Hoffell kom til hafnar á dögunum með fullfermi af kolmunna sem var landað beint til bræðslu. Við aflanum tók nýtt innmötunarkerfi ásamt nýjum forsjóðara og sjóðara. Greinarhöfundi lék forvitni á að vita hvernig nýju tækin hefðu reynst, en þessi afli er sá fyrsti sem fer í gegn um fiskmjölsverksmiðjuna síðan nýju tækin voru sett upp.  Þorgeir Einar Sigurðsson vaktstjóri varð fyrir svörum og sagði að tækin hefðu virkað afar vel. “Kerfið er komið upp og virkar fullkomlega, en hluti af stýringum eru ekki tilbúnar” sagði Þorgreir og bætti við til skýringar að mikil endurnýjun á rafmagni væri undangengin og yfirstandandi í verksmiðjunni þannig að allt væri þetta í ferli.  Svo þyrfti líka að stilla og græja, og þar inni tíminn með þeim.  Eru þessar breytingar, sem orðið hafa á tækjabúnaði bræðslunnar, liður í endurnýjun og tæknivæðingu þessarar 23 ára gömlu verksmiðu. Markmiðið með tæknivæðingu verksmiðju af þessu tagi er að gera allt skilvirkara, það opnar möguleika á aukin afköst og aukna framleiðslu, auk orkusparnaðar, sem er afar mikilvægur þáttur í dag, því forsjóðarnir nota orku sem annars færi óbeisluð út.

Þar sem áður þurfti að snúa lokum og opna krana er nú framkvæmt með tölvumús auk þess sem að eftirlitsmyndavélakerfi gefur starfsmönnum kost á að fylgjast með mikilvægum stöðum í verksmiðjunni án þess að standa yfir þeim, eru dæmi um þær breytingar sem fylgja aukinni tækni. Og svo dregur það úr álagi á starfsfólk vegna hávaða þar sem minni tíma þarf að verja innan um tækin þegar þau eru á fullri keyrslu.  

Þegar Þorgeir var spurður að því hvort að fiskmjölsverksmiðjan væri þá gengin í gegn um þær breytingar sem nauðsynlegar væru svaraði hann kankvís “Það er alltaf eitthvað í spilunum”.  Hvað það verður kemur í ljós í fyllingu tímans.

BÓA

Sjóðarinn
Innmötunardælur
Forsjóðarinn