Í úrhellis rigningu á sunnudagssíðdegi hjólaði greinarhöfundur út úr bænum í þeim tilgangi að hitta á þrjú ungmenni, sem voru að hjóla meðfram suðurströnd Fáskrúðsfjarðar, en ferð þeirra var heitið á safnið Frakkar á Íslandsmiðum. Þegar þau birtust út úr suddanum voru þau blaut og þreytt og svolítið kalt en brosandi glöð og ánægð með að vera komin á leiðarenda… í bili.

Þarna voru á ferð þrjú frönsk ungmenni, þau Lucas Gsn, Eva Ennaert og Théo Chrétien frá  Dunkerque í Frakklandi og tilgangur ferðar þeirra er að heiðra minningu frönsku sjómannanna sem stunduðu fiskveiðar við strendur Íslands og ekki síst þeirra sem ekki skiluðu sér heim heldur liggja ýmist í votri gröf eða hvíla í íslenskri mold.

Þau Lucas, Evu og Théo fannst að þau þyrftu að hafa svolítið fyrir ferðalaginu, svona til að minna sig á hversu erfitt líf og starf frönsku sjómannanna var og þess vegna ákváðu þau að hjóla frá Keflavík til Fáskrúðsfjarðar.  En veður geta verið válynd á landinu okkur bláa jafnvel um mitt sumar og þegar stormi var spáð á leið þeirra tóku þau þá ábyrgu ákvörðun um að taka rútu yfir mesta veðursvæðið. Að öðru leiti hafa þremenningarnir stigið hjólin sín, og eins og áður sagði, komu til Fáskrúðsfjarðar síðdegis á sunnudag.

Það kom þeim á óvart að einhver skyldi hitt þau og fylgja þeim til bæjar og þau tóku undanfaranum fagnandi, heilsuðu hlýlega og vildu gjarnan byrja á því að taka mynd. Þá hætti að rigna, eins skyndilega og rigninginn hófst,  sólin gægðist fram og loftið angaði af sjó, gróðri og ef til vill svolítilli hamingju.

Því næst var hjólað í rólegheitum inn í þorpið og spjallað á leiðinni. Þegar frönsku ungmennin þrjú hjóluðu í hlað hjá safninu stóð þar hópur af löndum þeirra, sem fyrir tilviljun var á safninu ásamt safnvörðunum Fjólu og Önnu, veifuðu franska fánanum og fögnuðu komu þeirra með hrópum og klappi. Þá mátti sjá geðshræringu í andlitum hjólreiðakappanna ungu.

Það er svo dýrmætt í litlum samfélögum hvað samtakamátturinn getur orðið stór. Evu, Lucasi og Théo var boðin gisting í Kaupvangi hjá Birnu og Bæring. Café Sumarlína bauð þeim að borða, l´Abri bauð þeim líka hressingu, þau fengu ýtarlega leiðsögn um safnið Frakkar í Íslandsmiðum, þeim var boðið í sund og síðast en ekki síst gaf Loðnuvinnslan þeim lopapeysur sem þau fengu að velja sjálf í Gallerí Kolfreyju.

Unga fólkið fór með litla táknræna gjöf í franska grafreitinn, þar áttu þau stund og minntust allra þeirra sem þar hvíla og fórnum þeirra til handa fólkinu sínu sem eru landar, nágrannar og vinir þeirra Théo, Lucasar og Evu.

Frönsku ungmennin kveðja Fáskrúðsfjörð með gleði, sátt og þakklæti. Þau biðja fyrir kveðjur til allra sem tóku þeim opnum örmum og ráðgera að hjóla norður í land, að klára hringinn, og enda svo í Keflavík aftur og fljúga heim. En nú eiga þau góðar lopapeysur sem duga vel gegn kulda, í vindi sem regni,  og hvaða veðri sem kann að mæta þeim á ferð þeirra.

LVF óskar þeim góðrar ferðar og góðrar heimkomu.

BÓA

Greinarhöfundur ásamt Evu, Lucasi og Théo við komuna. Í bakgrunni má sjá hluta af franska hópnum sem bauð hjólreiðakappana velkomna.

Ljósmynd: Fjóla Þorsteinsdóttir

Í fallegu lopapeysunum sem þau fengu að gjöf frá Loðnuvinnslunni.

Ljósmynd: Fjóla Þorsteinsdóttir