Tilkynning um ráðningu skipstjóra á Ljósafelli SU70
Kristján Gísli Gunnarsson, sem starfað hefur hjá Loðnuvinnslunni frá árinu 2008, hefur verið ráðinn sem skipstjóri á Ljósafelli SU-70.
Kristján er fæddur árið 1974 á Akureyri en flutti um 5 ára aldur til Dalvíkur þar sem rætur hans liggja. Síðustu ár hefur hann búið á Akureyri ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Sjöfn Magnúsdóttur, og dætrunum Magneu Björgu og Guðrúnu Rögnu.
Kristján útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum á Dalvík árið 1996 og lá þá leiðin til Samherja þar sem hann starfaði í rúman áratug. Kristján var ráðinn um borð í Ljósafellið árið 2008 og síðan þá hefur hann gengt flestum stöðum um borð í Ljósafellinu. Árið 2019 var hann ráðinn sem yfirstýrimaður og síðustu 2 ár hefur hann starfað sem skipstjóri í fjarveru Hjálmars.
Loðnuvinnslan óskar Kristjáni til hamingju með nýju stöðuna og óskar honum velfarnaðar í starfi.
Aðalvél Ljósafells kominn í 200.000 vinnustundir
Ljósafell SU 70 hefur verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri. Og er það vel, því ýmsum áföngum hefur það náð sem vert er að fjalla um. Núna er það vélin sem knýr þetta fagra fley áfram. Vélin sem er af gerðinni Niigata er komin í 200.000 klukkustundir. Þeim áfanga var náð þann 12.desember s.l kl. 13.03. En hvað þýðir það fyrir þann sem ekki hefur þekkingu á skipsvélum og endingartíma þeirra? Jú það þýðir að vélin hefur verið í gangi í 200.000 klukkustundir síðan hún var sett í skipið í nóvember 1988 í Gdynia í Póllandi. Til að setja þetta í aðeins meira samhengi fyrir áhugasama þá er þessi tími jafngildi þess að vélin hafi verið stanslaust í gangi í rúm 22 ár af þessum 36 síðan hún var sett í. Til að setja hlutina í enn frekara samhengi er hægt að setja þetta upp á þann hátt; að ef fjölskyldubílunum væri ekið á 60 kílómetra hraða á klukkustund í 200.000 klukkutíma væri hann kominn í 12 milljón kílómetra á mælinum. Það er mikið.
Þvílíkar tölur þykja líka háar á skipsvél, en hvað veldur því að hún hefur enst svona vel?
Högni Páll Harðarson var vélstjóri á Ljósfelli þegar vélin var sett um borð og hann svaraði aðspurður að grunnhönnun vélarinnar væri mikilvægur þáttur, „það er ekki allur búnaður byggður til að endast“ sagði hann og bætti því við að góð umhirða, eftirlit og tímanlega útskipti á slithlutum væri mikilvægur þáttur fyrir heilsu véla.
Kristján Birgir Gylfason er yfirvélstjóri á Ljósafelli og hefur sömu sögu að segja varðandi vélina, þ.e.a.s. hún sé vel smíðaður gripur, „það eru allir íhlutir í þessari vél sverir og sterkir sem þýðir að þeir þola meira álag“ sagði Kristján Birgir. Hann sagði líka að vélin væri hönnuð til þess að ganga 310 snúninga en hann, og hinir vélstjórarnir, létu hana aldrei ganga meira en 280 snúninga. Þegar Kristján Birgir var spurður að því hvort að hann teldi að vélin gæti gengið í mörg ár í viðbót svaraði hann því til að það væri svo sem ekkert sem benti til annars. „Það gæti farið að verða svolítið erfitt að fá varahluti því að hún er jú komin til ára sinna þrátt fyrir að vera við hestaheilsu“ sagði Kristján og bætti því við að það hefði aldrei verið sparað í viðhaldi við þessa vél og ávallt hugsað vel um allar hennar þarfir og því dygði hún svo vel.
Þegar Ljósafell lagðist við bryggju eftir síðasta túr fyrir jól, stóð vélin í 200.041,9 klukkustundum. Nákvæmur teljari heldur utan um tímana, og hann gerir greinilega ekki ráð fyrir svona mikilli notkun því að teljarinn getur aðeins talið upp í 99.999, og þegar þeirri tölu er náð hrekkur hann aftur á byrjunarreit, svo að útsjónarsamir vélstjórar hafa gripið á það ráð að setja límmiða fyrir framan með viðeigandi tölu
Það skiptir máli að gleðjast og fagna stóru sem smáu. Og samkvæmt hefð Loðnuvinnslunnar var áhöfn og gestum Ljósfells boðið upp á köku í tilefni áfangans. Og svo eru jólin á næsta leiti og því stóð áhöfn Ljósafells í því að hengja falleg ljós á hina öldnu hefðardömu hafsins, því Ljósafell skal skarta sínu fegursta.
BÓA
Verið að taka vélina úr umbúðum. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson
Verið að hífa um borð. Vélin lætur ekki mikið yfir sér þarna í lausu lofti en hún vegur engu að síður 30 tonn. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.
Það er ekki létt verk að koma vél á sinn stað. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson
Mælirinn góði sem heldur utan um vinnustundir vélarinnar. Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Frá vinstri: Kristján Birgir Gylfason yfirvélstjóri, Pétur Kristinsson 1.vélstjóri og Þorvaldur Már Elíasson yfirvélstjóri á móti Kristjáni. Ljósmynd: Kjartan Reynisson. Gaman er að geta þess að engin þessara herramanna var fæddur þegar vélin var sett niður árið 1988.
Skipstjórarnir á Sandfelli
Stundum er haft á orði að þegar einar dyr lokist, opnist aðrar. Oft er gripið í þetta orðatiltæki þegar breytingar verða á högum fólks. Á Sandfelli SU 75 hafa orðið breytingar á högum áhafnarmeðlima. Eins og mörgum er kunnugt eru tvær áhafnir á Sandfelli sem vinna tvær vikur í senn og eiga svo tvær vikur í frí. Því er tveir skipstjórar sem sitja við stjórnvölinn, sinn á hvorri vaktinni.
