Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er öflugt félag sem stendur fyrir skemmtilegum viðburðum fyrir félagsfólk og fjölskyldur þeirra.  Síðasta útspil félagsins mætti með réttu kalla Grand, því að stór hópur starfsfólks LVF ásamt mökum fór í 10 daga ferð til ítölsku eyjarinnar Sikiley. Töldu ferðalangar 129 sálir og var þetta því fjölmennasta ferð starfsmannafélagsins til þessa.  Flogið var frá Egilsstöðum þann 6.október til Catania á Sikiley, en það er næst stærsta borg eyjarinnar og er við austurströndina.

Fyrstu tvær næturnar var gist á hóteli í Catania og síðan fór hópurinn á Unahotels Naxos Beach Sicilia sem er lúxus hótel samstæði sem stendur líka við austurströndina en nokkuð norðar.

Bryndís Magnúsdóttir launafulltrúi er í stjórn starfsmannafélagsins og sagði hún að Ítalía

hefði orðið fyrir valinu því þar væri gott veður og góður matur auk menningar og lista, eitthvað fyrir alla. “Við vorum nokkuð lengi að negla niður ferð því það voru erfiðleikar við að fá leiguvél. Einnig var erfitt að finna stór hótel á Ítalíu sem eru líka nálægt miðbæ” sagði

Bryndís og bætti því við að fararstjórarnir tveir á vegum Kompaníferða hefðu verið mjög

fínir. “Annar af þeim var með okkur í Budva í Svartfjallalandi svo að hann er nánast orðinn

einn af hópnum”.

Bryndís hóf störf hjá Loðnuvinnslunni í júní 2021 og var þetta þriðja ferðin hennar með

starfsmannafélaginu og sagði hún að þessar ferðir hafi gert mikið fyrir sig persónulega. “Ég

er alltaf að kynnast samstarfsfólki mínu betur og betur og svo er það  kærkomið að fá

svona langt frí og góða hvíld með eiginmanninum” sagði Bryndís.

Á Sikiley hafa geisað skógareldar um nokkurt skeið en það truflaði ekki ferðamenn að þessu

sinni enda innfæddir alvanir að glíma við slíkan vanda og hafa góða stjórn á öllum hlutum í

þessum efnum. Einhverjir sáu þyrlu sækja vatn við ströndina til þess að sleppa á eldana og þóttu það áhugverð sjón enda erum við Íslendingar ekki óvön því að nota þyrlur til hjálpar- og björgunarstarfa.

Óli Róbert er leiðsögumaður og annar tveggja sem sá um hópinn í ferðinni til eyjarinnar fögru í suðri. Hann Óli Róbert átti varla orð til þess að lýsa ánægju sinni með hópinn. „Þetta var frábær upplifun í alla staði, ég held svei mér að þetta hafi verið besti hópur sem ég hef verið með á ferðum mínum“ sagði leiðsögumaðurinn og hafði orð á því að allir hefðu verið svo jákvæðir og skemmtilegir.

Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri á Ljósafelli var einnig í þessari ferð. Eins og mörgum er

kunnugt þá slasaðist Hjálmar illa á fæti í snjósleðaslysi þann 4.mars 2022 og hefur staðið í

ströngu með fótinn allar götur síðan. Hann hefur gengið í gegn um margar aðgerðir og hefur

endurhæfing verið hans helsta verkefni síðustu misseri. Er ferðin til Sikiley fyrsta ferðin eftir

slysið sem hann treystir sér í. Sagði Hjálmar aðspurður að ferðin hefði verið meiriháttar. “Það

var svo gott veður og hlýtt og hlýindi fara mikið betur í skrokkinn á mér heldur en kuldinn

hérna heima” sagði Hjálmar og var sáttur við afrek sín á ferðalaginu. ´”Ég gekk á hverjum

degi og styrkti þar með fótinn og svo nutum við hjónin bara lífsins, lágum í sólinni og syntum

í sjónum”. Glögglega mátti heyra á Hjálmari að ferðin hafi verið kærkomin og þrátt fyrir

eymsli í baki sem hann telur vera eftir setuna í flugvélinni og alla hreyfinguna í sólinni þá hafi

það verið langþráð að komst úr daglegu rútínunni.

