Vel heppnuð Sjómannadagshelgi að baki
Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið með Fáskrúðsfirðingum þessa helgi þar sem veðurspáin um úrhellisrigningu gekk ekki eftir og fengu gestir okkar flott veður í Sjómannadagssiglingunni. Eftir löndun úr Ljósafelli á laugardagsmorgun fór áhöfnin beint í að þrífa skipið hátt og lágt áður en gestum var boðið að koma um borð og í siglingu út fjörðinn. Að vanda var boðið uppá gos og getterí sem tilheyrir þessum degi og mátti sjá bros í andliti barnanna sem virtust skemmta sér vel í siglingunni.
Um kvöldið hélt starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar veglega skemmtun fyrir starfsólk sitt í félagsheimilinu Skrúð þar sem Jógvan Hansen var veislustjóri og spilaði hann ásamt Jóni Hilmari Kárasyni og hljómsveit fram á nótt. Allir virtust skemmta sér konunglega og var mikil ánægja starfsfólks með þessa skemmtun. Sjórn starfsmannafélagsins tilkynnti einnig að Sjóamnnadagsskemmtunin væri komin til að vera. Meðal skemmtiatriða var að setja saman hljómsveit með Jógvani og Jóni Hilmari sem tóku síðan lagið Smoke on the water með Deep Purple, þetta vakti mikla lukku og tókst þetta atriði einstaklega vel.
Á sjálfan Sjómannadaginn var hátíðleg messa í Fáskrúðsfjarðarkirkju þar sem var mjög góð mæting, gestir héldu síðan í veglegt kaffihlaðborð sem Slysó konur stóðu fyrir í Skólamiðstöðinni.





Ljósmynd: Sverrir Gestsson


Ljósafell með 55 tonn eftir stuttan túr
Ljósafell kom inn með 55 tonn á laugardagsmorgun eftir stuttan túr, aflinn var 35 tonn þorskur, 12 tonn ýsa, 5 tonn ufsi og annar afli.
Skipið fer aftur út á þriðjudaginn kl. 13.
Starfsmannaferð til Svartfjallalands
Dagana 21. til 30.maí sl. stóð Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fyrir ferð til Budva í Svartfjallalandi. Svartfjallaland er land í suðaustanverðri Evrópu, á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri.
Budva er bær með tæplega 20 þúsund íbúum og státar af afar fallegri strandlengju og dásamlega fallegu umhverfi.
Ferðin hófst á Egilsstaðaflugvelli og við tók rúmlega fjögurra klukkustunda flug og síðan rútuferð til Budva þar sem hópurinn gisti á Hotel Avala. Hótelið var með ágætum, hafa þurfti í huga að allt var að komast í gang eftir Covid og tíðindalaus undangengin misseri en starfsfólkið var viðmótsþýtt og gerði allt sem í þess valdi stóð til þess að gera dvölina sem besta fyrir hópinn. Einkaströnd fylgdi hótelinu þar sem gestir fengu afhent handklæði og þar gátu menn einnig fengið sér hressingu. Adríahafið gjálfraði við ströndina og hressandi var að fá sér sundsprett og kæla sig þegar hitinn fór að halla í 30 gráðurnar, en alla dvölina var veðrið frábært, sól og hiti upp á hvern einasta dag.
Ýmsa afþreyingu var hægt að stunda í Budva, eins og hefðbundið sjósport sólarlanda, að þeysast um á sjóþotum, láta hefja sig til flugs í sitjandi fallhlíf þar sem lína liggur í bát sem dregur mann út og suður, fara í siglingu með TAXA bát, róa á kajak og fleira í þeim dúr. Svo var ýmislegt annað sem fólk gat gert sér til gamans og of langt mál væri að telja upp hér en all nokkrir leigðu sér bíl og óku um og skoðuðu fallega staði.
Þá var boðið upp á skipulagðar skoðunarferðir á vegum ferðaskrifstofunnar sem starfsmannafélagið skipti við. Ein ferð var til Dubrovnik í Króatíu sem er gamall og fallegur bær umlukin háum borgarmúrum. Önnur ferð var farin á vínbúgarð í Svartfjallalandi þar sem gestum var gefin kostur á að smakka framleiðsluna og njóta máltíðar með. Þá var boðið upp á heimsókn í þjóðgarð og svona mætti lengi telja. Voru ferðirnar vel sóttar og voru þátttakendur almennt mjög sælir í dagslok.
Steinar Grétarsson og Eydís Ósk Heimisdóttir voru með í för og aðspurð svaraði Eydís því til að sér hefði fundist ferðin frábær og vel heppnuð. „Það sem mér líkaði best var ótrúleg náttúrufegurð og svo fallegi gamli bærinn Stari Grad, “ sagði Eydís. En bæinn þann skoðuðu þau hjúin á ferð sinni til Króatíu.
Kvöldið fyrir heimferð bauð Loðnuvinnslan öllum í dýrindis málsverð á huggulegu útveitingahúsi, þar sem boðið var upp á þriggja rétta máltíð, og líkt og svo oft áður, var ekkert til sparað til þess að gera kvöldið ánægju-og eftirminnilegt fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar og maka sem tóku þátt í ferðinni.
Að njóta stunda og daga í fallegu umhverfi, í góðu loftslagi og í góðum félagsskap er endurnærandi fyrir líkama og sál og var það gjarnan viðkvæðið þegar fólk hittist á förnum vegi. Allir þeir sem greinarhöfundur spjallaði við höfðu sömu sögu að segja, að ferðin hefði verið frábær og menn gætu varla beðið eftir næstu ferð. Og fyrir hönd alls þess góða fólks sem starfar hjá Loðnuvinnslunni vona ég að hennar verið ekki langt að bíða.
BÓA