Róbert Gils Róbertsson er annar þeirra. Hann var í fríi þegar greinarhöfundur náði tali af honum. Hann er búsettur í Mosfellsbæ ásamt fjölskyldu sinni og var að dunda sér við jólaskreytingar. Róbert hefur verið á Sandfelli síðan árið 2018. Var ráðinn sem vélstjóri. En Róbert hefur æðstu menntun skipstjórnar „en ég hef samt alltaf verið á línubát“ sagði Róbert. Hann hefur verið á sjó í tæp 27 ár og þrátt fyrir að hafa réttindi upp á að mega stjórna stóru skipi velur hann línuveiðar. Það segir hann að henti sér best. Það var svo sumarið 2023 að hann tók við sem skipstjóri á annarri vaktinni.
Róbert sagði það líka vera fjölskylduvænt að vinna tvær vikur og eiga frí í tvær. „Þó svo að vinnan sé langt að heiman eru fríin góð og ég veit alltaf langt fram í tímann hvenær ég á frí og því auðvelt að skipuleggja út frá því“ sagði Róbert.
Til að kynnast kjarnanum sem býr í hverri manneskju er gott ráð að spyrja um hvað það sé sem gerir manneskjuna glaða. Róbert sagðist njóta þess að vera heima með konu sinni og þremur börnum, en hann upplýsti greinarhöfund um það að hann hefði keppt í sjóstangaveiði í nokkur ár, tók þátt á Íslandsmótum og allt hvað eina, eða alveg þangað til bakvandamál gerðu vart við sig. „Svo keyptum við hjónin fokhelt hús og höfum verið að byggja það undan farin ár“ sagði skipstjórinn Róbert.
Marcin Grudzien er einnig skipstjóri á Sandfelli SU 75, hann tók við starfinu s.l haust. Marcin var einn af áhafnarmeðlimum sem „fylgdu með“ þegar Loðnuvinnslan keypti bátinn árið 2016. Marcin kom fyrst til Íslands árið 2000 en fluttist svo til landsins með fjölskylduna árið 2006. „Fyrsta starfið mitt á Íslandi var að vinna í frystihúsi á Breiðdalsvík“ sagði Marcin og bætti við glettnislega „ég er eiginlega gamall Breiðdælingur“. En eftir að hann fór á sjó hefur hann unnið flest störf um borð, kokkur, háseti, vélamaður, stýrimaður og skipstjóri. Þannig að íslenskt sjómannslíf er honum vel kunnugt. Marcin, sem er fæddur og uppalinn í Póllandi, talar afar góða íslensku og hefur aðlagast býsna vel. En hvað er það sem gleður Marcen í frítímanum? „ Mér finnst gaman að ferðast, fara í ræktina og njóta stunda með fjölskyldunni, en hann á konu og tvö börn.
Auðvitað var ekki hjá því komist að inna skipstjórnarmennina eftir því hvernig þeim þætti að vinna hjá Loðnuvinnslunni og svör þeirra báru að sama brunni. „Það er mjög gott að vinna hjá fyrirtækinu, það er aldrei neitt vesen ef það vantar eitthvað og öll þjónusta við áhöfn og skip er til fyrirmyndar“ svöruðu þeir nánast samhljóma frá sitt hvorum staðnum á landinu. Annar reyndar um borð í Sandfelli við bryggju, bíðandi eftir því að brælunni linni svo hægt væri að fara aftur til sjós, hinn, eins og áður sagði, í Mosfellsbæ.
Sandfell hefur verið heppið með áhafnir, góðir og vandaðir sjómenn hafa vermt plássin þar og ekkert sem bendir til þess að breyting verði þar á.
Marcin og Róberti eru færðar óskir um gott gengi fyrir bát og áhöfn.
BÓA
Róbert Gils Róbertsson
Marcin Grudzien
Íslenskukennsla
“Á íslensku má alltaf finna svar” segir í ljóði eftir Þórarinn Eldjárn. Það á nú eflaust við önnur tungumál líka en við, unnendur íslenskunnar, kunnum að meta þegar fallega er talað um tungumálið.
Hjá Loðnuvinnslunni vinnur margt fólk. Fólk sem kemur héðan og þaðan úr veröldinni og meðferðis hefur það auðvitað sitt móðurmál. En tungumálakunnátta er dýrmæt þekking sama hvaðan einstaklingur kemur og hvert hann fer. -Svo sagði músin sem bjargaði lífi sínu með því að kunna að gelta.
Eydís Ósk Heimisdóttir vinnur á skrifstofu LVF og henni er margt til lista lagt. Hún er með Bsc í viðskiptafræði og spænsku ásamt því að vera með master gráðu í kennslufræði. Að auki eru tungumál hennar áhugamál og getur hún tjáð sig á allmörgum tungum. Það lá því beint við að fá hana til þess að vera með íslenskunámskeið fyrir það starfsfólk LVF sem óskar eftir slíku námskeiði. Síðan í september hefur námskeið verið í gangi og jafnan nokkuð vel sótt. Þar sem mæting er frjáls þá stjórnast hún svolítið af önnum í fyrirtækinu.
„Ég legg áherslu á orðaforða sem tengist daglegu lífi. T.d. þegar manneskja verslar eða á í samræðum“ sagði Eydís Ósk þegar hún var spurð um áherslur í náminu. Þá sagði Eydís að það færi alltaf nokkur tími í að læra hin ýmsu orð um veður. Það er jú okkur, íbúum á landinu bláa, hugleikið umtalsefni. „Þá er farið í orðaforða sem er hagnýtur eins og tölur, mánuði, daga og helstu sagnir“, sagði Eydís líka og bætti við síðasta tímanum fyrir jól yrði varið í orð tengd jólum.
Aðspurð sagði Eydís Ósk að nemendunum gengi vel, þau væru áhugasöm og dugleg. Fyrirhugað er framhalds námskeið á vorönn.
