Kaupfélagið styður og styrkir
Á aðalfundi Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem haldinn var í Wathnessjóhúsi föstudaginn 12.maí 2023, voru afhentir styrkir til eflingar samfélagsins.
Hollvinasamtök Skrúðs fengu 1 milljón til áframhaldandi uppbyggingar félagsheimilisin Skrúðs. Eins og flestum er kunnugt er Skrúður í eigu sveitafélagsins en Hollvinasamtökin hafa komið að viðhaldi og endurreisn hússins með miklum ágætum. Á milli eigenda og samtakanna er mikið og gott samstaf um áætlun og framkvæmdir og hafa Hollvinasamtökin fulla stjórn á því í hvað þeir fjármunir fara sem samtökin ráða yfir.
Kaupfélagið hefur verið dyggur stuðningaðili Hollvinasamtaka Skrúðs og hafa þeir fjámunir aðallega farið í að kaupa alls konar búnað sem nýtist bæjarbúum vel þegar nota skal húsið til hinna ýmsu mannfagnaða. Má þar nefna búnað í eldhús, myndvarpa, hljóðkerfi og fleira í þeim dúr, auk glugga sem samtökin keyptu en sveitafélagið sá um að koma á sinn stað.
Smári Júlíusson er formaður Hollvinasamtaka Skrúðs og sagði hann að styrkurinn væri afar vel þeginn og kæmi sér vel. Af nægu er að taka þegar kemur að viðhaldi og uppbyggingu byggingar sem komin er nálægt sextugs aldri.
Félagsskapur um Franska daga hlaut í styrk 1.8 milljón króna frá Kaupfélaginu og 1.8 milljón frá Loðnuvinnslunni. Um er að ræða félagsskap sem er framkvæmdaraðili fyrir bæjarhátíðinni Franskir dagar sem haldin er í lok júlí á Fáskrúðsfirði.
Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga og sagði hann það forréttindi að hafa svo dygga stuðningsaðila líkt og Kaupfélagið og Loðnuvinnsluna. “Þetta eru fyrirtæki sem eru tilbúin að leggja heilmikið til samfélagsins og það er frábært” sagði Birkir.
Það kostar mikla peninga að halda glæsilega bæjarhátíð sem býður upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa og því koma þessir fjármunir sér vel og þeim verður vel verið okkur öllum til ánægju.
“Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkina sem við fáum frá Kaupfélaginu og Loðnuvinnslunni” sagði Birkir Snær að lokum.
Að samanlögðu eru styrkirnir sem Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslan hf veittu að þessu sinni 32,6 milljónir króna. Af góðum hug koma góð verk.
BÓA

Frá vinstri: Friðrik Mar Guðmundsson kaupfélagsstjóri, Jóna Björg Jónsdóttir sem tók við styrk fyrir hönd Hollvinasamtaka Skrúðs, Birkir Snær Guðjónsson formaður Félags um Franska daga og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélagsins.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar
Rekstur Loðnuvinnslunnar gekk afar vel á síðasta ári, reyndar skilaði árið methagnaði og því óhætt að fullyrða að fyrirtækið sé stöndugt en síðasta ár var langbesta rekstrarár Loðnuvinnslunnar.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar hf var haldinn 12.maí 2023 og hér birtast helstu niðurstöðutölur.
Hagnaður af rekstri félagsins eftir skatta árið 2022 var 3.483 milljarðar króna á móti 1.247 milljörðum árið 2021.
Tekjur LVF voru 18.180 milljarðar sem er 45% aukning frá fyrra ári.
Tekjur að frádregnum eigin afla voru 14.039 milljarðar.
Veltufé frá rekstri var 4.502 milljarðar á móti 1.572 milljörðum árið 2021.
Eigið fé félagsins í árslok 2022 14.895 milljarðar sem er 54% af niðurstöðu efnahagsreiknings.
Stærsti hluthafi LVF er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Á aðalfundi Loðnuvinnslunnar var ákveðið að greiða 20% arð til hluthafa sem gera 140 milljónir.
Nánari tölur má finna í reikningum ársins 2022 sem auðvelt er að nálgast á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.
Í stjórn LVF eru:
Elvar Óskarsson stjórnarformaður
Steinn Jónasson
Högni Páll Harðarson
Jónína Guðrún Óskarsdóttir
Elsa Sigrún Elísdóttir
Varamenn í stjórn:
Óskar Þór Guðmundsson
Jóna Björg Jónsdóttir
BÓA