Vélgæslu- og viðhaldsstarf, laust til umsóknar

Sjómannadagshelgi – sigling
Loðnuvinnslan býður bæjarbúum og gestum í siglingu í tilefni að Sjómannadeginum um borð í Ljósafelli SU-70. En mikil hefð hefur skapast fyrir því að bjóða fólki í siglingu á Sjómannadaginn en síðustu tvö ár hefur það ekki gengið upp sökum heimsfaraldurs.
Siglingin verður á laugardaginnn 11. júní, daginn fyrir Sjómannadag, kl 11:00 frá Fiskeyrarbryggju og siglt áleiðis út fjörðinn. Björgunarsveitin Geisli ætlar að slást í för með okkur og mun sjá um að gæta öryggis á sjó á meðan á siglingu stendur.
Yngsta kynslóðin hefur yfirleitt ekki verið svikin af skemmtilegri sjóferð á sjómannadagshelginni og mörg hver hafa í fyrsta skipti á ævinni stigið á skipsfjöl í sjómannadagssiglinu.
Á sunnudaginn verður Sjómannadagsmessa í Fáskrúðsfjarðarkirkju kl 14:00 og Sjómannadagskaffi á eftir, á vegum Slysavarnadeildarinnar Hafdísar, í Skólamiðstöðinni.
Loðnuvinnslan óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.



Nýtt Hoffell
Í gær var skrifað formlega undir kaup LVF á uppsjávarskipinu Asbjørn HG-265 frá Danmörku og sölu á Hoffelli. Bæði skipin eru komin í slipp í Noregi. Asbjørn er 14 ára gamalt, 9 árum yngra en Hoffell. Afhending fer fram á næstu dögum. Nýtt Hoffell er með 2.530 m3 lest á móti 1.650 m3 í eldra skipi og er 53% stærra, skipið er með 8.100 hestafla vél á móti 5.900 hestöflum og togkraftur er 40% meiri. Mjög góð aðstaða er fyrir áhöfn. Ljóst er að þessi kaup er mikið framfaraspor fyrir Loðnuvinnsluna og byggðarlagið. Þetta er nauðsynleg breyting þar sem lengra er að sigla á makrílmiðin en áður og langt að sækja síld, kolmunna og loðnu til hrognatöku.
Hluthöfum, starfsmönnum LVF og íbúum á Fáskrúðsfirði er óskað til hamingju með þetta stóra skref í atvinnusögu bæjarins.