Ein af þátttakendum námskeiðsins er Caro Robert, hún kemur frá Argentínu. Caro sagði að það væri mikilvægt fyrir sig að læra íslensku. „Jafnvel þótt flestir Íslendingar tali góða ensku þá finnst mér það sýna vott af virðingu og áhuga á landinu að vilja læra tungumálið“ sagði Caro og bætti því við að það gæti jafnvel aukið möguleika til þess að taka þátt í félagsstarfi og öðru slíku með innfæddum. „Ég hef nú þegar lært nógu mikið til þess að geta spjallað svolítið á íslensku“ bætti Caro við og greinarhöfundur getur staðfest það. Þegar Caro var innt eftir því hvort að kennslan hefði staðið undir væntingum svaraði hún um hæl að Eydís væri afar góður kennari. „Hún er líka opin og góð persóna, og mjög svo viljug að svara öllum okkar spurningum og svo er hún svo góð í öðrum tungumálum að allar útskýringar eru auðskiljanlegar“ sagði Caro frá Argentínu.
Það er grundvallar atriði í samskiptum fólks að skilja hvert annað. Oft þurfum við sem höfum íslensku að móðurmáli að bregða fyrir okkur erlendu tungumáli til að gera okkur skiljanleg og ávallt er það gleðilegt þegar fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku langar að læra okkar ástkæra ylhýra.
Því mun Loðnuvinnslan bjóða upp á námskeið í íslensku á meðan einhver mætir í tíma.
BÓA
Eydís Ósk Heimisdóttir
Nemendur dagsins: Sophie frá Sviss og Justine frá Frakklandi, þær eru skiptinemar en fá góðfúslega að fylgja Eydísi. Síðan eru það Agustin og Carolina, starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Eydís Ósk.
Námsgögn. Ljósmynd: Eydís Ósk.
Hjálmar siglir á ný mið
Engin veit sína ævina fyrr en öll er segir máltækið. Enda engin leið að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu. Hjálmar Sigurjónsson fráfarandi skipstjóri á Ljósafelli SU 70 er einn af þeim sem mætti óvæntum örlögum í sínu lífi. Fallegan vetrardag í mars mánuði árið 2022 var hann, sem oftar, á snjósleða og ók um fjallasali Fáskrúðsfjarðar. Til þess að gera langa sögu stutta, endaði förin með þeim hætti að hann slasaðist alvarlega á fæti. Svo alvarlega að bókstaflega hékk leggurinn fyrir neðan hné við lærið á u.þ.b. 5 sentimetra húðlagi. Hjálmar gat sjálfur hringt eftir aðstoð og björgunarsveitafólk mætti á staðinn og hlúði að honum þangað til þyrla mætti og flutti hann á sjúkrahús. Fætinum var naumlega bjargað, en aldeilis ekki Hjálmari án erfiðleika. Frá slysinu hefur hann verið svæfður þrettán sinnum á meðan læknar unnu hörðum höndum að því að bjarga og bæta. Það hafa verið flutt bein og vöðvar frá öðrum stöðum á líkamanum til þess að byggja upp legginn og nú er svo komið að fóturinn er nothæfur. Hann er svolítið skrítin á að líta, en nothæfur. „Það var og er kraftaverk að ég skyldi halda fætinum“ sagði Hjálmar og raunin er sú að það stóð tæpt um tíma.
Eftir þessa þrekraun alla var Hjálmar tilbúinn til þess að hverfa aftur til starfa sem skipstjóri á Ljósafelli og í júlí s.l. fór hann í fyrsta túrinn eftir slys. Fljótlega kom þó í ljós að starfið var erfitt fyrir líkamann sem gengið hafði í gegn um þá erfiðleika sem Hjálmar hefur óneitanlega staðið frammi fyrir síðustu tvö ár. „Það var veltingurinn sem var svo erfiður fyrir bak og háls og fóturinn viðkvæmur og kraftlítill og þolir illa að ég stígi skakkt niður“ sagði Hjálmar aðspurður um hvaða það hefði verið sem stóð honum fyrir þrifum á sjónum. Hann tók því þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu. „Það var alls ekki létt ákvörðun“ sagði Hjálmar og bætti því við að hann hefði svo sem getað hangið lengur ef hann hefði tekið ómælt magn af verkjatöflum, en það þótti honum ekki góður kostur. Svo að Hjálmar tók þessa erfiðu ákvörðun, að segja skilið við sjómennskuna. En maðurinn er aðeins 55 ára gamall og alls ekki af baki dottinn. „Ég finn mér eitthvað annað að gera“ sagði hann léttur. Enda margt sem hægt er að starfa við sem er laust við velting og streitu skipstjórnandans.
En þegar Hjálmar var spurður út í hvað sæti eftir í huga og sál þegar hann horfir til baka til sjómanns áranna svarar hann að bragði: „Þakklæti fyrir þá staðreynd að aldrei hefur orðið alvarlegt slys um borð og allir þessir frábæru strákar sem ég hef unnið með í gegn um tíðina“.
Og nú tekur við nýr kafli í lífi Hjálmars. Og inntur eftir því hvað hann ætlaði að taka sér fyrir hendur næstu vikurnar svaraði hann að bragði: „ Læra að baka smákökur hjá henni Dagný“ og vísaði þar til konu sinnar sem bætti við um hæl: „Og læra að þrífa glugga“. Svo Hjálmar og Dagný verða ekki verkefnalaus fram að jólum en þeirra ætla þau að njóta með börnum, barnabörnum og tengdabörnum. Og þegar sólin fer að verma reit á nýju ári, mun Hjálmar væntanlega finna sér nýjan starfsvettvang, eitthvað sem hæfir þessum hógværa og glaðlega manni.
Loðnuvinnslan vill þakka Hjálmari fyrir hans góðu og óeigingjörnu störf í þau 29 ár sem hann var á Ljósafelli og óskar honum alls hins besta í lífi og leik.
BÓA
Hjónin Dagný Hrund Örnólfsdóttir og Hjálmar Sigurjónsson á heimili sínu á Fáskrúðsfriði.