Aðalfundur Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga
Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga stendur traustum fótum. Á aðlafundi KFFB, sem haldinn var 12.maí 2023 komu eftirfarandi tölur fram.
Hagnaður ársins 2022 var 2.920 milljónir.
Eigið fé félagsins var 13.536 milljónir þann 31. 12. 2022, sem er 99,8% af niðurstöðu efnahagsreiknings.
Stærsta einstaka eign félagsins er 83% eignarhlutur í Loðnuvinnslunni hf.
Í stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga eru:
Steinn Jónasson stjórnaformaður
Elvar Óskarsson
Högni Páll Harðarson
Elsa Sigrún Elísdóttir
Óskar Þór Guðmundsson.
Varamenn í stjórn eru: Jónína Guðrún Óskarsdóttir, Ólafur Níels Eiríksson og Jóna Björg Jónsdóttir.
BÓA

Línubátar í apríl.
Sandfell og Hafrafell með mestan afla í apríl. Sandfell með 291 tonn og Hafrafell með 245 tonn.

Mynd; Þorgeir Baldursson.
Mér má sjá lokalista nr. 4.
| Sæti | áður | Nafn | Heildarafli | Róðrar | Mesti afli | Höfn |
| 1 | 1 | Sandfell SU 75 | 291.1 | 26 | 21.6 | Djúpivogur, Bakkafjörður, Þórshöfn, Stöðvarfjörður |
| 2 | 2 | Hafrafell SU 65 | 244.7 | 24 | 16.0 | Hornafjörður, Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Djúpivogur |
| 3 | 3 | Tryggvi Eðvarðs SH 2 | 226.0 | 12 | 25.2 | Ólafsvík, Sandgerði |
| 4 | 4 | Kristján HF 100 | 185.2 | 13 | 24.2 | Grindavík, Sandgerði, Stöðvarfjörður, Vopnafjörður |
| 5 | 5 | Háey I ÞH 295 | 179.2 | 14 | 22.2 | Húsavík, Raufarhöfn |
| 6 | 6 | Indriði Kristins BA 751 | 172.8 | 13 | 24.1 | Grindavík, Sandgerði, Ólafsvík |
| 7 | 14 | Vigur SF 80 | 168.0 | 15 | 21.3 | Hornafjörður, Djúpivogur |
| 8 | 7 | Jónína Brynja ÍS 55 | 167.0 | 18 | 15.6 | Bolungarvík |
| 9 | 9 | Kristinn HU 812 | 162.9 | 9 | 27.4 | Ólafsvík |
| 10 | 8 | Einar Guðnason ÍS 303 | 155.9 | 15 | 23.5 | Flateyri, Suðureyri |
| 11 | 12 | Öðlingur SU 19 | 131.8 | 13 | 20.7 | Djúpivogur |
| 12 | 13 | Fríða Dagmar ÍS 103 | 128.1 | 14 | 14.3 | Bolungarvík |
| 13 | 10 | Særif SH 25 | 115.8 | 6 | 28.4 | Grindavík, Sandgerði |
| 14 | 16 | Óli á Stað GK 99 | 104.3 | 11 | 16.0 | Grindavík, Sandgerði |
| 15 | 11 | Stakkhamar SH 220 | 102.2 | 11 | 18.2 | Rif, Arnarstapi |
| 16 | 15 | Sævík GK 757 | 74.0 | 8 | 12.5 | Grindavík |
| 17 | 19 | Gullhólmi SH 201 | 73.7 | 7 | 16.9 | Rif |
| 18 | 17 | Gísli Súrsson GK 8 | 73.4 | 7 | 18.4 | Grindavík |
| 19 | 22 | Bíldsey SH 65 | 71.6 | 5 | 24.0 | Rif |
| 20 | 18 | Auður Vésteins SU 88 | 68.7 | 7 | 16.2 | Grindavík |
| 21 | 20 | Vésteinn GK 88 | 63.5 | 4 | 21.0 | Grindavík |
| 22 | 21 | Dúddi Gísla GK 48 | 25.1 | 2 | 19.3 | Grindavík |
Heimsókn góðra gesta
Í dag, fimmtudaginn 11.maí, fékk Loðnuvinnslan góða gesti. Voru hér á ferð stjórnarliðar í Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga, hér eftir skammstafað SÚSS.
En SÚSS eru samtök sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu samtakanna er tilgangur þeirra:
- að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu auðlinda í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu.
- að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. við gerð laga og reglugerða sem varða sjávarútveg og sjókvíaeldi og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.
- að taka þátt í mótun reglna um gjaldtöku vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og skiptingu á því gjaldi milli ríkis og sveitarfélaganna, ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.
- Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.
Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar fór með gestina um fyrirtækið og sagði þeim frá starfssemi þess og uppbyggingu.
Íris Róbertsdóttir frá Vestmannaeyjum er stjórnarmaður í SÚSS og sagði hún heimsóknina hafa verið mjög áhugaverða og skemmtilega. “Þetta var frábær heimsók. Það er eitthvað fallegt á bak við hugsunina við eignarhaldið” sagði Íris og bætti því við að það væri ekki algengt að stöndugt sjávarútvegsfyrirtæki líkt og Loðnuvinnslan væri í eigu samfélagsins og vísar þar til 83% eignarhluts Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar.
Tilgangur heimsóknarinnar er að heimsækja aðildarsveitafélög og kynnast þeim sjávarútvegfyrirtækjum sem eru starfrækt innan þeirra. Sagði Íris að svona vinnuferðir væru afar gagnlegar því mikilvægt væri að stjórn SÚSS þekkti til þeirra fyrirtækja og hefði skilning á starfsemi þeirra.
Stjórn SÚSS hefur átt annríkt á Austurlandi þar sem þau hafa gert víðreisn og heimsótt sjávarútvegsfyrirtæki frá Djúpavogi til Neskaupstaðar.
BÓA

