Ljósafell á ralli

Undanfarna daga hefur Ljósafell verið á hinu svokallaða togararalli á vegum  Hafrannsóknastofnunar. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir að  helsu markmið með rallinu sé: “að fylgjast með breytingum á stofnstærðum, aldurssamsetningu, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Einnig verður sýnum safnað vegna ýmissa rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi. Erfðasýni verða tekin úr nokkrum fisktegundum, athuganir gerðar á botndýrum og mat lagt á magn ýmiskonar rusls á sjávarbotni”.

Hafa rannsóknatúrar af þessu tagi verið farnir á vegum Hafrannsóknarstofnunar síðan 1985 og byggja kvótastærðir næsta fiskveiðiárs á þeim niðurstöðum sem þar fást.

Ljósafellið landaði í Reykjavík í dag, fimmtudaginn 7.mars, 85 tonnum af blönduðum afla en þó mestmegnis karfa.  Hjálmar Sigurjónsson var skipstjóri í þessum túr og bar hann sig vel þegar greinarhöfundur hafði uppá honum. Hann sagði að allt hefði gengið vel og það væri búið að toga á 81 stöð af 147.  Og þegar hann var spurður að því hvort að aflinn sem Ljósfell hefur fengið í rallinu gæfi vísbendingar til aukins þorskkvóta á næsta kvótaári, hló hann við og sagði það ekki vera í sínum verkahring að áætla neitt í þeim efnum. “Við erum með 7 einstaklinga frá Hafrannsókastofnun um borð sem safna upplýsingum og síðan lesa úr þeim vísindamenn og aðrir sérfræðingar” bætti Hjálmar við.

Ljósafell fer aftur af stað í kvöld og mun þá ljúka við að toga í þeim hólfum sem eftir eru. Til gamans fylgir hér með mynd af þeirri leið sem Ljósafell hefur farið og þegar myndin er skoðuð virðist nokkuð augljóst af hverju þessir rannsóknaleiðangrar hafa fengið viðurnefnið “rall” því þetta lítur út fyrir að vera óttalegt “rally”.

Myndin er fengin af heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

BÓA

Hinn japanski Mikki

Hér á Búðum er staddur maður nokkur að nafni Mikio Fusada. Hann japanskur fiskkaupandi og starfar hjá fyrirtæki sem heitir Kyokuyo co. LDT. Mikio er mikill Íslandsvinur, svo að tekið sé upp orðfæri sem stundum er haft um hina ríku og frægu. Hann hefur dvalið hér á landi í lengri eða skemmri tíma á hverju ári í rúma þrjá áratugi, hann er orðinn svo heimavanur hér að kunningjar og vinir á Íslandi eru farnir að kalla hann Mikka. 

Fyrir hönd fyrirtækisins sem Mikki starfar hjá kaupir hann síld, makríl og síðast en ekki síst, loðnu.  Hann hefur keypt af Loðnuvinnslunni síðan árið 1995 og hann sagðist ávalt hafa verið ánægður með gæði, enda sagðist maðurinn ekki kaupa neitt nema það sem væri fyrsta flokks því hans viðskiptavinir vildu ekkert annað og ættu ekkert minna skilið.  En Mikki er áhyggjufullur. Hann hefur stórar áhyggjur af loðnubresti því að Japanir neyta loðnu í miklum mæli.  Hann hefur líka áhyggjur af því að verði loðna veidd af aðeins einni þjóð af þeim sem hann er vanur að kaupa af, (Ísland, Noregur og Kanada)  en ekki öðrum, verði verðið svo hátt að hinn almenni neytandi í Japan geti ekki keypt sér loðnu til matar.  Um þetta ræddum við Mikki  á kaffistofunni í frystihúsinu í góðu yfirlæti.

