Jólaviðburður starfsmannafélagsins
Starfsfólk Loðnuvinnslunnar og fjölskyldur þeirra áttu saman notalega jólastund í Skrúð í gær, spilað var bingó og bauð starfsmannafélagið uppá heitt súkkulaði með rjóma og jólakökur á eftir. Spilaðar voru 12 umferðir og voru vinningarnir hver öðrum flottari. Loðnuvinnslan og starfsmannafélagið lögðu til flesta vinninga en einnig voru aðrir styrktaraðilar líkt og Vök baths, Kjörbúðin, Hárkjallarinn, Hárbankinn og Sesam Brauðhús. Eftir síðustu umferðina birtust tveir jólasveinar og mátti sannarlega sjá bros á andlitli barnanna sem voru flest öll til í að spjalla aðeins við þá. Auðvitað komu þeir með gotterý í pokum sínum og er greinilegt að börnin hafa verið stillt og góð í desember þar sem þau fengu öll gotterý með sér heim. Þetta var virkilega notalegur jólaviðburður sem er svo sannarlega kominn til að vera.
Mikill áhugi hefur vaxið fyrir starfsmannafélaginu og fer félagsmönnum sífellt fjölgandi. Stjórn félagsins hefur sett saman viðburðatal fyrir næsta ár og stefnir á að birta það fyrir áramótin. Í stjórninni situr fjölbreyttur og skemmtilegur hópur starfsfólks og maka sem eiga auðvelt með að fara á flug þegar kemur að skipulagningu viðburða.
Text: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Ljósmynd: AEH
Ljósafell kom inn í nótt með 85 tonn af blönduðum afla.
Ljósafell kom inn í nótt með 85 tonn af blönduðum afla. Aflinn er 30 tonn Karfi, 30 tonn Ufsi, 20 tonn Ýsa og 5 tonn Þorskur.
Ljósafell fer út kl. 18 á morgun.
Nýr þurrkari í fiskimjölsverksmiðjuna
Að kvöldi 11.desember s.l. lagðist að bryggju á Fáskrúðsfirði firna mikið flutningaskip sem ber nafnið Sigyn. Um borð var þurrkari sem koma á fyrir í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar. Um er að ræða samskonar þurrkara og áður hafa verið settir þar inn og er þessi sá þriðji sömu gerðar, framleiddir hjá Haarslev í Danmörku. Þessir þrír þurrkarar leysa af hólmi fjóra eldri þurrkara sem allir voru af mismunandi gerð. Þessir nýju þurrkarar hafa þurrkflöt upp á 690m2 sem er umtalsvert meira en hinir eldri réðu við. Til að setja hluti í örlítið samhengi þá hefur sá sem settur verður upp núna 50% meiri afkastagetu heldur en sá sem hann leysir af hólmi. Þurrkarar sem þessir eru stórir og þungir eða um 120 tonn hver um sig, og mun það taka nokkrar vikur að koma honum fyrir og tengja við þann búnað sem fyrir er. Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri áætlar að hann geti verið komið í gagnið um miðjan janúar n.k.
Þá er einnig verið að setja upp nýja skilvindu í fiskimjölsverksmiðjuna. Þá eru þar komnar sex skilvindur. “Þessar skilvindur eru allar brúkaðar á mismunandi hátt” sagði Magnús, og bætti við: “þessi nýja verður notuð á soð”.
Fiskimjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar er orðin afar tæknileg verksmiðja. Þar hefur mikið verið endurnýjað af tækjum og tólum á síðustu misserum og tilgangurinn er að sjálfsögðu að halda í við tæknina, auka rekstaröryggi sem leiðar af sér aukna möguleika í afköstum og framleiðslu.
