Afhending gjafa frá Kaupfélaginu. María Ósk, Jóna Björg, Pétur, Steinn og Friðrik. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir
Afhending gjafa frá Loðnuvinnslunni. María Ósk, Elsa Sigrún, Grétar Helgi, Kristín Hanna, Magnús, Lars og Friðrik. Ljósmynd: Jónína Óskarsdóttir

Föstudaginn 5.maí síðast liðinn voru aðalfundir  Kaupfélagsins og Loðnuvinnslunnar haldnir. Rétt eins og undanfarin ár voru gjafir færðar til stofnanna og félagasamtaka sem starfa á Fáskrúðsfirði.

Kaupfélagið færði Heilsugæslustöðinni á Fáskrúðsfirði tvær milljónir króna til tækjakaupa. Við gjöfinni tók Pétur Heimisson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.  Þakkaði hann gjöfina og sagði ómetanlegt fyrir Heilsugæslustöðina að hafa Kaupfélagið sem bakhjarl.

Þá færði Kaupfélagið Hollvinasamtökum Skrúðs tvær milljónir króna til uppbyggingar og viðhalds í félagsheimilinu Skrúði.  Jóna Björg Jónsdóttir tók á móti gjöfinni fyrir hönd Hollvinasamtakanna og í stuttri tölu sem hún flutti þakkaði hún rausnalega gjöf og sagði lítillega frá því sem hefur nú þegar verið gert í félagsheimilinu fyrir fé sem Kaupfélagið gaf á síðasta ári.

Franskir dagar á Fáskrúðsfirði fengu 800 þúsund krónur.  María Ósk Óskarsdóttir tók við gjöfinni fyrir hönd Áhugamannahóps um Franska daga.  Er þetta í 22. sinn sem bæjarhátíðin Franskir dagar verða haldnir á Fáskrúðsfirði.

Loðnuvinnslan bætti um betur og afhenti Áhugamannahópi um Franska daga einnig 800 þúsund krónur til að halda þessa frábæru bæjarhátið okkar Fáskrúðsfirðinga.

Björgunarsveitin Geisli fékk eina milljón til reksturs á björgnunarbátnum Hafdísi.  Grétar Helgi Geirsson tók við gjöfinni fyrir hönd Geisla og þakkaði hann Loðnuvinnslunni fyrir stuðninginn og sagði í stuttu máli frá þeim verkefnum sem Hafdísin hefur sinnt til þessa.

Fimleikadeild Leiknis fékk eina milljón króna til tækakaupa. Elsa Sigrún Elísdóttir tók við gjöfinni fyrir hönd fimleikadeildarinnar. Hún þakkaði þessa góðu gjöf og sagði að þó svo að deildin væri smá þá væri hún nokkuð kná. Tæki og tól til fimleikaiðkunnar kosta mikla fjármuni og milljóninni skyldi varið til kaupa á þar til gerðri dýnu.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk fimm miljónir króna í sína góðu og þörfu starfssemi. Kristín Hanna Hauksdóttir tók á móti gjöfinni fyrir hönd Starfsmannafélgsins.

Og að lokum fékk Knattspyrnudeild Leiknis tíu milljónir króna. Er sá styrkur með nokkru öðru sniði en þeir sem áður hefur verið greint frá því að hluti af styrknum eru afnot af rútubíl Loðnuvinnslunnar, auglýsing á keppnistreyjum og fleira í þeim dúr sem metið er til áðurnefndrar fjárhæðar.  Magnús Ásgrímsson formaður Knattspyrnudeildar Leiknis tók við gjöfinni og þakkaði kærlega fyrir allan stuðninginn.  Nú þegar Leiknir spilar í 1.deild aukast ferðalög til muna  og þar af leiðandi verður allur rekstur þyngri.

Samanlagt úthlutuðu  Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrkjum uppá 22,6 milljónir króna með þeirri ósk að þeir muni  koma samfélaginu öllu til góða.

BÓA