fyrir í Skólamiðstöðinni.





Ljósmynd: Sverrir Gestsson


Ljósafell með 55 tonn eftir stuttan túr
Ljósafell kom inn með 55 tonn á laugardagsmorgun eftir stuttan túr, aflinn var 35 tonn þorskur, 12 tonn ýsa, 5 tonn ufsi og annar afli.
Skipið fer aftur út á þriðjudaginn kl. 13.
Starfsmannaferð til Svartfjallalands
Dagana 21. til 30.maí sl. stóð Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fyrir ferð til Budva í Svartfjallalandi. Svartfjallaland er land í suðaustanverðri Evrópu, á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri.
Budva er bær með tæplega 20 þúsund íbúum og státar af afar fallegri strandlengju og dásamlega fallegu umhverfi.
Ferðin hófst á Egilsstaðaflugvelli og við tók rúmlega fjögurra klukkustunda flug og síðan rútuferð til Budva þar sem hópurinn gisti á Hotel Avala. Hótelið var með ágætum, hafa þurfti í huga að allt var að komast í gang eftir Covid og tíðindalaus undangengin misseri en starfsfólkið var viðmótsþýtt og gerði allt sem í þess valdi stóð til þess að gera dvölina sem besta fyrir hópinn. Einkaströnd fylgdi hótelinu þar sem gestir fengu afhent handklæði og þar gátu menn einnig fengið sér hressingu. Adríahafið gjálfraði við ströndina og hressandi var að fá sér sundsprett og kæla sig þegar hitinn fór að halla í 30 gráðurnar, en alla dvölina var veðrið frábært, sól og hiti upp á hvern einasta dag.
Ýmsa afþreyingu var hægt að stunda í Budva, eins og hefðbundið sjósport sólarlanda, að þeysast um á sjóþotum, láta hefja sig til flugs í sitjandi fallhlíf þar sem lína liggur í bát sem dregur mann út og suður, fara í siglingu með TAXA bát, róa á kajak og fleira í þeim dúr. Svo var ýmislegt annað sem fólk gat gert sér til gamans og of langt mál væri að telja upp hér en all nokkrir leigðu sér bíl og óku um og skoðuðu fallega staði.
Þá var boðið upp á skipulagðar skoðunarferðir á vegum ferðaskrifstofunnar sem starfsmannafélagið skipti við. Ein ferð var til Dubrovnik í Króatíu sem er gamall og fallegur bær umlukin háum borgarmúrum. Önnur ferð var farin á vínbúgarð í Svartfjallalandi þar sem gestum var gefin kostur á að smakka framleiðsluna og njóta máltíðar með. Þá var boðið upp á heimsókn í þjóðgarð og svona mætti lengi telja. Voru ferðirnar vel sóttar og voru þátttakendur almennt mjög sælir í dagslok.
Steinar Grétarsson og Eydís Ósk Heimisdóttir voru með í för og aðspurð svaraði Eydís því til að sér hefði fundist ferðin frábær og vel heppnuð. „Það sem mér líkaði best var ótrúleg náttúrufegurð og svo fallegi gamli bærinn Stari Grad, “ sagði Eydís. En bæinn þann skoðuðu þau hjúin á ferð sinni til Króatíu.
Kvöldið fyrir heimferð bauð Loðnuvinnslan öllum í dýrindis málsverð á huggulegu útveitingahúsi, þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð, og líkt og svo oft áður, var ekkert til sparað til þess að gera kvöldið ánægju-og eftirminnilegt fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar og maka sem tóku þátt í ferðinni.
Að njóta stunda og daga í fallegu umhverfi, í góðu loftslagi og í góðum félagsskap er endurnærandi fyrir líkama og sál og var það gjarnan viðkvæðið þegar fólk hittist á förnum vegi. Allir þeir sem greinarhöfundur spjallaði við höfðu sömu sögu að segja, að ferðin hefði verið frábær og menn gætu varla beðið eftir næstu ferð. Og fyrir hönd alls þess góða fólks sem starfar hjá Loðnuvinnslunni vona ég að hennar verið ekki langt að bíða.
BÓA





Vélgæslu- og viðhaldsstarf, laust til umsóknar

Sjómannadagshelgi – sigling
Loðnuvinnslan býður bæjarbúum og gestum í siglingu í tilefni að Sjómannadeginum um borð í Ljósafelli SU-70. En mikil hefð hefur skapast fyrir því að bjóða fólki í siglingu á Sjómannadaginn en síðustu tvö ár hefur það ekki gengið upp sökum heimsfaraldurs.
Siglingin verður á laugardaginnn 11. júní, daginn fyrir Sjómannadag, kl 11:00 frá Fiskeyrarbryggju og siglt áleiðis út fjörðinn. Björgunarsveitin Geisli ætlar að slást í för með okkur og mun sjá um að gæta öryggis á sjó á meðan á siglingu stendur.
Yngsta kynslóðin hefur yfirleitt ekki verið svikin af skemmtilegri sjóferð á sjómannadagshelginni og mörg hver hafa í fyrsta skipti á ævinni stigið á skipsfjöl í sjómannadagssiglinu.
Á sunnudaginn verður Sjómannadagsmessa í Fáskrúðsfjarðarkirkju kl 14:00 og Sjómannadagskaffi á eftir, á vegum Slysavarnadeildarinnar Hafdísar, í Skólamiðstöðinni.
Loðnuvinnslan óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.



Nýtt Hoffell
Í gær var skrifað formlega undir kaup LVF á uppsjávarskipinu Asbjørn HG-265 frá Danmörku og sölu á Hoffelli. Bæði skipin eru komin í slipp í Noregi. Asbjørn er 14 ára gamalt, 9 árum yngra en Hoffell. Afhending fer fram á næstu dögum. Nýtt Hoffell er með 2.530 m3 lest á móti 1.650 m3 í eldra skipi og er 53% stærra, skipið er með 8.100 hestafla vél á móti 5.900 hestöflum og togkraftur er 40% meiri. Mjög góð aðstaða er fyrir áhöfn. Ljóst er að þessi kaup er mikið framfaraspor fyrir Loðnuvinnsluna og byggðarlagið. Þetta er nauðsynleg breyting þar sem lengra er að sigla á makrílmiðin en áður og langt að sækja síld, kolmunna og loðnu til hrognatöku.
Hluthöfum, starfsmönnum LVF og íbúum á Fáskrúðsfirði er óskað til hamingju með þetta stóra skref í atvinnusögu bæjarins.

Mynd: Högni Páll Harðarson

Dagný Reykjalín photoshopaði litinn á nýja skipið.

Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir
Sandfell aflahæðst með 278 tonn og Hafrafell í þriðjasæti með 203 tonn.
Nokkuð góður mánuður, og þvír bátar náðu yfir 200 tonnin,
Sandfell SU sem fyrr aflahæstur, endaði í 278 tonnum
Tryggvi Eðvarðs SH 41 tonn í 2
Hafrafell SU 14 tonn í 1
og allir þessir þrír bátar fóru yfir 200 tonnin,
Jónína Brynja ÍS 17 tonn í 1
Fríða Dagmar ÍS 17,1 tonn í 1

Ljósafell með fullfermi
Ljósafell landaði um 100 tonnum í gærmorgun. Aflinn var 40 tonn þorskur, 35 tonn karfi, 15 tonn ufsi, 7 tonn ýsa og annar afli.
Skipið hélt á miðiná ný í morgun. Ljósmynd: Jónína G. Óskarsdóttir
