Hoffell
Ljósafell
Nýr skrifstofustjóri Loðnuvinnslunnar hf
Steinþór Pétursson hefur verið ráðinn skrifstofustjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hann tekur við af Halldóri Snjólaugssyni sem hefur starfað hjá okkur í 20 ár.
Steinþór er 55 ára og hefur starfað sem framkvæmdastjóri Fjarðabyggðarhafna sl. 10 ár, þar áður sem sveitarstjóri í Búðahreppi og Austurbyggð í 12 ár.
Við bjóðum Steinþór velkominn til starfa og þökkum jafnframt Halldóri fyrir góð störf í þágu Loðnuvinnslunnar.
Syngjandi sæl
Það eru mörg verkefnin sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan styrkir. Sömuleiðis er mörgum stofnunum og félagasamtökum færðar góðar gjafir. Ein slík gjöf var afhennt heimilisfólkinu á Dvalarheimilinu Uppsölum á dögunum. Er það söngbók sem er sérstaklega útbúin fyrir þá sem þar búa og starfa. Söngbók þessi telur 93 síður og inniheldur rúmlega 100 sönglög, íslensk og erlend, en öll með íslenskum texta. Verður söngbókin notuð á vikulegum söngfundum heimilismanna.
Kunnu heimilsfólk Uppsala, sem og starfsfólk, vel að meta gjöfina og hefur bókin þegar verið tekin í notkun. „Hún er dásamleg“ sagði dama ein sem hefur heimilisfestar á Uppsölum, „lögin skemmtileg og letrið svo stórt og gott. Skilaðu innilegu þakklæti“ bætti hún við og annað heimilisfólk tók undir.
„Sælla er að gefa en að þyggja“ stendur skrifað og var það sannarlega upplifun greinarhöfundar sem varð þess heiðurs aðnjótandi að færa heimilisfólki Upplala þessa söngbók að gjöf og syngja með þeim fyrstu lögin úr bókinni. Þegar söngurinn var þagnaður, kaffisopinn búinn og tími til að halda sína leið voru þakkirnar ítrekaðar og er þeim hér með komið á framfæri.
BÓA
Hoffell
Ljósafell
Okkur líður eins og drottningum
Þann 19. janúar 1977 var austurlandið þakið snjó. Snjóskaflar hölluðu sér makindalega upp að húsveggjum og kyrrstæðum bílum, höfðu haft tækifæri til að safnast saman í óveðri sem geysað hafði nokkra daga á undan. Skammdegið var ríkjandi og þrátt fyrir hina hvítu mjöll var myrkrið ansi svart síðdegis, því tunglsljós var ekkert.
Inn í þetta umhverfi gengu tíu ungar konur sem höfðu ráðið sig til fiskvinnslustarfa hjá Hraðfrystihúsinu á Fáskrúðsfiði. Flugvél flutti þær frá Reykjavík til Egilsstaða þar sem rúta beið þeirra og ók þeim sem leið lá um Fagradal, út sunnanverðan Reyðarfjörð, fyrir Vattarnesskriður og inní Búðaþorp sem stendur við Fáskrúðsfjörð. Þar stöðvaði rútan fyrir framan Valhöll, hús sem hefur um langt árabil haft það hlutverk að hýsa fólk, ýmist sem hótel, gistihús eða verbúð. Í Valhöll skyldi heimili þessara ungu kvenna vera næstu mánuðina.
Flestar voru konurnar frá Ástralíu, en aðrar voru frá Nýja Sjálandi og einhverjar frá evrópulöndum en einhverra hluta vegna gengu þær undir samheitinu „áströlsku stelpurnar“ og þó að þær hafi ekki vitað það þá, ríkti álíka mikil spenna meðal bæjarbúa vegna komu þeirra eins og meðal þeirra sjálfra.
Nú fjörtíu árum síðar eru fimm af þessum konum staddar hér á Fáskrúðsfirði. Það eru þær Susan Chisholm, fædd á Nýja Sjálandi en hefur búið í Ástralíu í þrjátíu ár. Mystie Ford, fædd á Nýja Sjálandi, ólst upp að mestu í Skotlandi en býr nú í Ástralíu. Christine Selby, fædd á Nýja Sjálandi og býr þar enn. Lynette Hodder fædd í Ástralíu og býr þar enn og Denise Nolan, fædd í Ástralíu en hefur búið á Englandi s.l fjörutíu ár.
Greinarhöfundur hitti þær stöllur að máli í Kaupvangi, húsi sem stendur fast við hliðina á Valhöll, þeirra fyrsta heimili hér á Fáskrúðsfirði, og sögðu þær strax í upphafi samtalsins hvað þeim þætti vænt um að dvelja í þessu húsi því að Valborg Björgvinsdóttir, sem bjó í Kaupvangi á þeim tíma sem þær dvöldu hér, var ein af þeim konum sem tóku á móti þeim í frystihúsinu og kenndi þeim handtökin þar.