Snjólaugur Ingi
Snjólaugur Ingi Halldórsson er ungur maður, fæddur á því herrans ári 1996. Og þrátt fyrir ungan aldur starfar hann sem verkstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hans aðal starfsstöð er frystihúsið þar sem framleitt er úr þorski og ýsu, auk annarra hráefna af minna magni, dýrindis matur fyrir fólk um allan heim.
Snjólaugur hóf störf hjá LVF á unga aldri, sem unglingur fékk hann sumarstörf eins og tíðkaðist á þá daga. Áður heldur en tæknin hélt innreið sína af fullum þunga með tækjum og tólum sem krefjast þess að eldri einstaklingar sinni störfunum. En hann kynntist líka frystihúsinu sem barn þar sem afi hans, Óskar Sigurðsson frá Þingholti, starfaði lengi þar við hin ýmsu störf þó lengst af sem vélamaður. Snjólaugur rifjar upp heimsóknir til afa síns „þar sem ég fékk sjómannakaffi, sem var pínulítið kaffi, heilmikil mjólk og smá sykur“ sagði hann og minningin tældi fram bros. En frá árinu 2018 hefur Snjólaugur verið í fullu starfi hjá Loðnuvinnslunni.
Á síðasta ári varð laus staða verkstjóra og Snjólaugur íhugaði að sækja um en gerði það ekki. Svo var það dag einn að framleiðslustjórinn kallaði á hann og bað hann að finna sig á skrifstofu sinni og bauð honum starfið og þá svaraði Snjólaugur að bragði „það var mikið“ því hann hefur ríka kímnigáfu og er snöggur að hugsa.
Þegar Snjólaugur er inntur eftir því í hverju starfið felist aðallega svarar hann: „ í mannlegum samskiptum fyrst og fremst. Mitt starf er að beina fólki í verkefni eftir því sem þörf krefur og aðstoða og hjálpa þeim sem þess þurfa“. „ Þetta er hálfgert „pepp starf“ bætti hann við.
En störf hins unga verkstjóra eru ekki bundin við frystihúsið, hann fer einnig á aðrar stöðvar þegar unnin er uppsjávarfiskur líkt og síld, loðna og makríll.
Það var að vonum mikið að læra í upphafi, mikilvægt er fyrir manneskju í hans stöðu að þekkja til allra þátta. Vita hvernig vélar og tæki virka og vita til hvaða leiða þarf að leita til þess að leysa hin ýmsu mál sem upp kunna að koma. Á meðan á spjalli greinarhöfundar og Snjólaugs stóð komu allnokkrir til þess að leita hjá honum ráða eða fá úrlausn úr einhverju sem úr þurfti að greiða. Og ávallt stóð hann upp brosandi og tilbúinn til að hlusta og finna lausn.
Undir stjórn Snjólaugs eru að jafnaði tæplega 50 manns. Þau tala mismunandi tungumál og ekki reynist það okkar manni tálmi. Auk þess að tala reiprennandi ensku þá talar hann hrafl í nokkrum öðrum tungumálum eins og pólsku og litháensku.
En hvernig líkar honum starfið? „Mér líkar það afar vel“ svaraði hann, „það er oft mikið að gera og maður er nánast alltaf á einhverskonar bakvakt því það er oft hringt til að spyrja um ýmsa hluti, en það er bara hluti af starfinu“. Og hann tók það líka fram að samstarf við bæði þá einstaklinga sem tróna ofar á skipuritinu og þá sem sitja neðar, væri afskaplega gott. „Það gladdi mig líka hvað það var vel tekið á móti mér í nýju hlutverki“.
Greinarhöfundur hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að fólk hafi almennt glaðst við ráðningu hans því eins og áður segir er hann dagfarsprúður og viðræðugóður með afbrigðum.
En hvað gerir Snjólaugur Ingi þegar hann er ekki í vinnunni? ´“ Ég spjalla við kærustuna mína, hana Alexöndru“, en hún dvelur í Reykjavík svo að skötuhjúin nota tæknina til þess að spjalla saman á meðan þau dvelja sitt á hvoru landshorninu. Þá sagði Snjólaugur líka að hann stundaði hlutabréfaviðskipti. „Ég var á leiðinni í viðskiptafræði þegar mér bauðst verkstjórastarfið“ sagði hann. Svo því námi var skellt á frest en Snjólaugur er klókur og vís og stundar sín hlutabréfaviðskipti sem aukabúgrein og vísast er að þar ráði skynsemin för, því þessi ungi maður hefur mikið af þeim eiginleika til að bera.
„Svo finnst mér afar gaman að ferðast, við Alexandra erum að fara til Japan í lok nóvember“ sagði Snjólaugur Ingi og greinilegt á raddblænum að hann hlakkar til ferðarinnar.
Um leið og Snjólaugi eru færðar óskir um góða ferð, fulla af nýjum ævintýrum er honum þakkað fyrir spjallið og greinarhöfundur gengur út í bjartan daginn þar sem geislar sólarinnar ná enn að skína á hæstu tinda. En þeir sólardagar eru taldir.
BÓA
Snjólaugur Ingi Halldórsson í fullum skrúða verkstjóra.
Bleikur dagur
Bleika slaufan og bleikur október eru alþjóðleg fyrirbæri sem flest Krabbameinsfélög heims standa fyrir. Slaufan er tákn Krabbameinsfélaga í baráttunni gegn krabbameini í konum.
Í dag, 23. október, er bleikur dagur, þá erum við öll hvött til að klæðast bleiku, bera bleiku slaufuna, lýsa skammdegið upp með bleiku ljósi, borða bleikar kökur eða hvað eina annað til þess að sýna konum sem greinst hafa með krabbamein stuðning og samstöðu.
