Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1250 tonnum af kolmunna. Skipið heldur aftur til sömu veiða á þriðjudagskvöld.

Konur í sjávarútvegi

 

Á dögunum kom hópur kvenna til Fáskrúðsfjarðar til þess að kynna sér starfssemi Loðnuvinnslunnar auk þess að kynna sína eigin starfssemi. Konur þessar tilheyra félagsskap sem kallast Konur í sjávarútvegi. (Skammstafað KIS)

KIS var stofnað árið 2013.  Tíu konur tóku sig til og boðuðu til stofnfundar því að þeim þótti sem rödd kvenna mætti heyrast betur í sjávarútvegi. Það er skemmst frá því að segja að um eitt hundrað konur mættu á fundinn.  Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi ásamt því að gera þær sýnilegri innan iðnaðarins sem og utan hans.

Freyja Önundardóttir er formaður KIS og hefur gengt því embætti síðan 2015. Hún er alin upp í Vestamannaeyjum og Raufarhöfn, byggðarlögum sem byggja á sjávarútvegi. Fyrir hartnær fimmtíu árum stofnuðu foreldrar hennar útgerðafélagið Önundur og reka það enn frá Raufarhöfn, þannig að óhætt er að segja að Freyja sé fædd inní „bransann“,en hún starfar nú sem útgerðastjóri hjá Önundi.

En þú býrð í Reykjavík, hvernig gengur að vera útgerðastjóri fyrirtækis á Raufarhöfn? Hver sleppir og bindur? „Mér þykir afskaplega gaman að sleppa og binda“ svaraði Freyja, „og að taka til hendinni heima á Raufarhöfn, en mitt aðalstarf er unnið í gegn um tölvu og síma og þá skiptir ekki máli hvar maður situr“, bætti hún réttilega við.

Aðspurð um félagsskapinn Konur í sjávarútvegi sagði hún félagið vera öflugt, „það eru 210 konur í félaginu, frá öllum mögulegum greinum sem tengjast sjávarútvegi. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt og býr nú yfir rödd sem hlustað er á innan sjávarútvegsins. „Við viljum sífellt vera að efla tengslanetið því það er svo mikilvægt og þess vegna höfum við þessa fundi út á landi því að þar eru margar konur sem vinna við sjávarútveg og við viljum að þær þekki til KIS og fyrir hvað við stöndum“.

Félagsskapurinn skipuleggur vorferð á hverju ári, að þessu sinni til Austurlands, auk þess eru farnar dagsferðir til þess að heimsækja fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi, þær hafa átt fund með sjávarútvegsráðherra og forsetanum.  KIS reynir að komast sem víðast til þess að kynna sína starfsemi og kynnast fyritækjum og ráðamönnum í samfélaginu. Eru ferðir þessar auglýstar tímanlega þannig að þeir sem eiga lengra að sækja gefist kostur á að koma með. T.d. voru 25 konur hvaðanæva af landinu með í ferðinni á Austurlandið.  „Við bjóðum líka uppá námskeið, í haust buðum við uppá námskeið um að koma fram í fjölmiðlum, auk þess að koma fram almennt“ sagði Freyja. Félagsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu hittast einu sinni í mánuði og hafa myndast innan hópsins viðskipta og vináttusambönd.

Aðspurð um hvernig ferðin á Austurland hefði reynst svaraði Freyja: „Við erum í skýjunum með ferðina, það var svo vel tekið á móti okkur hvar sem við komum enda landsbyggðafólk gestrisið með afbrigðum“.

Konur hafa unnið við sjávarútveg frá örólfi alda og lengi framan af var rödd þeirra veik og samtakamáttur lítill en nú hefur orðið breyting á. Með tilkomu félagsskapar eins og KIS geta konur í sjávarútvegi látið til sín taka og þar eru allar konur sem starfa í sjávarútvegi eða tengdum greinum velkomnar því eitt af femstu markmiðum félagsins Konur í sjávarútvegi eru: jákvæðni, samstaða og hjálpsemi. Nánar má fræðast um félagið á kis.is

BÓA

 

 

Ljósafell

Ljósafell er að landa um 50 tonnum. Skipið fór út í gærmorgunn kl 8:00 og var komið í höfn aftur kl 16:30 í dag. Skipið fer aftur á veiðar í kvöld kl 23:00

Hoffell

Gamla Hoffellið er nú að landa um 450 tonnum af kolmunna.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum og er uppistaða aflans þorskur. Skipið fer aftur á sjó á morgun, þriðjudag kl 08:00

Hoffellin

Hoffell SU 802 (gráa) landaði um 1200 tonnum af kolmunna í gær og í nótt. Í kvöld er svo Hoffell SU 80 (græna) væntanlegt með um 1600 tonn af kolmunna.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 100 tonnum af blönduðum afla. Skipið fór aftur á veiðar í morgunn kl 08:00

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar

Aðalfundur Loðnuvinnslunnar h/f var haldinn 5. maí. Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2016 var 1.632 millj. sem er 17% lægra en 2015.
Tekjur LVF af frádregnum eigin afla voru 8.349 millj. sem er 16% veltuminnkun milli ára. Eigið fé félagsins í árslok 2016 var 7.155 millj. sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Helstu ástæður minni hagnaðar er styrking krónunnar og minni loðnukvóti 2016.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa eða 140 millj. kr.