BÓA
Síldarverkun
Margir íslendingar sem komnir eru til ára sinna muna eftir að hafa staðið vaktina í síldinni. Margir til sjós og enn fleiri í landi því að í þá daga þurfti all margar hendur til þess að koma síldinni úr heimkynnum sínum í sjónum í trétunnurnar í landi. En nú er öldin önnur, skipin orðin stór og taka meiri afla í hverjum túr og í landi er vinnslan orðin afar tæknivædd. Vinnslan hefur vissulega breyst, það er hægt að afkasta miklu meira á styttri tíma með tilkoma véla og tækja. En sumt breytist hægt og er það til heilla á sumum sviðum. Eitt af því er kunnátta og verkvit sem færist mann fram af manni og er þá gjarnan kunnátta sem fáar manneskjur búa yfir. Steinar Grétarsson er einn helsti síldarsérfræðingur Loðnuvinnslunnar og lærði hann þau fræði af föður sínum. Steinar er verkstjóri síldarverkunar hjá LVF og hefur þessa dagana í nógu að snúast því að síldarvertíðin stendur sem hæst. Aðspurður að því hvernig vinnslan hefði gengið sagði hann að hún hefði gengið vel, búið væri að koma síld í rúmlega tíu þúsund tunnur. “Það fer allt í flök og bita hjá okkur, mest í edikbita” sagði Steinar.
Þegar Hoffell Su 80 kemur til hafnar með síld er unnið allan sólarhringinn í landi. Starfsfólk gengur vaktir og vinnur aflann á meðan hann er ferskur svo að neytandinn fá ávalt allra bestu vöru.
Steinar sagði að síldin væri falleg og heilbrigð og að sér fyndist skemmtilegt að standa í þessari törn, “þetta er tilbreyting” sagði hann og bætti við; “og mjög skemmtilegt þegar vel gengur”.
Þegar greinahöfundur náði sambandi við Steinar var hjá honum ofurlítil stund milli stríða. Búið að vinna þau níu hundruð tonn sem Hoffell kom með úr síðasta túr en á meðan við spjölluðum var verið að landa úr skipinu rúmlega ellefu hundruð tonnum af síld sem Steinar og hans fólk í síldarverkuninni taka á móti og framleiða úr henni dýrindis hráefni.
BÓA
Fengu búra og töskukrabba í trollið
Enn bætist í litla furðufiskasafnið okkar en um helgina komu búri og töskukrabbi upp með trollinu á Ljósafellinu við Skeiðarárdýpi. Búrinn var um 56 cm langur og líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum er hann fallega appelsínurauður að lit, hann þykir afar vinsæll matfiskur á Nýja Sjálandi og víðar úti í hinum stóra heimi.
Búri (Hoplostethus atlanticus)
Búrfiskur er miðsævis,- botn- og djúpfiskur sem lifir aðallega á allskyns fiskum og krabbadýrum. Það er talið að búrfiskur verði mjög gamall, jafnvel vel yfir 100 ára Hann verður allt að 75 cm langur. Búrfiskur veiðist í flestum heimsins höfum á allt að 600 m dýpi og heldur sig gjarnan við toppa og hlíðar neðansjávartinda. Heimkynni búrfisks við Ísland eru frá vestanverðum Íslandsmiðum suður fyrir Reykjanes og allt til Rósagarðs undan Suðausturlandi. Sjávarlífverur | Hafrannsóknastofnun (hafogvatn.is)
Í Sjávardýraorðabókinni sem Gunnar Jónsson fiskifræðingur tók saman eru heitin búri og búrfiskur notuð um sama fiskinn en ekki um búrhval. En það er gaman að segja frá því að Í Íslenskri orðabók,frá árinu 2002, segir að búri þýði ruddi, dóni, nískur eða nirfill.
Töskukrabbi (Cancer pagurus) er krabbi af ætt steinkrabba. Hann lifir í Norðursjó, Norður-Atlantshafi og Miðjarðarhafi. Hann eru rauðbrúnn á lit með hringlaga skjöld og klærnar eru með svarta enda. Krabbinn getur orðið 25 sm í þvermál og vegið allt að 3 kíló
Töskukrabbi og grjótakrabbi eru tiltölulega nýjar tegundir sem hafa verið að nema land við Ísland en áður hafa þær aðallega haldið sig í hlýjum sjó.
Hoffell á landleið með rúm 1.150 tonn.
Hoffell er á landleið með 1.150 tonn af síld sem fer í söltun. Aflinn fékkst í 6 hölum 90 mílur vestur af Reykjanesi. Síldin er 280-300 g og er stærri en undanfarið. Hoffell hefur veitt rúm 3000 í þremur túrum á þremur viku.
Þetta er síðasti túrinn fyrir jól og skipið fer svo aftur á síldveiðar strax eftir áramótþ
Mynd: Óskar Þór Guðmundssom.
