Hoffell

Hoffel er nú að landa um 1050 tonnum af makríl. Fyrir liggur að reyna einn túr í viðbót á þessum veiðiskap, að löndun lokinni.

Hoffell

Hoffell er nú að landa um 1000 tonnum af makríl til vinnslu og verður unnið við uppsjávarfyrstingu alla helgina. Aflinn fékkst í Smugunni og hefur áhöfn Hoffells gengið vel að undanförnu. Í Aflafréttum birtist nýlega frétt að eftir síðustu löndun Hoffells væri skipið orðið aflahæst í makríl með um 7.200 tonn. Við það bætast svo þessi 1000 tonn sem er verið að landa nú.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 70 tonnum. Uppistaðan var ufsi og karfi. Skipið fór aftur til veiða kl 17:00 í gær að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell landaði í dag um 75 tonnum. Uppistaðan ufsi og þorskur. Skipið heldur svo aftur til veiða í dag kl. 18:00, eftir að löndun og öryggisfræðslu sjómanna lýkur.

Hoffell

Hoffell landaði um helgina um 940 tonnum af makríl sem veiddist í Smugunni. Skipið fór svo út aftur í gærkvöld til sömu veiða, að lokinni löndun og öryggisfræðslu sjómanna.

Aldrei gott að fiska mikið áður en farið er af stað

Þegar Hoffellið skreið út Fáskrúðsfjörðinn í logninu í kvöld, miðvikudaginn 5.sept,  sló greinarhöfundur á þráðinn í brúnna og Páll Sigurjón Rúnarsson tók undir. Ástæða hringingarinnar var sú að Hoffellið  er komið yfir 1 milljarð króna í aflaverðmætum. Það er, sá afli sem Hoffell hefur komið með að landi síðan 1.janúar s.l. er andvirði rúmlega 1 milljarðs, samtals um 32 þúsund tonn.  Að því tilefni var áhöfninni færð terta og aðspurður sagði Páll, sem er starfandi skipstjóri á Hoffellinu, að engin tími hefði verið til að gæða sér á tertunni áður en lagt var úr höfn. „Hún verður höfð sem eftirréttarterta í kvöld“ sagði hann.  Hoffell er leið í Smuguna á makrílveiðar svo að framundan er löng sigling, einar 420 sjómílur sem taka um 30 klukkustundir að sigla.  Þegar Páll var spurður að því hvort að hann væri ekki ánægður með árangur Hoffellsins svaraði hann hógvær að alltaf væri ánægjulegt þegar vel gengi.  Að lokum var  Páll inntur eftir því  hvort að hann ætti von á að þeir yrðu snöggir að fá skammtinn svaraði hann að bragði: „ja, spáin er góð og það er búið að vera veiði þarna, en það er aldrei gott að fiska mikið áður en maður fer af stað“.  Þetta þótti greinarhöfundi gáfulega mælt og hefur engu við að bæta að sinni.

BÓA

Hoffell

Hoffell á landleið með rúm 900 tonn af makríl sem fékkst í Smugunni eftir um sólarhring á veiðum. Skipið er væntanlegt um miðjan dag á morgun, mánudag 3. september.

Ljósafell

Ljósafell er komi inn með síðasta farm kvótaársins, enda gamársdagur kvótakerfisins í dag. Aflinn er um 58 tonn af ýsu, þorski og ufsa. Skipið heldur aftur til veiða á laugardagskvöld.

Hoffell

Hoffell kom til löndunar í fyrradag með um 920 tonn af makríl. Skipið fór svo aftur til sömu veiða í gærkvöld og er stefnan sett á Smuguna, en þar hefur makríllinn verið mestu magni að undanförnu.

Sandfell slær met

Sandfellið hefur náð þeim frábæra áfanga að vera aflahæsti krókabáturinn frá upphafi með 2400 tonna afla á fiskveiðiárinu! Hefur útgerðin á Sandfelli gengið langt umfram væntingar enda var litið á línubátaútgerð sem svolítið tilraunaverkefni þegar hún hófst en annað hefur aldeilis komið á daginn eins og áfhöfnin á Sandfelli hefur sýnt og sannað.