Loðnuvinnslan hefur ekki látið sitt eftir liggja til að minna á baráttuna gegn krabbameini, það blakta bleikir fánar við húna, hárnet þeirra er starfa við fiskvinnsluna eru bleik og latex hanskarnir einnig fallega bleikir. Ekki var látið þar við sitja, heldur blásið til fræðslufundar í kaffistofu frystihússins þar sem Hrefna Eyþórsdóttir formaður og starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða hélt erindi, bæði á íslensku og ensku. Inntak erindisins var að auka vitund viðstaddra á nokkrum staðreyndum varðandi krabbamein, hvetja til þátttöku í skimunum og kynna starfsemi Krabbameinsfélagsins, þannig að öllum viðstöddum ætti að vera ljóst að þar geta einstaklingar sótt sér stuðning, fræðslu og jafnvel fjárhagslegan stuðning greinist viðkomandi með krabbamein.
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs – og öryggisstjóri LVF, sagði hún að það væri mikilvægt fyrir alla að fá þær upplýsingar sem Hrefna deildi með viðstöddum, því að innan fyrirtækisins er hópur fólks af erlendum uppruna sem jafnvel þekkir ekki þá leið sem þarf að feta ef t.a.m finnst hnúður í brjósti, eða hvernig hægt er að komast að í skimun.
Fjöldi fólks kom í kaffistofu frystihússins til að hlýða á Hrefnu flytja sitt erindi og miðið við þá tölulegu staðreynd að ein manneskja af hverjum þremur fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni, munu upplýsingarnar sem hún lét viðstöddum í té nýtast vel.
Hrefna var innt eftir því hvort að starfsmaður Krabbameinsfélags Austfjarða færi oft á vinnustaði til að flytja erindi og sagði hún að nokkuð væri um það. „Sérstaklega í bleikum október og bláum mars, en sá mánuður er helgaður baráttu gegn krabbameini í körlum “ svaraði hún og bætti því við að það væri mælanleg aukning á þátttöku í skimunum og vafalaust má þakka það ötulu áminningastarfi.
Boðið var upp á kaffi og meðlæti, kökur með bleiku kremi ásamt öðrum gómsætum bitum til að stinga upp í sig, og einhvern veginn verður allt betra þegar nægur er maturinn.
BÓA
Falleg og góð bleik kaka. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Ávextir og kökur. Ljósmynd: AEH
Hér má sjá fallegu bleiku hárnetin og bleika skjáinn hjá Hrefnu. Ljósmynd: AEH
Opinn dagur
Þann 17.október s.l. var svokallaður Opinn dagur hjá LVF. Þá voru nemendur í 8. – 10. bekk Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar boðin í heimsókn og markmiðið var að kynna fyrir þeim hið fjölbreytta starf sem fer fram hjá fyrirtækinu.
Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs-og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni. Hún sagðist hafa gengið með þessa hugmynd í maganum í all-langan tíma og í góðu samstarfi við Grunnskólann varð hugmyndinni hrint í framkvæmd.
„Þetta voru um 30 ungmenni sem var skipt upp í 6 hópa, hóparnir skiptust svo á að fara á milli deilda í fyrirtækinu þar sem þau fengu kynningu á því hvað er að gerast í hverri deild eða að þau fengu lítið verkefni til að leysa. Með þessu fengu þau að kynnast fiskvinnslu, skrifstofustörfum, vélsmíði, rafvirkjun, starfi í fiskimjölsverksmiðju og sjómennsku. En inn í hverri deild eru síðan mörg fjölbreytt störf sem sum hver áttuðu sig ekki á fyrr en eftir heimsóknina“, sagði Arnfríður aðspurð um hvernig skipulagningu og framkvæmd hefði verið háttað.
Arnfríður sagði enn fremur að það væri von stjórnenda LVF að geta skapað tækifæri til fjölbreyttra starfa fyrir ungmennin þegar þau vaxa úr grasi og með þeim hætti stuðlað að því að sem flestir sjái sér gæfuríka framtíð hér í Búðaþorpi við Fáskrúðsfjörð.
Frá hönd Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar er markmiðið með heimsóknum af þessu tagi alveg skýrt. Sigrún Eva Grétarsdóttir lýsti því vel með eftirfarandi orðum: „Markmiðið með starfskynningum er að efla tengsl skóla og samfélags, auk þess að gefa nemendum áþreifanlega reynslu úr atvinnulífinu. Helstu hlutverk nemendanna á meðan á starfskynningum stendur er að afla sér upplýsinga um starfsemina og taka þátt í þeim verkefnum sem þeim eru falin“.
Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar var mjög ánægður með hvernig til tókst og orðaði það skilmerkilega með þessum orðum: „Það sem skiptir mig máli er að ná sterkri tengingu við krakkana sem eru að alast upp í samfélaginu okkar. Þau viti fyrir hvað fyrirtækið stendur, hverskonar starfsemi fer þar fram og hvaða tækifæri standa þeim til boða í framtíðinni ef þau hafa áhuga á að starfa hjá okkur”.
Þegar kynningum og heimsóknum á hinar mismunandi deildir lauk, var hópnum boðið í Wathneshúsið í pizzu, gos og sælgæti. Sannarleg veisla að loknum góðum vinnudegi hjá öllum viðkomandi. Nemendur voru sæl og glöð með daginn og komu jafnvel með góðar hugmyndir um hvernig mætti gera húsakynni og fyrirtækið meira spennandi. Nemendur stóðu sig vel, þau voru kurteis og áhugsöm.
Starfsfólk Loðnuvinnslunnar sýndi líka hversu rík þau eru af gæsku og gleði og tóku afar vel á móti nemendunum, gáfu sér tíma til þess að sýna handtök og útskýra eðli starfa. Þannig hefur menntun farið fram um aldir alda, þeir sem kunna -kenna þeim sem ekki kunna.
Og þegar Arnfríður var innt eftir því hvort að Opinn dagur væri verkefni sem vert væri að halda aftur svaraði hún að bragði: „Ég vona innilega að þetta verkefni sé komið til að vera og að í framtíðinni verði þetta jafnvel heill dagur þar sem hægt er að taka yfirferð á öllum störfum og deildum fyrirtækisins. Ég horfi svo sannarlega með björtum augum til framtíðar og er handviss um að í þessum hópi leynist framtíðarstarfsfólk fyrir Loðnuvinnsluna“.