Námskeið og fræðsla
Hjá Loðnuvinnslunni vinna um það bil 180 manneskjur. Þær eru að vonum ólíkar, með ólíkar skoðanir, drauma og þrár líkt og alls staðar annars staðar þar sem fólk lifir og starfar. Deildir fyrirtækisins eru nokkrar, það er útgerðin sem heldur utan um skip og báta. Fiskvinnslan í landi, fiskimjölsverksmiðja, vélsmiðja, rafmagnsverkstæði, trésmíðaverkstæði og skrifstofa. Innan þessara deilda vinnur fólk ólík störf og þannig gengur keðjan sem heldur fyrirtækinu gangandi. Einn er sá aðili sem hefur það að starfi að hlú að öllu þessu starfsfólki, öryggi þess og aðbúnaði. Það er Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar. Eitt af hennar hlutverkum er að skipuleggja fræðsluáætlun fyrir starfsfólk. Var rétt kominn skriður á það starf þegar heimsfaraldur skall á en nú hefur heldur betur verið spýtt í lófa og síðan í vor hefur verið boðið upp á ein tíu námskeið. Mörg þessara námskeiða eru sérsniðin fyrir ákveðna starfsstétt á meðan önnur eiga erindi til allra. “Öll námskeiðin eru valkvæð en hafa verið afar vel sótt” sagði Arnfríður og tekur sem dæmi námskeið um næringu og heilsu sem var annars vegar sniðið að hinum almenna starfsmanni og hins vegar sérstakt námskeið fyrir þá aðila sem sjá um matseld, líkt og kokka á skipum sem og fyrir þá aðila sem elda fyrir fólk í landi.
“Við reynum að hafa öll námskeið á vinnutíma en stundum er ekki hægt að koma því þannig við ef að kennarinn getur ekki kennt á þeim tíma, auk þess sem öll þessi námskeið eru okkar fólki að kostnaðarlausu” sagði Arnfríður.
Sem dæmi um þau námskeið sem boðið hefur verið upp á eru; skyndihjálp, íslenskunámskeið fyrir útlendinga, fjárhagsbókhaldsnámskeið, lyftaranámskeið, sjóvinnunámskeið og starfslokanámskeið. Er þetta hluti af þeirri fræðslu sem starfsfólki LVF hefur verið boðið upp á og dýrmætt að mörg þessara námskeiða nýtast fólki jafnt í einkalífi sem vinnu.
Aðspurð svaraði Arnfríður því til að fræðsluáætlun næsta árs væri metnaðarfull og spennandi en vildi ekki upplýsa of mikið. Nauðsynlegt að halda smá spennu, en hún gat þó sagt frá því að til stæði að bjóða upp á námskeið í iðntölvustýringum. Öll starfsemi Loðnuvinnslunnar er sífellt að tæknivæðast og í hlutfalli við það þarf meira af sérhæfðu starfsfólki.
Arnfríður sagði einnig að LVF ætti í góðu samstarfi við Austurbrú (stofnun sem sérhæfir sig í símenntun, rannsóknum, atvinnuþróun og markaðssetningu fyrir fólk og fyrirtæki á austurlandi).
Það er eflaust nokkur kúnst að vinna að því að mæta þörfum mismunandi fólks þegar kemur að endurmenntun og fræðslu. Hjá Loðnuvinnslunni starfar fólk af 13 mismunandi þjóðarbrotum sem hvert og eitt hefur menningu upprunalandsins í blóðinu en Arnfríður sagði að það gengi vel að finna fræðslu sem hentaði öllum, sama hvaðan menn kæmu, því það er jú mennskan sem við eigum öll sameiginlegt.
Loðnuvinnslan hefur góða aðstöðu til þess að bjóða upp á mismunandi fræðslu. Í Tanga, gömlu kaupfélagshúsi í eigu móðurfélags Loðnuvinnslunnar Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, er huggulegur salur undir súð þar sem gott er að sitja, sötra kaffi og drekka í sig þekkingu. Þá er það Whatnes sjóhúsið sem er ein elsta bygging í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð og á sér langa sögu. Þar er búið að koma upp góðri aðstöðu með öllum þeim búnaði sem þarf til þess að bera fram þekkingu og kunnáttu. Því að þegar hið harðduglega starfsfólk Loðnuvinnslunnar sest niður til að bæta við þekkingu sína og kunnáttu í þeim tilgangi að verða betri starfsmenn og/eða til að auðga líf sitt, þá er lagt kapp á að hafa umhverfið notalegt. Það er skoðun mannauðs- og öryggisstjórans Arnfríðar Eide Hafþórsdóttur og eftir þeirri stefnu vinnur hún.
