Ljósafell aflasækið

Ljósafell SU 70 hefur verið aflasækið það sem af er júlímánuði.  Á lista sem birtur var á vegum Aflafrétta kemur fram að Ljósafellið er í öðru sæti yfir aflahæstu togarana með 562 tonn.  Túrarnir hafa verið stuttir, tveir til þrír dagar, og aflinn verið á bilinu 74 til 124 tonn.  Ólafur Helgi Gunnarsson skipstjóri á Ljósafellinu svaraði því til, þegar hann var spurður út í hið góða gengi Ljósafells, að nægur fiskur væri á miðunum sem Ljósafellið hefði verið á. „Við höfum haldið okkur á Papagrunni, þar er sumargotssíld og fiskurinn sækir í æti tengt henni og við höfum nánast setið einir að borðinu“, sagði Ólafur.  Síðan bætti skipstjórinn því við að veðrið væri búið að vera með afbrigðum gott, „rjómablíða, það bærist ekki hár á hárlausu höfði“ sagði hann kátur.

Aðspurður að því hvort að áhöfnin kættist ekki yfir hinu góða gengi sagði hann svo vera en bætti því jafnan við að álagið væri mikið þegar svona mikið fiskast. „Fiskurinn fer ekki sjálfur ofan í lest, þetta eru mörg  handtök“ sagði Ólafur.  Hann lagði ennfremur áherslu á það að áhöfnin væri góð því svona árangur hæfist ekki öðruvísi.

BÓA

Ljósafell

Ljósafell kom að landi laugardagskvöldið 14.júlí, með 100 tonn eftir aðeins tvo daga á miðunum. Megin uppistaða aflans var ýsa, þorskur og ufsi.

Sandfell

Sandfell er með 20 tonn eftir tvær lagnir og landar á  Vopnafirði í dag, fimmtudaginn 12.júlí.

Ljósafell

Ljósafell kom að landi í gærkvöldi, miðvikudaginn 11.júlí, með 100 tonn. Megin uppistaða aflans var ýsa og ufsi.

Landanir í bræðslu

Sigurður VE 15 landaði 1.100 tonnum af kolmunna föstudaginn 6.júlí og Heimaey VE 1 landar í dag, mánudag, 1.000 tonnun kolmunna.

Sandfell

Sunnudaginn 8.júlí landaði Sandfellið 18 tonnum á Vopnafirði eftir aðeins tvær lagnir.  Það sem af er júlímánuði hefur Sandfell landað 80 tonnum.

Ljósafell

Laugardagskvöldið 7.júlí kom Ljósafell að landi  með 100 tonn af blönduðum afla eftir aðeins tvo daga á veiðum.

Ljósafell

Ljósafell landaði 100 tonnum mánudaginn 2.júlí  og kom aftur að landi í dag, fimmtudag, með 60 tonn. Uppistaðan í báðum þessum túrum var ýsa.

Hoffell

Undanfarnar vikur hefur Hoffellið verið í slipp í Færeyjum.  Þar er verið að sinna almennu viðhaldi á skipinu og það málað í sínum fallega græna lit. Gert er ráð fyrir að skipið fari niður úr slippnum í lok næstu viku.

Sandfell

Sumarið hefur verið fengsælt hjá Sandfelli. Þann 23.júní landaði Sandfellið 18 tonnum, þann 24.júní kom Sandfell einnig með 18 tonn að landi og 25.júní voru voru 10 tonnum landað úr Sandfellinu.

Góður gangur hjá Ljósafelli

Vel hefur gengið hjá Ljósafellinu undanfarið. Þann 18.júní kom það að landi með 18 tonn og þann 22.júní landaði Ljósafellið 54 tonnum. Í gær, þann 28.júní,  landaði svo Ljósafellið 60 tonnum af blönduðum afla eftir aðeins 36 klukkustunda úthald.

Hoffell

Hoffell landaði í gær 1232 tonnum af kolmunna. Þessi afli var geymdur um borð í kælingu yfir helgina meðan sjómannadegi var fagnað. Skipið kom raunar inn á laugardagsmorgni og fór beint í skemmtisiglingu með fólk í tilefni sjómannadags. Nú er verið að taka veiðarfæri og búnað í land sökum þess að skipið er að fara í slipp til Færeyja.