Ljósafell kom inn í dag með 100 tonn .

Ljósafell kom inn í morgun með 100 tonn, aflinn var 38 tonn Karfi, 35 tonn Ufsi, 15 tonn Þorskur, 5 tonn Ýsa og annar afli. Ljósafell fer út kl. 13 á morgun.

Frönsk ungmenni í íslenskum lopapeysum

Í úrhellis rigningu á sunnudagssíðdegi hjólaði greinarhöfundur út úr bænum í þeim tilgangi að hitta á þrjú ungmenni, sem voru að hjóla meðfram suðurströnd Fáskrúðsfjarðar, en ferð þeirra var heitið á safnið Frakkar á Íslandsmiðum. Þegar þau birtust út úr suddanum voru þau blaut og þreytt og svolítið kalt en brosandi glöð og ánægð með að vera komin á leiðarenda… í bili.

Þarna voru á ferð þrjú frönsk ungmenni, þau Lucas Gsn, Eva Ennaert og Théo Chrétien frá  Dunkerque í Frakklandi og tilgangur ferðar þeirra er að heiðra minningu frönsku sjómannanna sem stunduðu fiskveiðar við strendur Íslands og ekki síst þeirra sem ekki skiluðu sér heim heldur liggja ýmist í votri gröf eða hvíla í íslenskri mold.

Þau Lucas, Evu og Théo fannst að þau þyrftu að hafa svolítið fyrir ferðalaginu, svona til að minna sig á hversu erfitt líf og starf frönsku sjómannanna var og þess vegna ákváðu þau að hjóla frá Keflavík til Fáskrúðsfjarðar.  En veður geta verið válynd á landinu okkur bláa jafnvel um mitt sumar og þegar stormi var spáð á leið þeirra tóku þau þá ábyrgu ákvörðun um að taka rútu yfir mesta veðursvæðið. Að öðru leiti hafa þremenningarnir stigið hjólin sín, og eins og áður sagði, komu til Fáskrúðsfjarðar síðdegis á sunnudag.

Það kom þeim á óvart að einhver skyldi hitt þau og fylgja þeim til bæjar og þau tóku undanfaranum fagnandi, heilsuðu hlýlega og vildu gjarnan byrja á því að taka mynd. Þá hætti að rigna, eins skyndilega og rigninginn hófst,  sólin gægðist fram og loftið angaði af sjó, gróðri og ef til vill svolítilli hamingju.

Því næst var hjólað í rólegheitum inn í þorpið og spjallað á leiðinni. Þegar frönsku ungmennin þrjú hjóluðu í hlað hjá safninu stóð þar hópur af löndum þeirra, sem fyrir tilviljun var á safninu ásamt safnvörðunum Fjólu og Önnu, veifuðu franska fánanum og fögnuðu komu þeirra með hrópum og klappi. Þá mátti sjá geðshræringu í andlitum hjólreiðakappanna ungu.

Það er svo dýrmætt í litlum samfélögum hvað samtakamátturinn getur orðið stór. Evu, Lucasi og Théo var boðin gisting í Kaupvangi hjá Birnu og Bæring. Café Sumarlína bauð þeim að borða, l´Abri bauð þeim líka hressingu, þau fengu ýtarlega leiðsögn um safnið Frakkar í Íslandsmiðum, þeim var boðið í sund og síðast en ekki síst gaf Loðnuvinnslan þeim lopapeysur sem þau fengu að velja sjálf í Gallerí Kolfreyju.

Unga fólkið fór með litla táknræna gjöf í franska grafreitinn, þar áttu þau stund og minntust allra þeirra sem þar hvíla og fórnum þeirra til handa fólkinu sínu sem eru landar, nágrannar og vinir þeirra Théo, Lucasar og Evu.

Frönsku ungmennin kveðja Fáskrúðsfjörð með gleði, sátt og þakklæti. Þau biðja fyrir kveðjur til allra sem tóku þeim opnum örmum og ráðgera að hjóla norður í land, að klára hringinn, og enda svo í Keflavík aftur og fljúga heim. En nú eiga þau góðar lopapeysur sem duga vel gegn kulda, í vindi sem regni,  og hvaða veðri sem kann að mæta þeim á ferð þeirra.

LVF óskar þeim góðrar ferðar og góðrar heimkomu.

BÓA

Greinarhöfundur ásamt Evu, Lucasi og Théo við komuna. Í bakgrunni má sjá hluta af franska hópnum sem bauð hjólreiðakappana velkomna.

Ljósmynd: Fjóla Þorsteinsdóttir

Í fallegu lopapeysunum sem þau fengu að gjöf frá Loðnuvinnslunni.

Ljósmynd: Fjóla Þorsteinsdóttir

Ljósafell kom inn í morgun með 110 tonn.

Ljósafell kom inn í morgun með 110 tonn af fiski.  Aflinn var 40 tonn Þorskur, 35 tonn ufsi, 22 tonn Karfi, 8 tonn Ýsa og annar afli.

