Íslenskunámskeið
Í vetur hefur Loðnuvinnslan staðið að skipulegu verkefni um fræðslu og endurmenntun. Meðal annars var í samstarfi við Fræðslunet Austurlands skipulagt nám í íslensku fyrir erlenda starfsmenn Loðnuvinnslunnar hf. Alls fóru 11 starfsmenn á námskeið sem var undir stjórn Eyglóar Aðalsteinsdóttur kennara. Miðvikudaginn 18. júní var síðan haldið uppá námskeiðslok og skírteini afhent.
Á myndinni eru:
Ifet Mesetovic, Zuhrijeta Mesetovic, Samir Mesetovic, Zbigniew Grzelak, Rimantas Mitkus, Paulius Naucius, Anna María Grzelak, Werrawan Warin, Solandza Nauciene og Chudapa Warin. Auk þeirra eru Eygló Aðalsteinsdóttir kennari, Líneik Sævarsdóttir frá Fræðsluneti Austurlands og fulltrúar LVF. Kjartan Reynisson og Gísli Jónatansson
Fiskvinnslunámskeið
Miðvikudaginn 18. júní voru haldin að Hótel Bjargi „skólaslit“ í Markviss verkefni Loðnuvinnslunnar hf. Verkefnið Markviss uppbygging starfsmanna hefur staðið í allan vetur í samstarfi við Fræðslunet Austurlands, og mun verkefnið standa út þetta ár og til loka 2004. Meðal annars hefur verið boðið uppá fjölbreytt námskeið Menntasmiðju Afls og FNA. Starfsmenn styrktir á vinnuvélanámskeið, LVF hefur niðurgreitt kostnað við líkamsrækt, gefið út fréttabréf, opnað heimasíðu ofl. Einn liður í Markviss átakinu var að halda fiskvinnslunámskeið, og var leitað til Starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar um að halda það. Alls sóttu 20 starfsmenn Loðnuvinnslunnar hf. þetta námskeið sem stóð í eina viku. Að námskeiði loknu teljast þeir sem það sóttu „sérhæfðir fiskvinnslumenn“, og fengu afhent skírteini því til staðfestingar.
Á myndinni má sjá hluta þess fólks sem sótti námskeiðið.
Zbigniew Grzelak, Steingrímur Gunnarsson, Gestur Júlíusson, Ifet Mesetovic, Paulius Naucius, Solandza Nauciene, Dóra Jóhannsdóttir, Ásta Lárusdóttir, Werrawan Warin, en auk þeirra eru á myndinni Kjartan Reynisson og Gísli Jónatansson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar hf.
Krunborg að landa
Færeyska skipið Krunborg er að landa fullfermi af kolmunna uþb. 2400 tonn í verksmiðju Loðnuvinnslunnar hf
Mjölskip að lesta
Um síðustu helgi lestuðu tvö skip mjöl hjá Loðnuvinnslunni hf.
m/s Wilson Goole lestaði 1200 tonn,og
m/s Myrtun lestaði einnig 1200 tonn.
Christian að landa
Færeyska skipið Christian í Grotinum er nú að landa fullfermi af kolmunna 1.900 tonn í verksmiðju Loðnuvinnslunnar hf.
Sigling á sjómannadag
Á sjómannadaginn hélt séra Þórey Guðmundsdóttir guðsþjónustu um borð í Hoffelli, en að henni lokinni fóru skip Loðnuvinnslunnar hf. í siglingu um fjörðinn. Að vanda mætti fjöldi fólks, og var gestum boðið uppá kók og prinspóló.
Fótboltabúningar gefnir Leikni
Mánudaginn 26. maí s.l. afhenti Gísli Jónatansson f.h. LVF og KFFB, knattspyrnudeild Leiknis, fótboltabúninga að gjöf frá fyrirtækjunum.
Það var Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis, sem veitti búningunum viðtöku að viðstöddum nokkrum félögum í Leikni, sem brugðu sér í nýju búningana af þessu tilefni.
Á myndinni eru f.v. Magnús Ásgrímsson, Ingimar Guðmundsson, Björgvin Stefán Pétursson, Inga Sæbjörg Magnúsdóttir, Margrét Jóna Þórarinsdóttir og Gísli Jónatansson.
Góð kolmunnaveiði.
Kolmunninn er farinn að veiðast inn í íslensku landhelginni. Hoffell fyllti sig á aðeins einum sólarhring 100 sjómílur NA af Fáskrúðsfriði. Eru innan við tveir sólarhringar síðan skipið fór frá Fáskrúðsfirði.
Síldarlandanir
Fyrstu síldinni úr norsk-íslenska stofninum var landað í gær. Hoffell landaði tæpum 600 tonnum af síld í gær (sjá skipafréttir). Ingunn AK landaði í nótt rúmmum 1800 tonnum af síld. Síldin veiddist 600 til 700 mílur norður í hafi.
Uppgjör LVF 1. ársfj. 2003
Hagnaður Loðnuvinnslunnar h/f kr. 72 millj. á fyrsta ársfjórungi.
Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f á Fáskrúðsfirði á fyrsta ársfjórungi 2003 varð kr. 72 millj. eftir skatta.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 678 millj., en rekstrargjöld kr. 562 millj. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 117 millj., sem er 17% af tekjum og veltufé frá rekstri var kr. 103 millj. eða 15% af veltu. Afskriftir voru kr. 76 millj., en fjármagnsliðir voru jákvæðir um kr. 44 millj. fyrst og fremst vegna styrkingar íslensku krónunnar.
Eigið fé félagsins var í lok tímabilsins kr. 1.432 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hafði eigið fé félagsins hækkað um kr. 90 millj. frá áramótum. Nettóskuldir Loðnuvinnslunnar í lok tímabilsins voru kr. 1.105 milljónir.
Töluverður tekjusamdráttur varð á fyrsta ársfjórðungi m.a. vegna áhrifa gengisbreytinga og mun minni loðnuafla til fiskimjölsverksmiðjunnar, en hún tók á móti 27 þús. tonnum á vertíðinni, en 48 þús. tonnum á vetrarvertíð 2002.
Það sem af er árinu (18. maí) hefur verksmiðjan samt sem áður tekið á móti 52 þús. tonnum af hráefni, sem er sama magn og á þessum tíma árið 2002, því til viðbótar loðnunni hefur verksmiðjan tekið á móti 25 þús. tonnum af kolmunna í vor.
Kolmunna löndun
Krunborg landaði í gær 2400 tonnum af kolmunna. Og er þá búið að taka á móti 25000 tonnum af kolmunna, en á sama tíma í fyrra var búið að taka á móti 4000 tonnum.
Júpiter að landa
Færeyski báturinn Júpiter landaði 240 tonnum af Kolmunna í dag og tók vistir og aðrar nauðsynjar til að fara á síld norður í haf. Lítil Kolmunna veiði hefur verið síðustu daga og eru mörg skipanna farin að síld. Júpiter er útbúinn bæði fyrir nót og troll.