En hvernig datt konum í kring um tvítugt, frá fjarlægri heimsálfu, að ráða sig í fiskvinnu á Íslandi? Hugmyndin kom til þeirra á mismunandi hátt en þó með þeim sama hætti að þær fréttu af þessari vinnu frá öðrum. Susan og Christine voru að vinna á hóteli í Skotlandi, fengu sér göngu eftir vinnu á göngustíg einum og á krossgötum hittu þær tvær stúlkur sem sögðu þeim að þær hefðu verið að vinna í fiski á Íslandi. Mystie hafði verið að vinna í Ísarel sem hjúkrunarfræðingur og var nýlega komin heim til foreldra sinna í Skotlandi þegar hún frétti af því að hægt væri að fá vinnu við fisk á Íslandi. Systurnar Lynette og Denise störfuðu á hóteli í London þegar vinkona sagði þeim frá því að hún hefði verið að vinna á Íslandi í fiski og það væri mjög vel borgað. „Hún sagði að hún hefði aflað nægra peninga á fimm mánuðum til þess að ferðast um heiminn það sem eftir lifði ársins, og þá urðum við virkilega spenntar fyrir vinnunni“ sögðu þær Lynette og Denise.
Það sem þær þurftu að gera var að fara á ákveðna skrifstofu í London sem hét Icelandic Freezing company og sækja um. Var þetta skrifstofa sem réð fólk til starfa við fiskvinnslu allt í kring um Ísland. Sögðu dömurnar að þetta hefði nú varla verið starfsviðtal heldur hefðu þær verið spurðar að því hvort að þær væru hraustar og treystu sér til að vinna erfiðisvinnu og svo var þeim sagt að það þýddi ekkert að vera með heimþrá. Ekki höfðu þær áhyggjur af því þar sem þær höfðu allar ferðast töluvert um heiminn og voru nokkuð sigldar í þeim skilningi. Á þessari skrifstofu hittust þær tíu ungu konur í allra fyrsta sinn sem ferðuðust síðan saman alla leið til Fáskrúðsfjarðar og bjuggu síðan saman í sex mánuði en það var tíminn sem hver og ein var ráðin í upphafi.
Hvernig var upplifunin þegar þið komuð hér fyrst? „Það var skrýtið, það var svo dimmt og ég man að ferðalagið frá flugvellinum var svo langt og við sáum ekki neitt, það voru hvergi ljós. En svo þegar við stoppuðum fyrir utan Valhöll var ljós í hverjum glugga og ég vissi að þetta yrði góður tími“. Svona lýsir Lynette upplifun sinni. Og hinar taka í sama streng.
Vinnan í frystihúsinu var stundum erfið því það var mikill afli sem barst að landi sem þurfti að vinna. „En það var gaman, við vorum tvær og tvær saman á borði við að skera fiskinn og við gátum spjallað saman og það var oft mikið hlegið“ rifja þær upp. „Og svo gengum við heim í Valhöll í kaffitímum og í hádeginu og okkur fannst við alltaf vera svo heppnar að vinna í svona umhverfi. Þá mátti fara heim í sloppunum svo við þurftum ekki einu sinni að hafa fataskipti“ bættu þær hlæjandi við.
Þær unnu sér inn mikla peninga á þessu tímabili „við horfðum á upphæðina á bankabókinni vaxa“ sagði Christine „enda var ekki hægt að eyða miklum peningum hér í þorpinu nema í bíó og á böll þegar þau voru“.
Hvernig var ykkur tekið af heimamönnum? „Okkur var svo vel tekið, í frystihúsinu var fullt af fólki á öllum aldri sem tók okkur opnum örmum. Við vorum boðnar í mat og kaffi í heimahús, og meira að segja í fermingarveislu“ sögðu þær. Þá voru ungir menn sérstaklega duglegir að heimsækja þær í Valhöll og þar var oft glatt á hjalla. „Við vorum stundum þreyttar þegar við mættum í vinnu“ sögðu þær með dreymandi bros á vörum.
Af þeim tíu ungu konum sem komu í janúar ´77 eru þær sex sem hafa haldið sambandi í geng um árin. Fimm eru, eins og áður sagði, með í ferðinni en ein átti ekki heimagengt að sinni.
Þegar dömurnar voru inntar eftir því hvort að þessi tími sem þær eyddu hér á Fáskrúðsfirði sem ungar konur hefði haft áhrif á líf þeirra og hvort að þeim hefði stundum verið hugsað til þessa tíma verða svörin all tilfinningþrungin. Þær voru allar sammála um að þessi tími hefði haft mikil áhrif á líf þeirra og varla liðið sá dagur að þeim væri ekki hugsað til hans. Susan segir frá draumi sem hana hefur dreymt ítrekað s.l. fjörtíu ár þar sem henni finnst hún vera stödd á Fáskrúðsfirði og ávallt um vetrartíma því allt er þakið snjó. Í draumnum gengur hún um göturnar og sér fólk sem hún þekkti. Og þegar hún vaknar af draumnum er henni þungt fyrir brjósti.