Já, nám fer fram með því að prófa, rannsaka, horfa og hlusta. Hvort heldur setið er á skólabekk eða úti í atvinnulífinu. Það er mikilvægt að kunna að sækja sér þekkingu úr bókum og tölvum, en það er jafn mikilvægt að læra handtök og framkvæmd hinna ýmsu starfa. Það eykur möguleika einstaklings á að finna sína hillu í þessu blessaða, dýrmæta lífi.
BÓA
Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar útkskýrir fyrir áhugasömum nemendum. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Örn Rafnsson kveður LVF
„Sjómannslíf, sjómannslíf, draumur hins djarfa manns“ segir í dægurlagatexta eftir Loft Guðmundsson. Ekki veit greinarhöfundur hvort að Örn Rafnsson, fráfarandi skipstjóri á Sandfelli SU 75, sé mjög djarfur maður, en heiðarlegur, hlýr og duglegur er hÖann. En hitt er staðreynd að sem ungur drengur dreymdi hann ekkert sérstaklega um að verða sjómaður heldur var það meira tilviljun sem réð því að hann endaði á að gera sjómennsku að ævistarfi.
„Árið 1974, þegar ég var 16 ára gamall, sá móðir mín auglýsingu í blaði um að það vantaði mann á bát í Grindavík, hún hringdi og útvegaði mér starfið. Svo skutlaði hún mér á BSÍ og ég fór á sjóinn“ rifjaði Örn upp þegar hann var inntur eftir því hvernig á það hefði æxlast að hann fór á sjóinn. Á allri starfsævinni stundaði Örn vinnu í landi í eitt og hálft ár, annars var það sjómennskan.
Fyrir u.þ.b. átta árum keypti Loðnuvinnslan bát af Stakkavík í Grindavík sem þá bar nafnið Óli á Stað. Það lán fylgdi kaupunum að áhöfnin fylgdi með. „Við vorum keyptir með“ sagði Örn brosandi og bætti því við sér hefði þótt frábært hversu vel var tekið á móti áhöfninni og svo væri afar gott að stunda sjóinn fyri austan.
Og nú er Örn hættur að vinna, hann er búinn að leggja sjóstakkinn á hilluna, ef svo má að orði komast. Þau hjónin hafa flutt úr Grindavík eftir að hafa búið það síðan 1977 og hafa komið sér fyrir í Hveragerði. Því lá beinast við að spyrja sjómanninn hvernig það væri að búa á stað þar sem ekki sést til sjávar eftir að hafa varið eins miklum tíma og raun ber vitni á sjó og við sjávarsíðuna. „Það er óneitanlega svolítið skrýtið“ svaraði Örn, „ég sakna þess svolítið að geta ekki fengið mér göngu niður á bryggju, því er ekki að neita“. En nú er runnin upp sá tími á lífsleið Arnar að geta ráðstafað tíma sínum eftir því sem hann langar. „Ég er áhugamaður um veiðar, skotveiðar og stangveiðar, og ég ætla að dunda mér við slíka iðju“ sagði Örn.
Örn bað fyrir kveðjur til samstarfsfólk hjá Loðnuvinnslunni og allra bestu þakkir fyrir frábært samstarf og sagði einnig að það hefði verið afskaplega ánægjuleg samvinna milli útgerðarinnar og áhafnar, auk allra þeirra sem komu að því að þjónusta Sandfell. „Svo vona ég að ég eigi eftir að hitta allt þetta góða fólk aftur“ sagði Örn að lokum.
Loðnuvinnslan þakkar Erni fyrir hans góðu og óeigingjörnu störf í þágu fyrirtækisins og óskar honum og fjölskyldu hans velfarnaðar, gæfu og gengis.
BÓA
Örn Rafnsson fráfarandi skipstjóri á Sandfelli SU 75.
Eldvarnir og reykköfun
Öryggismál eru mikilvægur málaflokkur í öllu samhengi mannlegs lífs. Við viljum finna til öryggis jafnt heima sem að heiman. Margt fólk stundar störf utan heimilis sem geta verið hættuleg í einhverjum skilningi, þarf ekki annað en benda á umferð á vegum í því samhengi. Einstaka starf eða iðn er í eðli sínu hættuleg en hættan minnkar í sama hlutfalli og öryggi eykst og hjá Loðnuvinnslunni er þetta einn mikilvægasti þáttur innra starfs, öryggi starfsfólks, það markmið að allir komi heilir heim að loknum vinnu degi… alltaf.
Sjómenn þurfa að fara í gegn um Slysavarnaskóla sjómanna til þess að fá full réttindi til þess að stunda sjómennsku. Einn þáttur í því námi er reykköfun og er hún kennd í skipi skólans sem ber hið fallega nafn Sæbjörg. En eitt er að ganga blindandi í gegn um skólaskip eða í gegn um skipið sem er hinn raunverulegi vinnustaður sjómanns.
Þann 2.október s.l. var haldið viðamikil eldvarnar og reykköfunaræfing um borð í Hoffelli og Ljósafelli. Var æfingin haldin í samstarfi við Slökkvilið Fjarðabyggðar. Arnfríður Eide Hafþórsdóttir er mannauðs-og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni og hafði veg og vanda af skipulagi og framkvæmd. „Þetta var gríðarlega góð æfing og við lærðum svo margt“ sagði Arnfríður og bætti við: „það er mikilvægt að taka svona æfingar og fara ofan í saumana á öllu sem varðar búnaðinn og verkferla“.
Æfingin hófst með því að það kom útkall um að eldur væri í vélarrúmi. Þá byrjar áhöfnin á því að safnast saman í brúnni og fara yfir hlutverk hvers og eins, sem eru mismunandi eftir því hvaða starfi viðkomandi gegnir um borð. Þá þurfa þeir einstaklingar, sem hafa það verkefni með höndum, að klæða sig í reykköfunargalla, setja á sig grímur og súrefniskút. Ávallt fara í það minnsta tveir saman, annar leiðir og hinn kemur á eftir og heldur í þann sem á undan er með ákveðnum hætti. Verkefnið var að fara niður í vélarrúm og skrúfa fyrir ákveðinn krana. Þegar þessi orð eru lesin virðist verkefnið ekki vera svo flókið en raunin er önnur. Reykkafararnir sjá ekkert, það er engu líkara en að sjálf nóttin hafi tekið sér bólfestu í augum þeirra því reykurinn er svartur sem bik, þó svo að hann sé aðeins innan á grímunum því sem betur fer var ekki um raunverulegan reyk að ræða. En það þarf að feta sig niður þrönga stiga, finna réttu leiðina og leysa verkefnið.
