Mikið hefur verið um dýrðir í Fjarðabyggð undanfarna tvo daga því að forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, hefur verið hér í opinberri heimsókn ásamt fylgdarliði.

Víða mátti sjá íslenska fánann blakta við hún í Búðaþorpi í tilefni heimsóknarinnar. Eftir hádegisverð heimsótti forsetinn Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar en hélt síðan ásamt föruneyti í Wathnessjóhús þar sem Loðnuvinnslan tók á móti forsetanum.

Friðrik Mar Guðmundsson  framkvæmdastjóri LVF bauð forsetann velkominn og sagði frá fyrirtækinu, eignarhaldi þess og starfsemi auk þess sem að sýndar voru nokkrar stuttar kvikmyndir um starfsemina. 

Berglind Ósk Agnarsdóttir sagði síðan viðstöddum örlítið frá sögu og þróun bæjarins við Fáskrúðsfjörð og lífi fólks sem hér hefur unnið og starfað og lifað sínu lífi.

Þá færði Friðrik Mar forsetanum gjafir, annars vegar fallega ljósmynd af dansandi norðurljósum yfir Fáskrúðsfirði eftir Jónínu Guðrúnu Óskarsdóttur, og hins vegar voru forsetahjónunum  færðar lopapeysur, prjónaðar af konum á Búðum. Báðum þessum gjöfum fylgdu góðar óskir um gæfu og gengi.

Því næst var gengið í frystihúsið. Þar beið hópur starfsfólks á kaffistofunni og gaf forsetinn sér góðan tíma til þess að spjalla við fólk, heilsa með handabandi og tók því afar vel er hann var beðin um að vera með á ljósmynd.

Forsetinn þakkaði vel fyrir sig og sagðist hafa notið heimsóknarinnar og þakkaði  fyrir góðar móttökur og góðar gjafir sem,  í orðsins fyllstu merkingu, ylja.

BÓA

Friðrik Mar Guðmundsson og forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson.

Frá vinstri: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir mannauðs-og öryggisstjóri LVF og bæjarfulltrúi, Birgir Jónsson forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF, Guðni Th. Jóhannsson forseti Íslands, Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Hjördís Seljan Þóroddsdóttir bæjarfulltrúi og Þórdís Mjöll Benediktsdóttir bæjarfulltrúi.

Friðrik Mar Guðmundsson, Berglind Ósk Agnarsdóttir og Guðni Th. Jóhannesson

Forsetinn að spjalla við starfsfólk Loðnuvinnslunnar í matsal frystihússins.

Guðni forseti með tveimur starfskonum frystihússins.

Forsetinn var óspar á handabönd. Hér heilsar hann einum starfsmanni með virktum.