Hann Mikki hefur líka skoðun á fiskveiðistjórnun, enda maðurinn sérfræðingur í þeim efnum, og hann fræddi greinarhöfund heilmikið um aðferðir við að kanna stofnstærðir og þess háttar sem ekki verður farið nánar út í að svo stöddu. Hann talaði um nútíma aðferðarfæði og þær sem notaðar voru áður fyrr og sagði að þær aðferðir dyggðu jafn vel núna og áður. “Það þarf ekki annað en að taka stóran þorsk í febrúar og mars og opna hann, ef hann er fullur af loðnu, þá er stofninn góður, en ef það finnst engin loðna í þorskinum þá er engin loðna” sagði Mikki.  Hann talaði líka um hvað margt hefur breyst á Íslandi, sem og í heiminum öllum, á þessum áratugum sem hann hefur starfað við að ferðast um heiminn.  En hann Mikki ferðast ekki bara til Íslands til að kaupa fisk, hann fer um allan heim.  “Ég er svona 5 til 6 mánuði heima en hina mánuði ársins er ég á ferð og flugi um heiminn, auk þess sem ég ferðast líka innan Japan.   En heima á Mikki konu, uppkomna dóttur og tvö barnabörn. Hann sýndi greinarhöfundi stoltur myndir af barnabörnunum í símanum sínum, 15 ára stúlka og 13 ára drengur, afar myndarlegir unglingar.  En við það að kíkja á skjáinn hjá Mikka mátti sjá að uppistaðan í myndunum hans voru myndir af fiskum… loðnu og aftur loðnu. Misjafnt höfumst við að, mannfólkið.

Eftir nokkuð langt spjall um áhyggjur Mikka af framtíðinni hvað loðnubrest varðar, við Íslendingar getum kannski sett okkur í þau spor að fá ekki þorsk, eða lambakjöt, eða kartöflur, eða eitthvað sem okkur sem þjóð þykir ómissandi, þá tókum við upp léttara hjal. Við fórum að tala um bíla. Þá skemmtilegu staðreynd að japanskir bílar eru vinsælir á Íslandi.  Að vonum var Mikki ánægður með það og sagði brosandi að það væri ekkert vit í öðru. Sjálfur ætti hann Lexsus og konan hans Toyota bíl. Hann hafði orð á því að þegar hann kom fyrst til Íslands fyrir margt löngu síðan þá hafi hér verið mikið af rússneskum bílum, “en nú eru Subaru komnir í staðinn fyrir Lada” sagði Mikio Fusada að lokum og brosti svo breitt að augun hurfu á bak við brosið.

BÓA

Hoffell

Hoffell er nú að landa fullfermi af kolmunna sem fékkst á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. Skipið heldur aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Hoffell með fullfermi

Hér áður fyrr var talað um að þreyja Þorrann og Góuna. Þetta orðatiltæki var notað þegar fólk þurfti að þola tímabunda erfiðleika því sannarlega eru þessir mánuðir þeir erfiðustu á Íslandi. Og í gamla daga þegar híbýli fólks voru ekki sömu gæðum gædd og nú, og matur var oft af skornum skammti, þá þráðu menn hækkandi sól og mildari veður.  En hafsins hetjur eru ekki að horfa á dagatalið. Nú orðið fara sjómenn til veiða þegar aflinn býðst. Skip og bátar verða betri og betri og um leið öryggi þeirra sem á sjóinn sækja. 

Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði með fullfermi af kolmunna að morgni 22.febrúar.  Aflinn var fenginn á alþjóðlegu hafsvæði 270  mílum vestur af Írlandi.  En frá heimahöfn að miðunum eru um 700 mílur, þannig að langt er að fara.  Túrinn tók sex daga frá því að landfestar voru leystar og þar til þær voru bundnar aftur.

Veiðarnar gengu afbragðsvel og sagði Bergur Einarsson skipstjóri að þessi 1.600 tonn hefðu fengist á 36 klukkustundum og þegar hann var spurður að því hvernig áhöfninni hefði tekist að fylla á svona skömmum tíma svaraði hann því til að veðrið hefði verið hagstætt, það hefði aðeins þurft að stoppa í fjórar klukkustundir þegar veðrið var óhagstætt.  En veður á þessu hafsvæði geta verið válynd og jafnvel þegar það er logn geta verið himinháar öldur.

“Hvernig veistu hvar þú átt að finna kolmunna?” spurði greinarhöfundur og kom þar með upp um fákunnáttu sína á fiskveiðum almennt. “Ætli það sé ekki sambland af vísindum, tækni, reynslu, innsæi  og á stundum heppni” svaraði Bergur hæglega enda hafði hann ekki tíma til að fara djúpt í þá sálma þar sem Hoffell siglir aftur á sömu mið strax og löndun líkur. 

BÓA

Hoffell

Hoffell er nú að landa fullfermi af kolmunna sem fékkst á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. Skipið heldur aftur til sömu veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 90 tonnum og var uppistaðan þorskur og karfi. Skipið hélt aftur á veiðar að löndun lokinni.