Mynd: Högni Páll Harðarson

Dagný Reykjalín photoshopaði litinn á nýja skipið.

Mynd: Jónína G. Óskarsdóttir
Sandfell aflahæðst með 278 tonn og Hafrafell í þriðjasæti með 203 tonn.
Nokkuð góður mánuður, og þvír bátar náðu yfir 200 tonnin,
Sandfell SU sem fyrr aflahæstur, endaði í 278 tonnum
Tryggvi Eðvarðs SH 41 tonn í 2
Hafrafell SU 14 tonn í 1
og allir þessir þrír bátar fóru yfir 200 tonnin,
Jónína Brynja ÍS 17 tonn í 1
Fríða Dagmar ÍS 17,1 tonn í 1

Ljósafell með fullfermi
Ljósafell landaði um 100 tonnum í gærmorgun. Aflinn var 40 tonn þorskur, 35 tonn karfi, 15 tonn ufsi, 7 tonn ýsa og annar afli.
Skipið hélt á miðiná ný í morgun. Ljósmynd: Jónína G. Óskarsdóttir

Ljósafell
Ljósafell kom inn í morgun með 60 tonn. Aflinn er 50 tonn þorskur og annar afli.
Ljósafell landaði líka síðasta þriðjudag 95 tonnum.

Kaupfélagið styrkir

Kaupfélagið lætur ekki sitt eftir liggja þegar styrkja skal við þörf og verðug verkefni í samfélaginu. Á aðalfundi félagsins sem haldin var í Whatnessjóhúsi þann 20.maí deildi Kaupfélagið út styrkjum fyrir 8,5 milljónir króna.
Félag um Franska daga á Fáskrúðsfirði fékk 1 ½ milljón ásamt öðru eins frá Loðnuvinnslunni.
Fáskrúðsfjarðarkirkja hlaut 4 milljónir króna í styrk. Að sögn Eiríks Ólafssonar sóknarnefndarformanns verður peningunum varið til viðhalds kirkjunnar. Kominn er tími á að gera við klukkuturninn, hann er lekur og í frekar bágu ástandi. Eru uppi hugmyndir um að færa hann í upprunalegt horf og setja litla glugga á turninn. Eiríkur var að vonum afar þakklátur fyrir styrkinn “þessi styrkur skiptir sköpum fyrir drauminn um endurbyggingu kirkjuturnsins, nú verður hægt að hrinda honum í framkvæmd” sagði Eiríkur. Kirkjubygginginn á Búðum er sannarlega bæjarprýði.
Dvalarheimilið Uppsalir fékk 2 milljónir króna til kaupa á dýnum og áhaldaþvottavél. “Þetta er bekkenþvottavél sem er mikilvæg til þess að gæta að hreinlæti þeirra hjálpartækja sem við notumst við” svaraði Elín Hjaltalín, hjúkrnuarforstjóri á Uppsölum þegar hún var innt eftir því hvað áhaldaþvottavél væri. Dýnurnar eru í rúm heimilsfólks, þær þarf að endurnýja með reglulegu millibili svo að íbúar Uppsala njóti góðs nætursvefns. “Þessi styrkur er ómetanlegur og kunnum við Kaupfélaginu miklar þakkir fyrir. Hann gerir okkur kleift að bæta aðbúnað þeirra, sem þiggja þjónustu á hjúkrnunarheimilinu, til muna” bætti Elín við.
Hollvinasamtök Skrúðs fékk í sinn hlut 1 milljón króna til áframhaldandi uppbyggingar og utanumhalds á félagsheimilinu Skrúði. Þeir fjármunir sem Hollvinasamtökin hafa fengið frá Kaupfélaginu í áranna rás hafa aðallega runnið til kaupa á ýmsum búnaði s.s. myndvarpa og tjald, hljóðkerfi auk búnaðar í eldhús. Er Skrúður að verða vel í stakk búinn til þess að þar megi halda hvers kyns mannamót. Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og segir hann styrkinn vera afar vel þeginn og komi að góðum notum.
Um leið og styrkhöfum er óskað til hamingju með styrkina, fylgja þeim óskir um áframhaldandi gæfu og gengi.
Bóa
Loðnuvinnslan styrkir
Líkt og áður nýtur samfélagið góðs af góðu gengi Loðnuvinnslunnar. Á aðalfundi LVF sem haldinn var í Whatnessjóhúsi þann 20.maí voru afhentir styrkir að upphæð 29 milljóna króna.