Eðvarð Þór  Grétarsson er sjómaður á Ljósafellinu og var þetta fyrsta ferðin hans með starfsmannafélaginu og því var fyrsta spurning til hans nokkuð fyrirsjáanleg:  Hvernig var ferðin? Og hann svaraði um hæl:  „Ferðin var í alla staði frábær, og það var augljóst að mikil vinna hefur verið lögð í að skapa sem mesta ánægju fyrir fólkið, og á stjórn starfsmannafélagsins mikið hrós skilið fyrir skipulagningu og alla þá vinnu sem þau lögðu á sig“. Eddi ( Eðvarð) sagði að hann væri búinn að vera á Ljósafellinu í rúm 5 ár og í þessari fyrstu ferð þeirra hjóna hafi hann fljótt komið auga á hversu mikil vinátta og samheldni einkenni starfsmannahóp LVF. „ Fyrirtækið bauð til kvöldverðar á frábærum veitingastað niður við sjó á Naxos ströndini, það var dásamlegt kvöld og erum við gríðarlega þakklát fyrir. Einnig fór áhöfn Ljósafells saman til kvöldverðar og þar tókst einnig mjög vel til, og þaðan fór enginn svangur, enda maturinn góður og hópurinn en betri“ sagði Eddi. Að gista á tveimur mismunandi stöðum  gerði ferðina ögn fjölbreyttari þótti Edda  og sagði hann líka að veðrið hefði verið alveg einstakt allan tímann, hlýtt og milt og nánast sífellt logn. „Það kom eingöngu rigning síðasta daginn, sem var ansi heppilegt“.En það mun hafa rignt á leið hópsin út á flugvöll. Sikiley skældi ofurlítið við brottförina.   Inntur eftir því í hvað hann hefði notað daga sína í suðuhöfum sagði hann að þeir hefðu farið töluvert í að liggja á sólbekkjum, spjalla við fólk eða ganga um svæðið og skoða sig um. Rétt eins og fólk gerir í ferðum sem þessum.  

„Ég fór ásamt góðum hópi í jeppaferð upp í 1800 metra hæð í hlíðum Etnu, sem er virkasta eldfjall í Evrópu, mér fannst þetta mjög áhugavert og fræðandi ferðalag. Kvöldin voru svo nýtt í spjall og spil með góðu fólki“ sagði Eddi og bætti við:  „Fyrir mig persónulega fannst mér hápunktur ferðarinnar vera næst síðasta daginn þegar ég leigði mér vespu og ók á henni upp í þorp sem heitir Castelmola og er byggt uppi á fjallstoppi. Það er eitthvað einstakt við það að vera einn á vespu að þvælast um. Ég mæli með því“. Eddi sagði líka að það hefði verið mikil og góð upplifunin að kynnast öllu þessu dásamlega fólki sem starfar hjá LVF og samveran hefði verið algerlega frábær. „Við hjónin munum ekki láta okkur vanta í komandi ferðir á vegum starfsmannafélagsins“ sagði glaðbeittur Eddi að lokum.

Elvar Óskarsson er stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar og einn af þeim fjölmörgu sem skemmtu sér á Sikiley. Hann var snöggur til svars þegar hann var spurður út í sína upplifun. „Þessi ferð var í alla staði frábær. Það er gaman að heyra hvað fólk skemmti sér vel og naut tímans þarna úti.  Þetta er fallegt svæði að skoða, mikil saga og svo skemmdi það ekki að veðrið lék við okkur allan tímann.

Sikiley er áfangastaður ferðamanna, sem þýðir að ótal margt er hægt að gera sér til gamans og dægrastyttingar. Margir fóru í ferðir til þess að kynnast landinu og þjóðinni. T.a.m fór hópur af vösku fólki í fjallahjólaferð, margir urðu varir við Etnu, eldfjallið virka sem á það til að ræskja sig nokkuð reglulega og senda frá sér iðandi reyk. Einhverjir spiluðu golf og svo framvegis.

Loðnuvinnslan bauð öllum hópnum til kvöldverðar á glæsilegu veitingahúsi og var mikið um dýrðir þar og ekkert til sparað eins og kom fram í máli Edda hér á undan. Og þar var líka slegið á létta strengi. Hópur ungra manna efndi til keppni í því hver skartaði ljótustu skyrtunni. Það fór þannig fram að hver og einn keypti eina skyrtu og svo skiptust þeir á gjöfum, hver og ein fyrirsæta skartaði skyrtu sem einhver annar hafði keypt. Skemmst er frá því að segja að kvöldverðagestir greiddu atkvæði samkvæmt bestu samvisku og sigurinn féll í skaut Lúðvíks Héðins Gunnarssonar, klæddur í einhvers konar klæði sem hinn rómverski Júlíus Cesar hefði verið stoltur af.

Nú láta ferðalangar líða úr sér og ylja sér við minningar og myndir af góðum dögum á hinni ítölsku Sikiley og ef að líkum lætur verður ekki langt að bíða þess að starfsmannafélag LVF hefji undirbúning að næstu ferð. Það er alltaf eitthvað til þess að hlakka til.

BÓA

Aldeilis föngulegur hópur

Það er víða fallegt handverk. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Reiðhjólahjálmar duga líka í hellaskoðun. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Glittir í skógarelda. Lj´somynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Ljótuskyrtukeppni! Sigurvegarinn er í neðri röð, lengst til vinstri. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Sól og blíða. Ljósmynd: Eðvarð Þór Grétarsson

Víða liggja leiðir. Ljósmynd: Eðvarð Þór Grétarsson

Eðvarð Þór Eðvarðsson á ferðinni. Ljósmynd: Eðvarð Þór Eðvarðsson

Við veislukvöldverðinn. Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar

Ljósmynd: Friðrik Mar