Skipstjórinn á Slaatterøy

Norska uppsjávarskipið Slaatterøy kom með 1.600 tonn af kolmunna til bræðslu hjá Loðnuvinnslunni.  Lagðist Slaatterøy að bryggju að kvöldi 18. febrúar og gert var ráð fyrir tæplega sólarhrings stoppi til þess að landa aflanum.  Skipstjóri á þessu fallega rauða skipi er maður að nafni Asle Halstenssen, 46 ára gamall Norðmaður sem ólst upp við sjávarsíðuna og við fiskiskipaútgerð.  Þegar greinarhöfundur kom að skipshlið kom í ljós að nokkuð klöngur yrði fyrir landkrabbann að komast um borð en Asle skipstjóri var ekki í neinum vandræðum með að koma í land.  Fór spjall okkar því fram með fast land undir fótum.  

Slaatterøy er skráð í Bergen en að sögn Asle eru það lög í Noregi að skip skulu skráð í borg þrátt fyrir að höfuðstöðvar og heimahöfn  hafi alltaf verið á Austevoll sem er sveitarfélag suðvestur af Bergen og samanstendur af allmörgum eyjum.  Samkvæmt upplýsingum um Austevoll á Internetinu.  Er þar að finna eina af stærstu fiskiskipahöfnum í heimi.

Útgerð Slaatterøy er fjölskyldufyrirtæki. Asle er lítill hluthafi en faðir hans og frændi eru stærstu eigendur útgerðarinnar.  Er Halstensen eldri enn í fullu starfi, á 74 aldursári, við að stjórna þessari blómlegu útgerð sem samanstendur af þremur uppsjávarveiðiskipum og einu stóru fjölveiðiskipi sem fullvinnur aflann um borð.  Þegar greinarhöfundur hváði við að heyra aldurinn á manninum við stjórnartaumana svarið Asle “hann er hraustur og hefur frábæra konu sér við hlið sem sér um allt annað” og átti þar við móður sína, en greinilegt er að fyrirtækið er eigendum þess kært enda búið að vera í eigu fjölskyldunnar síðan það var stofnað árið 1897.

Slaatterøy þykir orðið frekar gamalt skip, byggt árið 1997, en Asle segir að það sé afbragðs gott skip í mjög góðu standi.  Hann hafði líka orð á því að vélin í Slaatterøy væri önnur stærsta vélin í fiskiskipaflota Norðrmanna eða heil 9000 hestöfl.  Asle sagðist geta sagt það sama og fyrri eigandi Slaatterøy, sem hafi keypt hana nýja til Hjaltlandseyja, hefði sagt þegar hann seldi hana til Noregs að hann vildi fá annað alveg eins skip, bara nýtt.  Það hljóta að vera góð meðmæli með skipi, að vilja engu breyta.

Aðspurður um áhöfn sína sagði Asle að hann hefði frábæra áhöfn. “Við erum tíu um borð í einu og það er mjög góður andi hjá okkur, við skemmtum okkur oft svo vel saman að við grínumst með það að það sé ótrúlegt að við skulum fá borgað fyrir að vera saman” sagði skipstjórinn sáttur með sína menn.  Ekki hafa verið miklar mannabreytingar meðal áhafnarinnar,  þó að flestir meðlimir séu í yngri kantinum núna en algengt er að menn hafi verið á sama skipinu í 30 til 40 ár.  Á Slaatterøy eru tvær áhafnir sem skiptast á að sækja sjóinn þannig að Asle er á sjó um 120 daga á ári.  Hina 242 dagana er hann heima að vinna við útgerðina, sinna börnunum sínum fimm og njóta samvista við konu sína til 29 ára.  Er hann var inntur eftir  því hvort að hann væri liðtækur í eldamennsku og heimilisstörfum svaraði hann um hæl: “Að sjálfsögðu, ég á fimm börn á aldrinum 5 til 18 ára, það þarf að gefa þeim að borða” og svarinu fylgdi breytt bros.  En þegar hann á frí og vill gera eitthvað sjálfum sér til ánægju og yndisauka þá tekur hann veiðistöngina sína, hellir kaffi á brúsa og fer til silungaveiða og hefur með eitthvað af börnum sínum. “Hvernig stendur á því að þú kemur með afla sem þið veidduð 220 mílum vestur af Írlandi alla leið til Íslands?”  “Allur afli er boðinn upp í gegn um norsk sölusamtök og skipin sigla þangað sem kaupandinn er og ég er mjög sáttur að koma með aflann til Fáskrúðsfjarðar, hér er tekið afar vel á móti okkur, við erum boðnir velkomnir með köku, sem áhöfnin kann vel að meta og okkur er hrósað fyrir gott hráefni” sagði Asle skipstjóri.