Ungmennafélagið Leiknir hlaut 15 milljón króna styrk til íþrótta- og æskulýðsstarfa. Vilberg Marinó Jónasson er formaður Leiknis og vildi hann koma kæru þakklæti til skila til stjórnar Loðnuvinnslunnar fyrir þennan rausnarlega styrk. “Þetta er frábær styrkur og gefur okkur möguleika á að efla allra handa íþróttastarfsemi innan félagsins” sagði Vilberg.
Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 7 milljón krónur til sinnar starfsemi. Kristín Hanna Hauksdóttir er gjaldkeri Starfsmannafélagsins og sagði hún að þeir myndarlegu styrkir sem Starfsmannafélagið hefur hlotið frá LVF undan farin ár hafi hleypt nýju lífi í félagið. “Við getum farið í ferðalag á hverju ári núna og getum borgað meira niður þannig að félagsmenn þurfi að borga minna, það er frábært” sagði Kristín Hanna.
Þá hlaut björgunarsveitin Geisli 5 milljón króna styrk til kaupa á nýjum björgunarbát. Er nýi báturinn enn í smíðum í Noregi en verður afhentur Geisla í byrjun júlí. Það er sannarlega mikilvægt að sjófarendur búi við allt það öryggi sem hægt er að tryggja og er svona fullkominn björgunarbátur, eins og Geisli er að láta byggja fyrir sig, stór þáttur í að tryggja að svo sé og verði. „Svona styrkur hefur mjög mikil áhrif, ekki bara á fjármálahliðina heldur tökum við þessu líka sem klappi á bakið, við þá ástríðu að hafa til umráða sem öflugasta búnað til hjálpar fyrir samborgara okkar ef slys yrði“ sagði Grétar Helgi formaður björgunarsveitarinnar Geisla.
Félag um Franska daga á Fáskrúðsfirði hlaut 1 ½ milljón króna í styrk frá LVF og annað eins frá Kaupfélaginu. Birkir Snær Guðjónsson er formaður Franskra daga og svaraði hann aðspurður um gildi þess að fá umrædda styrki: “ Við sem erum í því að skipuleggja Franska daga erum gríðarlega þakklát fyrir styrkina sem við fáum frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni. Að hafa þessi fyrirtæki, sem eru tilbúin að leggja jafn mikið út í samfélagið og raun ber vitni, eru mikil forréttindi”.
Félag áhugafólks um fornleifar á Stöðvarfirði hlaut 500 þúsund króna styrk til áframhaldandi starfs. Að grafa upp fornminjar er mikil vinna og fremur hæggeng því að vanda þarf til verka og yfirumsjón þarf að vera í höndum fagaðila. Björgvin Valur Guðmundsson er formaður félagsins „Þetta rausnarlega framlag Loðnuvinnslunnar mun nýtast vel, t.d. dugar það fyrir einum starfsmanni eða öllum kostnaði við greiningu sýna. Við þökkum kærlega fyrir okkur“ sagði Björgvin Valur.
Handhöfum styrkja sendum við hamingju- og velfarnaðar óskir.
Bóa


Afkoma Loðnuvinnslunnar árið 2021
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 20. maí. Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2021 var 1.247 millj á móti 663 millj árið 2020.
Tekjur LVF voru 12.503 millj. sem var um 5% aukning frá fyrra ári. Tekjur að frádregnum eigin afla voru 9.322 millj.
Veltufé frá rekstri var 1.571 millj á móti 2.025 millj. 2020. Eigið fé félagsins í árslok 2020 var 11.552 millj sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings.
Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 millj.
Stjórn LVF er þannig skipuð: Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Steinn Jónasson, Högni Páll Harðarson, Jónína Guðrún Óskarsdóttir og Elsa Sigrún Elísdóttir.
Varamenn Óskar Guðmundsson og Jóna Björg Jónsdóttir.
BÓA