„Æfingin var tekin upp svo að viðkomandi aðilar geti skoðað það sem betur má fara, að vonum gekk svolítið betur hjá þeim mönnum sem starfa að jafnaði í vélarrúminu, í þeirra tilvikum eru hreyfingar og ganga að einhverju leiti í vöðvaminninu, en hjá hinum sem ekki starfa þar að staðaldri vildu línur festast í krönum og rörum og þess háttar“ sagði Arnfríður og gat þess einnig að þátttakendurnir í æfingunni hefðu allir haft orð á því hvað það var gagnlegt og lærdómsríkt að sjá hvernig þeir hreyfðu sig um í myrkrinu.
Arnfríður sagði einnig að það sem væri ekki síður mikilvægt í við æfingar af þessu tagi væri að fara yfir búnaðinn. „Enda kom það á daginn að það þarf að endurnýja hluta af þessum búnaði“ sagði öryggisstjórinn með festu. Þá velti greinarhöfundur því fyrir sér hvort að ekki væri svolítið skrítið að festa kaup á búnaði fyrir himinháar upphæðir í þeirri von að það þurfi aldrei að nota hann og orðaði þessar vangaveltur sínar við Arnfríði sem svaraði um hæl: „ jú, kannski svolítið skrítið í þessu samhengi, en aldrei nein spurning. Öryggi og mannslíf verða aldrei metin til fjár“.
Arnfríður hafði orð því hversu fagmannlega fulltrúar Slökkviliðs Fjarðabyggðar hefðu komið fram á æfingunni og einnig að þeir hefðu boðið fram aðstöðu sem Slökkviliðið býr yfir til æfinga á reykköfun til áframhaldandi æfinga fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar. „Þetta var fyrsta skrefið í æfingum af þessu tagi, það munu verða sambærilegar æfingar fyrir allar aðrar deildir fyrirtækisins í fyllingu tímans“.
Já, lífið er ekki bara saltfiskur eins og fólk sagði gjarnan hérna áður fyrr. Nei, aldeilis ekki. Það er fullt af óvæntum uppákomum sem margar hverjar koma með skelli. Því er afar mikilvægt að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir slíkt. Einn þáttur í því er að kunna að bregðast við og hafa þau tæki og tól sem til þarf. Þar er Loðnuvinnslan og mannauðs-og öryggisstjórinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir að vinna gott verk.
BÓA
Mannauðs-og öryggisstjórinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir. Ljósmynd: Wilmer Alexander Fabian.
Um borð í Ljósafellinu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Það þarf að útskýra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Og það þarf að segja frá. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Um borð í Hoffelli. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.
Nemendur í starfskynningu
Ungum manneskjum í dag standa margar dyr opnar þegar kemur að því að kjósa sér starfsferil. Því er mikilvægt fyrir þessar ungu manneskjur að kynna sér hvaða möguleikar eru til staðar og hvernig hin ýmsu störf eru í raun og veru. Því er farsælast að kynna sér málin frá fyrstu hendi. Fara á vinnustaði, fá fræðslu og kynningu og jafnvel upplifun á því sem þar er haft fyrir stafni. Verkefni af þessu tagi er í gangi í Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar um þessar mundir. Nemendur 10.bekkjar fara út í fyrirtæki og stofnanir, fá kynningar og taka jafnvel þátt í starfinu ef það er þess eðlis að það sé hægt.
Sigrún Eva Grétarsdóttir er náms-og starfsráðgjafi og í hennar höndum er skipulag og framkvæmd fyrir hönd Grunnskólans. Sigrún var innt eftir tilgangi og markmiði verkefnisins. „Starfskynningar eru hluti af náms-og starfsfræðslu hjá 10.bekk í vetur. Markmiðið með kynningunum er að efla tengsl skóla og samfélags, auk þess að gefa nemendum áþreifanlega reynslu úr atvinnulífinu“ svaraði Sigrún Eva og bætti við „ Helstu hlutverk nemenda á meðan á starfskynningum stendur er að afla sér upplýsinga um starfsemina og að taka þátt í þeim verkefnum sem þeim eru falin á hverjum vinnustað. Þau útbúa svo stutta kynningu og gera sjálfsmat í lokin. Þetta er gert vegna þess að tengsl eru við aukinn námsáhuga og skilning á gildi náms fyrir eigin framtíð. Allt helst svo í hendur við markvissari ákvarðanatöku og minna brottfall seinna. Það að fá tækifæri til að hitta og ræða við einhvern sem er starfandi úti á vinnumarkaðnum getur haft mikið gildi fyrir starfsþekkingu ungs fólks. Kynni við fólk sem starfar í ákveðnum störfum getur bæði vakið áhuga og hvatt nemendur til að íhuga alls kyns störf sem þau hafa aldrei hugsað um eða jafnvel heyrt um áður. Eða þau átta sig á að ákveðin störf höfði alls ekki til þeirra sem er líka allt í lagi“.
Á dögunum komu þrír ungir og áhugsamir piltar í heimsókn til Loðnuvinnslunnar og þeir höfðu sérstakan áhuga á útgerðinni. Og þar sem LVF er fyrirtæki með margvíslega starfsemi var auðvelt að verða við þeirri ósk. Daginn hófu gestirnir á spjalli við Kjartan Reynisson útgerðarstjóra sem fræddi þá um þau skip og báta sem fyrirtækið gerir út og hin mismunandi veiðarfæri sem þau notast við, því sú tíð að allur fiskur var veiddur á handfæri með krók á endanum er löngu liðin. Nú eru brúkuð mismunandi veiðafæri fyrir mismunandi skip og báta og fyrir mismunandi tegundir sjávarfangs sem veiða skal. Svo þar var margt að læra.