BÓA
Sandfell í 1. sæti og Hafrafell í 2 sæti í nóvember með samtals 602 tonn.
Gríðarlega góður mánuður hjá Sandfelli og Hafrafelli. Sandfell fór í 315 tonn í 22 róðrum, mjög sjaldgjæft að bátar í þessum flokki nái yfir 300 tonna afla á einum mánuði. Mesti aflinn í einum róðri var 25,1 tonn.
Hafrafell fór í 287 tonn í 23 róðrum. Mesti aflinn fór 24,6 tonn.
Mynd: Gísli Reynisson.
Ljósafell kom inn í nótt með rúm 70 tonn.
Ljósafell kom inn í nótt með rúm 70 tonn. Aflinn var 30 tonn Ufsi, 30 tonn Karfi, 7 tonn Ýsa og annar afli.
Skipið fer út kl. 18 á morgun.
Silfur hafsins
Blessuð síldin hefur oft verið kölluð “silfur hafsins”. Er sú nafnbót komin til af því að fátt, eða ekkert, hefur skapað jafn mikil verðmæti fyrir íslensku þjóðina eins og síldin. Á síðustu öld voru mörg þorp og bæir allt í kring um Ísland sem lögðu grunn að grósku sinni með þeim verðmætum sem síldin færði. Engu líkara en að upp úr sjónum kæmi hreint silfur.
Hoffell kom til heimahafnar á Fáskrúðsfirði, sunnudaginn 4.desember, með 900 tonn af síld. Var þetta annar túr skipsins á síldarveiðum og óhætt er að segja að vel hafi gengið.
Sigurður Bjarnason er skipstjóri á Hoffelli og aðspurður sagði hann að fiskurinn væri fallegur þrátt fyrir að vera í minni kantinum og vel hefði gengið að afla hans. “Við fengum þessa síld út af Faxaflóa og það tók aðeins tvö hol að ná þessum 900 tonnum” sagði Sigurður og sagði jafnframt að veðrið hefði verið með ágætum þrátt fyrir einn bræludag sem skipstjórinn og áhöfn hans biðu af sér í vari. Hann sagði líka að það mætti draga þá ályktun að töluverð endurnýjun ætti sér stað í síldarstofninum þegar horft væri til stærðar þeirra sílda sem þeir veiddu og væri það gott.
Nú er síldinni landað og unnin í síldarverkun Loðnuvinnslunnar og síðan heldur Hoffell aftur á miðin og leitar að meiri síld. Þegar skipstjórinn var inntur eftir því hvernig gengi að finna síldina svaraði hann: “Síldin fer sínar leiðir, ef torfa finnst þá getur hún horfið á tveimur tímum ef því er að skipta”. Ástæðan fyrir því er að sjálfsögðu sú að síldin er snögg í hreyfingum og getur náð miklum sundhraða og á Vísindavefnum má lesa sér til um síld og segir þar meðal annars að “síldin sé talin hafa afburða sjón og góða heyrn miðað við aðra sjófiska”. Þá er eins gott að Hoffell er búið öllum nýjustu tækjum og tólum sem þarf til árangursríkra veiða á uppsjávarfiskum.
BÓA
Hoffell er á landleið með 900 tonn.
Hoffell er á landleið með tæp 900. tonn af Síld sem fékkst um 90 mílur vestur af Reykjanesi. Hoffell verður komið til Fáskrúðsfjarðar um hádegi á morgun. Túrinn gekk vel og fékkst aflinn á aðeins 19 tímum. Síldin fer öll í söltun.
Hoffell fer aftur út eftir löndun á síldveiðar.
Mynd: Valgeir Mar Guðmundsson.
Ljósafell kom inn á þriðjudaginn með fullfermi 120 tonn.
Ljósafell kom inn á þriðjudaginn með fullfermi eða120 tonn, aflinn ar 40 tonn Þorskur, 35 tonn Ýsa, 30 tonn Ufsi, 3 tonn Karfi og annar afli.
Ljósafell fór út aftur kl. 20,00 í gærkvöldi.