Frá vinstri: Þórdís Sif Sigurðardóttir Vesturbyggð, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir Dalvíkurbyggð, Björn Ingimarsson Múlaþingi, Íris Róbertsdóttir Vestmannaeyjum, Jón Björn Hákonarson Fjarðabyggð, Heimir Örn Árnason Akureyrarbæ, Friðrik Mar Guðmundsson Loðnuvinnslunni og Fannar Jónasson Grindavík.
Forsetaheimsókn
Mikið hefur verið um dýrðir í Fjarðabyggð undanfarna tvo daga því að forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, hefur verið hér í opinberri heimsókn ásamt fylgdarliði.
Víða mátti sjá íslenska fánann blakta við hún í Búðaþorpi í tilefni heimsóknarinnar. Eftir hádegisverð heimsótti forsetinn Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar en hélt síðan ásamt föruneyti í Wathnessjóhús þar sem Loðnuvinnslan tók á móti forsetanum.
Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF bauð forsetann velkominn og sagði frá fyrirtækinu, eignarhaldi þess og starfsemi auk þess sem að sýndar voru nokkrar stuttar kvikmyndir um starfsemina.
Berglind Ósk Agnarsdóttir sagði síðan viðstöddum örlítið frá sögu og þróun bæjarins við Fáskrúðsfjörð og lífi fólks sem hér hefur unnið og starfað og lifað sínu lífi.
Þá færði Friðrik Mar forsetanum gjafir, annars vegar fallega ljósmynd af dansandi norðurljósum yfir Fáskrúðsfirði eftir Jónínu Guðrúnu Óskarsdóttur, og hins vegar voru forsetahjónunum færðar lopapeysur, prjónaðar af konum á Búðum. Báðum þessum gjöfum fylgdu góðar óskir um gæfu og gengi.
Því næst var gengið í frystihúsið. Þar beið hópur starfsfólks á kaffistofunni og gaf forsetinn sér góðan tíma til þess að spjalla við fólk, heilsa með handabandi og tók því afar vel er hann var beðin um að vera með á ljósmynd.
Forsetinn þakkaði vel fyrir sig og sagðist hafa notið heimsóknarinnar og þakkaði fyrir góðar móttökur og góðar gjafir sem, í orðsins fyllstu merkingu, ylja.
BÓA

Friðrik Mar Guðmundsson og forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson.

