Hagnaður af starfsemi Loðnuvinnslunnar h/f fyrstu 6 mánuði ársins nam kr. 43 millj. eftir skatta. Á sama tíma í fyrra var hagnaður LVF kr. 295 millj. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam kr. 198 millj. og veltufé frá rekstri var kr. 162 millj. Heildartekjur félagsins voru kr. 1.372 millj. og lækkuðu um kr. 52 millj. frá sama tíma árið 2002. Eigið fé félagsins var kr. 1.370 millj., sem er 43% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Nettó skuldir voru kr. 1.184 millj. og höfðu hækkað um kr. 67 millj. frá fyrra ári.



Aðal ástæður lakari afkomu LVF eru að fjármagnliðir eru nú neikvæðir um kr. 58 þús., en voru jákvæðir í fyrra um kr. 103 millj. Í öðru lagi hefur framlegð landvinnslu lækkað verulega vegna styrkingar íslensku krónunnar og versnandi ástands á erlendum mörkuðum, en heildartekjur fiskvinnslu lækkuðu um kr. 76 millj. miðað við fyrra ár.



Fiskimjölsverksmiðja LVF tók á móti 75 þús. tonnum af hráefni á tímabilinu, en 58 þús. á sama tíma í fyrra. Þann 25. ágúst s.l. hafði fiskimjölsverksmiðjan tekið á móti 104 þús. tonnum af hráefni, sem er nýtt met frá því verksmiðjan tók til starfa árið 1996.



Afkoma LVF á seinni helmingi ársins ræðst m.a. af því hvernig veiðar og vinnsla á síld koma til með að ganga og af þróun á gengi íslensku krónunnar.


Sjá milliuppgjör undir ársskýrslum.