Stjórn LVF er þannig skipuð Lars Gunnarsson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Steinn Jónasson, Jónína Óskarsdóttir og Berglind Agnarsdóttir.
Varamenn Björn Þorsteinsson og Högni Páll Harðarson.

Gjafir sem gleðja

Afhending gjafa frá Kaupfélaginu. María Ósk, Jóna Björg, Pétur, Steinn og Friðrik. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir
Afhending gjafa frá Loðnuvinnslunni. María Ósk, Elsa Sigrún, Grétar Helgi, Kristín Hanna, Magnús, Lars og Friðrik. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir

Föstudaginn 5.maí síðast liðinn voru aðalfundir  Kaupfélagsins og Loðnuvinnslunnar haldnir. Rétt eins og undanfarin ár voru gjafir færðar til stofnanna og félagasamtaka sem starfa á Fáskrúðsfirði.

Kaupfélagið færði Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði tvær milljónir króna til tækjakaupa. Við gjöfinni tók Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.  Þakkaði hann gjöfina og sagði ómetanlegt fyrir Heilsugæslustöðina að hafa Kaupfélagið sem bakhjarl.

Þá færði Kaupfélagið Hollvinasamtökum Skrúðs tvær milljónir króna til uppbyggingar og viðhalds í félagsheimilinu Skrúði.  Jóna Björg Jónsdóttir tók á móti gjöfinni fyrir hönd Hollvinasamtakanna og í stuttri tölu sem hún flutti þakkaði hún rausnalega gjöf og sagði lítillega frá því sem hefur nú þegar verið gert í félagsheimilinu fyrir fé sem Kaupfélagið gaf á síðasta ári.

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði fengu 800 þúsund krónur.  María Ósk Óskarsdóttir tók við gjöfinni fyrir hönd Áhugamannahóps um Franska daga.  Er þetta í 22. sinn sem bæjarhátíðin Franskir dagar verða haldnir á Fáskrúðsfirði.

Loðnuvinnslan bætti um betur og afhenti Áhugamannahópi um Franska daga einnig 800 þúsund krónur til að halda þessa frábæru bæjarhátið okkar Fáskrúðsfirðinga.

Björgunarsveitin Geisli fékk eina milljón til reksturs á björgnunarbátnum Hafdísi.  Grétar Helgi Geirsson tók við gjöfinni fyrir hönd Geisla og þakkaði hann Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og sagði í stuttu máli frá þeim verkefnum sem Hafdísin hefur sinnt til þessa.

Fimleikadeild Leiknis fékk eina milljón króna til tækakaupa. Elsa Sigrún Elísdóttir tók við gjöfinni fyrir hönd fimleikadeildarinnar. Hún þakkaði þessa góðu gjöf og sagði að þó svo að deildin væri smá þá væri hún nokkuð kná. Tæki og tól til fimleikaiðkunnar kosta mikla fjármuni og milljóninni skyldi varið til kaupa á þar til gerðri dýnu.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk fimm miljónir króna í sína góðu og þörfu starfssemi. Kristín Hanna Hauksdóttir tók á móti gjöfinni fyrir hönd Starfsmannafélgsins.

Og að lokum fékk Knattspyrnudeild Leiknis tíu milljónir króna. Er sá styrkur með nokkru öðru sniði en þeir sem áður hefur verið greint frá því að hluti af styrknum eru afnot af rútubíl Loðnuvinnslunnar, auglýsing á keppnistreyjum og fleira í þeim dúr sem metið er til áðurnefndrar fjárhæðar.  Magnús Ásgrímsson formaður Knattspyrnudeildar Leiknis tók við gjöfinni og þakkaði kærlega fyrir allan stuðninginn.  Nú þegar Leiknir spilar í 1.deild aukast ferðalög til muna  og þar af leiðandi verður allur rekstur þyngri.

Samanlagt úthlutuðu  Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrkjum uppá 22,6 milljónir króna með þeirri ósk að þeir muni  koma samfélaginu öllu til góða.

BÓA

Aðalfundur Kaupfélagsins

Aðalfundur KFFB var haldinn 5. maí. Hagnaður árið 2016 var skv. samstæðureikningi 1.385 millj. Eigið fé KFFB var 6.420 millj. eða 99,5% af niðurstöðu efnahagsreiknings. Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignahlutur í Loðnuvinnslunni hf.

Í stjórn KFFB eru Steinn Jónasson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Högni Páll Harðarson, Berglind Agnarsdóttir og Unnsteinn Kárason.
Varamenn: Elsa Elísdóttir, Hafþór E. Hafþórsson og Magnús Ásgrímsson.

 

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa í Þorlákshöfn. Aflinn er um 42 tonn af ufsa og karfa og er selt á markaði. Skipið fer aftur á veiðar strax að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa rúmum 100 tonnum. Uppistaðan er þorskur sem fer til vinnslu í frystihús LVF.
Brottför í næsta túr er í kvöld (þriðjudagskvöld )kl 20:00