Frá vinstri: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs-og öryggisstjóri LVF og bæjarfulltrúi, Birgir Jónsson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF, Guðni Th. Jóhannsson forseti Íslands, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Hjördís Seljan Þóroddsdóttir bæjarfulltrúi og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir bæjarfulltrúi.

Friðrik Mar Guðmundsson, Berglind Ósk Agnarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson

Forsetinn að spjalla við starfsfólk Loðnuvinnslunnar í matsal frystihússins.

Guðni forseti með tveimur starfskonum frystihússins.

Forsetinn var óspar á handabönd. Hér heilsar hann einum starfsmanni með virktum.
Hoffell er á landleið með rúm 2.000 tonn.
Hoffell er á landleið með rúm 2.000 tonn af Kolmunna af miðunum við Færeyjar. Sérstaklega góð veiði var í veiðiferðinni, Hoffell fékk aflann á aðeins 42 tímuM. Hoffell hefur þá veitt rúm 16.000 tonn af kolmunna á þessu ári.
Skipið fer út strax eftir löndun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Júpiter verður í fyrramálið með 2.200 tonn af Kolmunna.
Júpiter verður í fyrramálið með 2.200 tonn af Kolmunna af miðunum vestan við Færeyjar.

Mynd: Þorgeir Baldursson.
Ljósafell er á landeið með 115 tonn.
Ljósafell er á landeið með fullfermi 115 tonn af blönduðum afla og verður á höfn um kl. 20.00.
Aflinn er 60 tonn Utsi, 30 tonn Þorskur, 18 tonn Ýsa og annar afli. Ljósafell fer aftur út kl. 8 á mánudagsmorgun.
Hoffell á landleið með 2.250 tonn og verður í kvöld.
Hoffell kemur í kvöld með 2.250 tonn af kolmunna. Ágæt veiði er ennþá við Færeyjar og fékk Hoffell aflann á 3 sólarhringum.
Um 330 mílur eru af miðunum til Fáskrúðsfjarðar. Skipið fer strax út eftir löndun.

Mynd: Valgeir Mar Friðriksson.
Ljósafell kom inn í nótt með fullfermi.
Ljósafell kom inn í nótt með 110 tonn af blandaðum afla. Ljósafell fer út annað kvöld kl 20.
Starfskynning á vélaverkstæði
Hvað ungur nemur, gamall temur, segir í gömlum íslenskum málshætti og er það sannleikur sem fellur aldrei úr gildi. Lífið færi fólki reynslu og upplifanir sem þroska rétt eins og nám og lestur bóka. Því er það sannleikanum samkvæmt að þeir sem eldri eru geti miðlað af reynslu sinni og kunnáttu til þeirra er yngri eru. Auðvitað geta hinir ungu líka kennt hinum eldri. Allir þættir mannlegrar tilveru er sífelld hringrás.
Á vélaverkstæði Loðnuvinnslunnar hafa þrír nemendur í níunda bekk Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar verið í starfskynningu. Þau koma einn dag í viku, í tvær klukkustundir í senn, alls þrisvar sinnum. Eru þessar heimsóknir á vélaverkstæðið liður í námi þeirra, hvar þeim gefst kostur á að kynna sér starf hinna mismunandi vinnustaða.
Ingimar Óskarsson verkstjóri vélaverkstæðisins sagði að það væri býsna gaman að fá þessa fínu unglinga í heimsókn. „Þau eru ekki bara að koma til að horfa á, þau eru að prófa að vinna með tól og tæki sem við notum í okkar vinnu. Þau hafa meira að segja fengið að prófa að sjóða“ sagði Ingimar. Auk þess að kynnast starfsemi þessarar mikilvægu deildar innan Loðnuvinnslunnar fengu þau líka góðan túr um fyrirtækið, heimsóttu fiskmjölsverksmiðjuna og fóru uppá stóru tankana þar sem er stórkostlegt útsýni yfir bæinn.
„Þetta eru flottir krakkar, og ég vona að það verði framhald á þessu með Grunnskólanum“ sagði Ingimar.
Það er aldrei að vita nema áhugi hafi vaknað hjá einhverjum þessara unglinga til að starfa á vélaverkstæði í framtíðinni, í það minnsta hafa þau kynnst því á eigin skinni í hverju starfið er fólgið.
BÓA



