Hvað ungur nemur, gamall temur, segir í gömlum íslenskum málshætti og er það sannleikur sem fellur aldrei úr gildi. Lífið færi fólki reynslu og upplifanir sem þroska rétt eins og nám og lestur bóka. Því er það sannleikanum samkvæmt að þeir sem eldri eru geti miðlað af reynslu sinni og kunnáttu til þeirra er yngri eru. Auðvitað geta hinir ungu líka kennt hinum eldri. Allir þættir mannlegrar tilveru er sífelld hringrás.

Á vélaverkstæði Loðnuvinnslunnar hafa þrír nemendur í níunda bekk Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar verið í starfskynningu. Þau koma einn dag í viku, í tvær klukkustundir í senn, alls þrisvar sinnum. Eru þessar heimsóknir á vélaverkstæðið liður í námi þeirra, hvar þeim gefst kostur á að kynna sér starf hinna mismunandi vinnustaða.

Ingimar Óskarsson verkstjóri vélaverkstæðisins sagði að það væri býsna gaman að fá þessa fínu unglinga í heimsókn. „Þau eru ekki bara að koma til að horfa á, þau eru að prófa að vinna með tól og tæki sem við notum í okkar vinnu. Þau hafa meira að segja fengið að prófa að sjóða“ sagði Ingimar. Auk þess að kynnast starfsemi þessarar mikilvægu deildar innan Loðnuvinnslunnar fengu þau líka góðan túr um fyrirtækið, heimsóttu fiskmjölsverksmiðjuna og fóru uppá stóru tankana þar sem er stórkostlegt útsýni yfir bæinn.

„Þetta eru flottir krakkar, og ég vona að það verði framhald á þessu með Grunnskólanum“ sagði Ingimar.

Það er aldrei að vita nema áhugi hafi vaknað hjá einhverjum þessara unglinga til að starfa á vélaverkstæði í framtíðinni, í það minnsta hafa þau kynnst því á eigin skinni í hverju starfið er fólgið.

BÓA

Unglingarnir suðu stafina sína í járn

Niðursokknir unglingar í spennandi verkefni