Vökudrauminn um að koma aftur til Íslands og á Fáskrúðsfjörð hafa þær gengið með lengi. Tilvalið var að halda uppá fjörtíu ára tímamótin með því að koma en ferðalag frá Ástralíu og Nýja Sjálandi er bæði langt og dýrt.
„Við héldum að ein vika væri allt of langt stopp, það eru jú fjörtíu ár síðan við vorum hér, engin man eftir okkur og fólk sem fjörtíu ára og yngra var ekki einu sinni fætt!“ „þetta sögðum við hvor við aðra áður en við komum, en okkur langaði bara svo að koma aftur, kannski fá að kíkja inní frystihúsið en aðallega að ganga um bæinn og rifja upp góðar minningar“ sögðu þær. Og þær fara stórum orðum um móttökurnar „Jónína Óskarsdóttir hjálpaði okkur mikið að skipuleggja og hefur verið okkur innan handar, líka Esther Brune“ taka þær skýrt fram. „Okkur líður eins og drottningum, slíkar hafa móttökurnar verið. Við fengum frábæran túr í gegn um frystihúsið, Loðnuvinnslan bauð okkur í dásamlegan mat og gaf okkur gjafir“ og greinarhöfundur skynjar greinilega hversu dýrmæt þessi heimsókn hefur verið þessum konum. Þær lýsa því fjálglega hvernig fólk hefur stoppað þær út á götu og sagt „ég man eftir ykkur“ og það yljaði þeim um hjartarætur. Þá hittu þær fólk sem þær þekktu og það bauð þeim heim til sín. „Allt þetta góða viðmót og að upplifa að fólk man eftir okkur rétt eins og við eftir þeim er dásamleg lífsreynsla, og við gætum auðveldlega eytt annarri viku hér“ sögðu þær allar sem ein.
Allt of langt mál er að útskýra hvernig það atvikaðist að greinarhöfundur kvaddi þær Susan, Mystie, Christine, Lynette og Denise með því að syngja fyrir þær lagið Blíðasti blær eftir Óðinn G. Þórarinnsson, lagið sem við Fáskrúðsfirðingar köllum stundum „þjóðsöngin“ okkar. Og þegar komið var að kveðjustund var ekki þurr hvarmur í húsinu. Sú staðreynd að dvöl þessara „áströlsku stelpna“ áður og nú, hafi hreyft eins mikið við hjörtum þeirra og raun bar vitni var nóg til þess að greinarhöfundur deildi með þeim tárvotri stund í forstofunni í Kaupvangi.
BÓA
Níu hundruð tonn á aðeins tuttugu klukkutímum
Fimmtudagskvöldið 7.september kom Hoffell að landi með 900 tonn af Makríl. Bergur Einarsson skipstjóri sagði þessa veiðiferð hafa verið góða. „Við fengum þennan afla í Síldarsmugunni en þangað eru um 350 sjómílur þannig að nokkuð langt var að sækja“ sagði Bergur. Sigling í Síldarsmuguna tekur um 30 klukkustundir en þegar þangað kom veiddist aflinn í þremur holum og tók aðeins um 20 klukkustundir að ná þessum 900 tonnum. „Segja má að þetta sé fullfermi“, sagði Bergur því við setjum 40% af sjó á móti í lestarnar til að kæla aflann“. Að þessu sinni er fiskurinn nokkuð í meðallagi, 370 til 380 grömm að meðaltali.
En hvað skyldi áhöfin hafa fyrir stafni á 30 klukkustunda siglingu? „Menn þurfa að hvíla sig eftir að hafa vakað í sólarhring við veiðarnar, síðan taka við þrif og svo standa menn sínar vaktir“ svaraði skipstjórinn. „Svo reyna menn að hafa svolítið gaman rétt eins og á öðrum vinnustöðum“ bætti hann við.
Það tekur síðan um þrjá sólarhringa að landa aflanum því hann er unnin jafnóðum og hann kemur úr skipinu og vegna kælingarinnar og þess hve túrinn var stuttur er hráefnið með ferskasta móti. Þetta er mikill afli fyrir vinnsluna í landi og þó svo að Hoffell gæti borið meiri afla er reynt að stilla því þannig að landvinnslan ráði við aflann sem kemur að landi hverju sinni. Aflinn er unnin til manneldis.
Hoffell á tæplega 10 þúsund tonna kvóta í Makríl og eftir þennan túr hefur skipið komið með 4700 tonn að landi,auk 400 tonna úr grænlenskri landhelgi. Eftir standa 4600 tonn þannig að einhverjir túrar eru eftir. Ekki svo ýkja margir ef áfram gengur sem horfir.
BÓA
Hoffell
Hoffell kemur í kvöld með 900 tonn af makríl úr Smugunni, veiðin tók aðeins 20 tíma.
Ljósafell
Ljósafell að fara niður úr slipp á Akureyri.
Hoffell
Hoffell kom með 850 tonn af makríl úr Smugunni á sunnudag.
Skipið stoppaði sólarhring á miðunum en 360 mílur eru þangað. 28 tíma sigling var heim í góðu veðri.