Ljósafell fer út kl. 13:00 á fimmtudag.

Hoffell á landleið með 700 tonn af Makríl.

Hoffell er á landleið með 700 tonn af Makríl.  Veiðin er að byrja í smugunni sem er 380 mílur frá Fáskrúðsfirði.

Hoffell verður á Fáskrúðsfirði í nótt. Túrinn gekk vel á nýju skipi mikið að læra í fyrsta túr fyrir áhöfnina. Farið verður út strax eftir löndun.

default

Hoffell á landleið með 700 tonn af Makríl.

Hoffell er á landleið með 700 tonn af Makríl.  Veiðin er að byrja í smugunni sem er 380 mílur frá Fáskrúðsfirði.
Hoffell verður á Fáskrúðsfirði í nótt. Túrinn gekk vel á nýju skipi mikið að læra í fyrsta túr fyrir áhöfnina.
Farið verður út strax eftir löndun.

Key Breeze

Key Breeze er að taka tæp 2.900 tonn af lýsi til Evrópu.

Sandfell og Hafrafell á toppnum

Listi númer 2,

bátar yfir 21 BT í júní.nr.2.2022

Roslaega lítið um að vera og veiðin hjá  bátunum ekkert til þess að hrópa húrra fyrir

kemur ekki á óvart enn Sandfell SU með 16,7 tonn í 3 og kominn yfir 100 tonnin.

Hafrafell SU 19,3 tonn í 2

Kristján HF 17,9 tonní 2

Háey I ÞH 11,6 tonn í 2

Óli á Stað GK 8,3 tonn í 2

Ljósafell með 90 tonn

Ljósafell kom inn í morgun með 90 tonn, aflinn var 43 tonn þorskur, 25 tonn ufsi, 13 tonn ýsa, 5 tonn karfi og annar afli.
Skipið fer út aftur kl. 13 á morgun.

Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson


Nýtt Hoffell komið til heimahafnar

Fáskrúðsfjörður skartaði sínu fegursta í dag þegar nýtt uppsjávarskip Loðnuvinnslunnar sigldi fyrsta sinni til nýrrar heimahafnar. Skipið hefur fengið nafnið Hoffell og leysir af hólmi eldra skip Loðnuvinnslunnar sem bar sama nafn.

Margir stóðu á bryggjunni og fögnuðu komu skipsins, séra Jóna Kristín Þorvaldsdóttir blessaði skip og áhöfn, Fanney Linda Kristinsdóttir, starfsmaður Loðnuvinnslunnar,  gaf skipinu nafnið Hoffell og síðan fluttu ávörp þau Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri LVF og Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri.  Þá var öllum viðstöddum boðið að ganga um borð, skoða skipið og þiggja veitingar.

Nýja Hoffellið er fagur grænt líkt og hið eldra, stærra, sterkara og betra að öllu leiti, enda var það markmiðið með skipaskiptunum, að betrumbæta og endurnýja.

Skipið er smíðað í Danmörk árið 2008 og er 2.530 rúmmetrar og ber u.þ.b. 2500 tonn af afla sem er all nokkuð  stærra en fyrra skip.

Kjartan Reynisson er útgerðarstjóri LVF og var að vonum sporléttur og brosmildur í tilefni dagsins. Hann sagði nýja skipið væri umtalsvert lengra og breiðara og burðargeta þess væri um 53% meiri heldur en fyrra Hoffell.  „Stóra málið fyrir okkur er að sækja meiri afla í færri ferðum og gildir það jafnt hvort heldur við erum að veiða kolmunna eða makríl og þó sér í lagi á loðnuveiðum þar sem hrogna tíminn er takmarkaður“ sagði Kjartan. Þá nefndi hann það líka að olíueyðsla á veitt tonn yrði minni á þessu nýja skipi.

Sigurður Bjarnason er skipstjóri á Hoffelli og kom siglandi á því frá Florö í Noregi, þar sem það var tekið í slipp og málað,  til Íslands og sagði hann skipið láta afar vel í sjó. „Ég er mjög ánægður með skipið, það er ekki hægt annað“ sagði skipstjórinn og lét þess getið að það hefði verið bræla nánast alla leið milli Noregs og Íslands og skipið hefði látið vel í sjó og farið mjög vel með mannskapinn.  Hann sagði líka að skipið væri vel tækum búið og  nú væri bara að klára formsatriði varðandi skráningu skipsins á Íslandi og skoðun á búnaði og að því loknu yrði siglt beint á makrílveiðar.  „Ég hef góða tilfinningu gangvart þessu skipi, og er með góða áhöfn, ég geri ekkert einn“ sagði Sigurður skipstjóri og gekk um boð síðastur manna.