Miðin vestur af Írlandi þangað sem kolmunninn er sóttur er alþjóðlegt hafsvæði og þar mega veiða þau skip sem hafa til þess kvóta.  En þetta er strembið svæði til að veiða á þessum tíma árs.  Veður geta verið vond og ölduhæð mikil, “en þetta er vinnan” sagði Asle “ hún getur verið stressandi og því er svo mikilvægt að um borð sé gott samfélag. Við hugsum vel hver um annan ” bætti skipstjórinn geðþekki Asle Halstensen við og það þykja greinarhöfundi góð lokaorð.  Þá var ekki annað eftir en að taka í hönd skipstjórans og óska sægörpunum á Slaatterøy gæfu og gengis.

BÓA

Asle Halstensen

Mjölskip

Nú er verið að lesta Wilson Malm með 1300 tonnum af mjöli til Noregs.

Tækin tekin í notkun

Hoffell kom til hafnar á dögunum með fullfermi af kolmunna sem var landað beint til bræðslu. Við aflanum tók nýtt innmötunarkerfi ásamt nýjum forsjóðara og sjóðara. Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig nýju tækin hefðu reynst, en þessi afli er sá fyrsti sem fer í gegn um fiskmjölsverksmiðjuna síðan nýju tækin voru sett upp.  Þorgeir Einar Sigurðsson vaktstjóri varð fyrir svörum og sagði að tækin hefðu virkað afar vel. “Kerfið er komið upp og virkar fullkomlega, en hluti af stýringum eru ekki tilbúnar” sagði Þorgreir og bætti við til skýringar að mikil endurnýjun á rafmagni væri undangengin og yfirstandandi í verksmiðjunni þannig að allt væri þetta í ferli.  Svo þyrfti líka að stilla og græja, og þar inni tíminn með þeim.  Eru þessar breytingar, sem orðið hafa á tækjabúnaði bræðslunnar, liður í endurnýjun og tæknivæðingu þessarar 23 ára gömlu verksmiðu. Markmiðið með tæknivæðingu verksmiðju af þessu tagi er að gera allt skilvirkara, það opnar möguleika á aukin afköst og aukna framleiðslu, auk orkusparnaðar, sem er afar mikilvægur þáttur í dag, því forsjóðarnir nota orku sem annars færi óbeisluð út.

Þar sem áður þurfti að snúa lokum og opna krana er nú framkvæmt með tölvumús auk þess sem að eftirlitsmyndavélakerfi gefur starfsmönnum kost á að fylgjast með mikilvægum stöðum í verksmiðjunni án þess að standa yfir þeim, eru dæmi um þær breytingar sem fylgja aukinni tækni. Og svo dregur það úr álagi á starfsfólk vegna hávaða þar sem minni tíma þarf að verja innan um tækin þegar þau eru á fullri keyrslu.  

Þegar Þorgeir var spurður að því hvort að fiskmjölsverksmiðjan væri þá gengin í gegn um þær breytingar sem nauðsynlegar væru svaraði hann kankvís “Það er alltaf eitthvað í spilunum”.  Hvað það verður kemur í ljós í fyllingu tímans.

BÓA

Sjóðarinn
Innmötunardælur
Forsjóðarinn

Slatteroy

Norski báturinn Slatteroy er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar í kvöld með um 1.600 tonn af kolmunna.

Ljósafell

Ljósafell kom inn í gær með fullfermi, rúm 100 tonn. Uppistaða aflans er þorskur, 75 og ýsa 20 tonn. Nú er verið að landa úr skipinu og verður brottför í næstu veiðiferð í kvöld, mánudaginn 18. febrúar kl 20:00.

Fyrsti kolmunninn

Hoffell SU 80 hefur verið á kolmunnaveiðum á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi undanfarna daga. Skipið er nú lagt af stað með fullfermi áleiðis heim á Fáskrúðsfjörð. Þetta verður væntanlega fyrsta kolmunnalöndun ársins meðal íslenskra skipa. Siglingin er löng, 680 mílur og skipið því ekki væntanlegt fyrr en á föstudag.