Í tilefni árangursins var áhöfninni á Sandfelli færð terta sem var „afbragðsgóð og fín í magann“ eins og Örn Rafnsson skipstjóri á Sandfellinu hafði á orði. Þegar hann var spuður að því hverju hann vildi þakka þennan góða árangur sagði hann að það væru nokkrir samverkandi þættir. „Við erum í frjálsum veiðum, sem þýðir að það er ekkert sem að stoppar okkur nema veðrið. Við erum með tvær frábærar áhafnir, góðan bát og útgerð sem sér um að koma aflanum til vinnslu, við þurfum sem sé aldrei að stoppa vegna þess að vinnslan hafi ekki undan eða þess háttar“ sagði Örn. En langstærstur hluti þess afla sem Sandfell kemur með að landi er unnin í frystihúsi Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Örn sagði líka að það fyrirkomulag að vera tvær vikur á sjó og tvær vikur í fríi væri gott fyrirkomulag og samstarf áhafna væri mjög gott.  Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvað það væri sem bryti upp dagana þegar sjórinn er sóttur svona fast eins og gert er á Sandfellinu og Örn var ekki í vafa um svarið: „það er matartíminn, við erum alltaf spenntir að komast í mat, kokkarnir  eru mjög góðir og elda góðan mat og svo er það auðvitað sá tími dagsins sem við höfum tækifæri til að spjalla svolítið saman“.

Og nú er Sandfell á leið í slipp á Akureyri. Það þarf að hlú að vél og skrokk svo að Sandfellið haldi áfam að vera það happafley sem það hefur verið til þessa. Og er Örn skipstjóri var inntur eftir því hvort að hann setti sér aflamarkmið fyrir næsta fiskveiðiár sagðist hann ekki myndi gera það „markmiðið er það eitt að gera sitt allra besta“ sagði Örn Rafnsson.

BÓA

Þeir fiska sem róa

Nú þegar yfirstandandi fiskveiðiár er að renna sitt skeið á enda liggur fyrir sú staðreynd að Ljósafell Su 70 hefur slegið aflamet. Það er komið yfir 5 þúsund tonn af veiddum afla!  Fiskveiðiárið er frá 1.september til 31.ágúst ár hvert og þegar þessi orð eru rituð eru nákvæmlega fjórir dagar eftir til loka ársins þannig að einhver tonn eiga eftir að bætast við lokatöluna.  Er aflinn í ár u.þ.b 46% hærri en meðalafli seinustu 16 ára.  Að þessu tilefni var áhöfninni á Ljósafelli færð terta rétt áður en lagt var af stað í 51. túr ársins.  Það var létt yfir áhöfninni og masað á léttum nótum í messanum á meðan menn gæddu sér á tertunni og Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri skar fyrstu sneiðina og hafði það á orði að það mætti helst ekki skera í myndina af Ljósafellinu sem prýddi tertuna. Aðspurður sagði Ólafur Helgi að megin ástæða þess hversu vel hefði gengið væru auknar fiskheimildir og stíf sjósókn. Hann sagði líka réttilega að togurum hefði fækkað þannig að færri skip væru á miðunum.  Þá lagði skipstjórinn áherslu á hversu mikilvægt það væri að hafa góða áhöfn. „Topp mannskapur“ sagði Ólafur Helgi.

Ljósafell er farsælt og gott skip. Orðið 44 ára gamalt með 28 ára gamla vél sem gengið hefur 170 þúsund vinnustundir og þjónar ennþá vel.   „Við höfum aðeins einu sinni verið dregnir í land“ sagði Ólafur Helgi kíminn, „og þá fengum við tjábol í skrúfuna“.  Skipstjórinn var að fara í frí þannig að greinarhöfundur naut þeirrar forréttinda að standa við hlið hans á bryggjunni og horfa á eftir Ljósafellinu, skipinu sem hann hefur talist til áhafnar á í tæp 40 ár,  sigla út fjörðin í ljósaskiptunum og í huganum sendum við áhöfn og skipi góðar óskir um fengsæld og örugga heimkomu.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 100 tonnum af blönduðum afla. Mest af ufsa, 42 tonn.
Skipið siglir aftur á veiðar í kvöld, mánudag 27. ágúst kl 20:00.