Smári Einarsson er skipverji á Hoffelli og greinarhöfundur greip hann á bryggjunni og spurði hvernig honum litist á að vinna á nýju skipi. „Mér líst mjög vel á það“ sagði Smári, „þetta er gott skip, betri vinnuaðstaða að öllu leiti og það var mjög gott í brælunni á leiðinni heim“ sagði hann og bætti svo við „þetta skip var í brælu eins og hitt í blíðu“.

Högni Páll Harðarson er yfirvélstjóri og hans ríki er mest í iðrum skipsins. Þar er Mak aðalvél sem er 8100 hestöfl auk tveggja ljósavéla sem eru um 1200 hestöfl hvor og svo sú þriðja  sem er nokkuð minni. Högni sagði að starf vélstjóra væri í raun hið sama þó svo að skipið væri stærra, þó sannarlega væri verið að vinna með nýrri búnað og tæki. „Starfið felst að stóru leiti í vöktun á búnaði, sinna viðvörunum ef þær gera vart við sig alls konar græjum er snýr beint að aflanum eins og að undirbúa lestar, kæla sjó og kæla aflann“.  Þá sagði Högni að skipið væri töluvert öflugra en hið eldra og stöðugra. „Það getur reynst erfitt að sinna viðhaldi ef maður þarf að nota aðra höndina til þess að halda sér því skipið veltur svo mikið“ sagði yfirvélstjórinn og bætti svo við kankvís  „stundum skiptir stærðin máli“.

Allt virðist vera rúmgott í þessu stóra skipi, hvergi þarf að smeygja sér eða troða og á yfirferð um skipið gekk greinarhöfundur fram á mótorhjól, tryggilega fest niður og auðvitað vakti það forvitni. Getur verið að þegar áhöfn Hoffells sagði að í því væri allt til alls  að mótorhjól væri hluti af því?.  En sú reyndist ekki raunin.

Högni Páll hefur lengi stundað sjómennsku en tók hlé á sjómennskunni um nokkurra ára skeið og vann í landi. Árið 2020 ákvað hann að hætta að vinna og fara að njóta lífsins lystisemda, sem í hans tilviki er að ferðast um á mótorhjóli. Hann fór ásamt konu sinni í 2ja mánaða ferðalag sem þau enduðu í Osló og ákváðu að geyma hjólin þar, skreppa heim og taka síðan upp þráðinn og halda ferðinni áfram. En allt kom fyrir ekki, heimsfaraldur setti þar strik í reikninginn og tveimur árum síðar voru hjólin enn í Osló. Það kom þó ekki að sök því hjónin eiga fleiri hjól upp á að hlaupa svo ekki féll mikið ryk á hjálmana. „Formúlan um það hversu mörg hjól mótorhjóla manneskja þarf er N + 1, þar sem N stendur fyrir núverandi fjöldi“ upplýsti Högni Páll og greinarhöfundur tók þessari formúlu fegins hendi og sá fyrir sér að þessa formúlu megi færa upp á skó, hljóðfæri eða hvað annað sem mannveru langar að eiga í meira en einu eintaki. Högni Páll skrapp svo til Oslo í maí og náði í hjólið sitt  en sá sér svo leik á borði þegar hann var í Noregi að sækja Hoffell að fljúga yfir til Osló og aka hjólinu til Florö og hífði það svo bara um borð.

Það er stór dagur í byggðarlagi sem hefur afkomu sína af sjávarútvegi að fá nýtt skip til heimahafnar og full ástæða til að óska öllum íbúum til hamingju. En sérstakar kveðjur og óskir fær áhöfn og skip, megi framtíðin vera ykkur farsæl og fengsæl.

Föðurland vort hálft er hafið,

helgað þúsund feðra dáð.

Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,

þar mun verða stríðið háð.

Yfir logn og banabylgju

bjarma skín af Drottins náð.

Föðurland vort hálft er hafið,

hetjulífi og dauða skráð.

(Jón Magnússon)

BÓA

Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson
Hoffell komið að bryggju, fánum prýtt.
Mótorhjólið víðförla.

Nýtt Hoffell SU-80 siglir inn í brakandi blíðu

Það var sannkölluð rjómablíða þegar nýtt og glæsilegt Hoffell sigldi inn fjörðinn rétt fyrir kl 10:00 í morgun.

Í dag kl. 14:00 verður móttökuathöfn við Bæjarbryggjuna þar sem hið glæsilega skip verður blessað og því gefið nafn. Að athöfn lokinni verður skipið til sýnis og eru allir velkomnir. Sjómenn úr áhöfninni munu fara um skipið með gestum.

Við hvetjum Fáskrúðsfirðinga ásamt íbúum Fjarðabyggðar og aðra gesti til að koma og samgleðjast með okkur á þessum stóru tímamótum í sögu fyrirtækisins.

Hér siglir skipið inn fjörðinn ný málað og glæsilegt með fajllið Hoffell í baksýn. Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Fákrúðsfjörður skartar sínu fegursta er hann tekur á móti glæsilegu uppsjávarskipi Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósmynd: Óskar Þór Guðmundsson
Ljósmynd: Óskar Þór Guðmundsson