Að lokinni þeirri fræðslu var haldið til hafnar. Svo heppilega vildi til að Ljósafell og Hoffell voru við bryggju þannig að förinni var heitið um borð. Í brúnni á Ljósafelli tók Kristján Gísli skipstjóri á móti nemendunum og leiddi þá í allan sannleikann um lífið um borð, sýndi þeim hvernig öll tæki og tól í brúnni virka og hvaða tilgangi þau gegna. Þá var farið um allt skip og endað í vélarrúminu þar sem vélstjórarnir Þorvaldur og Pétur tók á móti þeim og sögðu þeim í hverju starf vélstjóra er falið auk þess að sýna þeim vélarnar og búnaðinn sem þar leynist.
Eftir skemmtilega og fræðandi heimsókn í Ljósafell, beið Hoffell, vaggandi mjúklega við bryggjuna og þar tók á móti nemendunum áhugasömu Sigurður skipstjóri, Högni Páll og Rósmundur vélstjórar og Baldur matsveinn. Þar sem Hoffell og Ljósafell stunda mismunandi veiðar voru aðrir hlutir og búnaður sem piltarnir voru fræddir um í Hoffelli. Þar var að vonum líka margt að sjá og skoða.
„Starfsfólk LVF hefur tekið einstaklega vel á móti nemendum skólans og verið liðlegt að fræða þau og leyfa þeim að taka þátt eftir því sem við á. Það er gríðarlega dýrmætt fyrir okkur og vonandi opnar hug nemenda varðandi störf hér á staðnum“ sagði Sigrún Eva þegar spurt var hvernig tekið væri á móti unglingunum.
Nokkuð öruggt má teljast að upplifunin og fræðslan, sem nemendurnir fengu hjá sjómönnunum, auk þess að sjá með eigin augum hvernig vinnuumhverfi þeirra er háttað, er afar mikilvægt í reynslubanka þessara ungu manna sem munu í náinni framtíð kjósa sér starfsvettvang. Ef til vill verður sjómennska fyrir valinu. Hver veit.
BÓA
Nemendur á spjalli við Kjartan Reynisson útgerðarstjóra. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Mjög áhugasamir á svip í vélarrúminu á Ljósafelli. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Þeir eru flottir ungu mennirnir Smári Týr, Björn og Kristófer á spjalli við Högna Pál og Sigurð um borð í Hoffelli. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Árni og Linda
Það er fallegur dagur við Fáskrúðsfjörð þegar greinarhöfundur ber að dyrum á fallegu húsi sem stendur ofarlega í Búðaþorpi. Ástæða þess að einmitt sé knúið dyra á þessu tiltekna húsi er fólkið sem í því býr; Fanney Linda Kristinsdóttir og Árni Sæbjörn Ólason.
Þau Linda og Árni hafa starfað lengi hjá Loðnuvinnslunni, samtals hátt í eina öld. Það er langur tími hjá sama fyrirtæki.
Árni og Linda kynntust ung, árið 1974 skrapp ungur Eskfirðingur yfir á Fáskrúðsfjörð til þess að fara á dansleik í Skrúð. Og á þessum dansleik um miðbik áttunda áratugarins felldu þau hugi hvors til annars og gera það enn. Þremur árum síðar giftu þau sig í Kolfreyjustaðakirkju og rifja það upp með værðarlegri gleði og segja að það hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig. „Séra Þorleifur, sem lengi var prestur á Kolfreyjustað, var varaþingmaður og var á þingi en sagðist mundu vera kominn tímanlega fyrir athöfnina sem fara átti fram þann 11.desember 1977, en þann dag var alger svarta þoka svo ferðin sóttist hægt hjá klerki þannig að endirinn var sá að hjónavígslan fór fram kl.22.00“ . „Hann lagði sig í stórhættu að aka við þessar aðstæður, en honum var í mun að standa við skuldbindingar sínar“ bættu þau við og enn má greina að þau eru þakklát prestinum.
Árni hóf störf hjá Loðnuvinnslunni (sem í þá daga var Kaupfélagið) 1.janúar 1977. Þá fór hann í sinn fyrsta túr á Ljósafellinu. Og þar var hann í tuttugu ár. „Það var rosalega gaman á sjónum“ sagði Árni. Hann sagði að mannskapurinn um borð hafi verið frábær og það hafi alltaf eitthvað skemmtilegt verið í gangi. „ Það var vatnsslagur á dekkinu og einhvern tímann var búið að hnýta sængina í marga hnúta og skella henni í frysti, það tók langan tíma að fá hana til að verða nothæfa á ný“ segir Árni og hlær dátt að minningunni. Þegar fiskmjölsverksmiðjan tók til starfa flutti Árni sig þangað og hefur verið það allar götur síðan.
Linda hóf ung störf í frystihúsinu og var þar í rúman áratug. Þá var auglýst laust starf á skrifstofu Kaupfélagsins og hún hripaði niður á blaðsnifsi nafnið sitt og einfaldlega „sæki um starf á skrifstofu“, braut blaðið saman og bað Árna að koma því til Gísla Jónatanssonar þáverandi kaupfélagsstjóra. Árni hitti á Gísla og renndi til hans bréfmiðanum og eftir það starfaði Linda í 12.376 daga á skrifstofunni. Hvernig veistu töluna á dögum þínum á skrifstofunni? Spurningin var óumflúin. „Það var einn vinnufélagi minn sem lagði á sig að finna það út og það var skrifað á tertu sem samstarfsfólk mitt á skrifstofunni bauð upp á þegar ég hætti“ sagði Linda brosandi.
„Mér fannst mjög gaman að vinna við bókhald“ sagði Linda og bætti við að það hefði á því tímabili sem hún starfaði verið skipt um tölvukerfi nokkrum sinnum og þá hefði verið gaman og þroskandi að læra eitthvað nýtt.
Linda og Árni hættu að vinna 1.júní s.l. Bæði fengu þau góðar kveðjur og óskir frá sínu nánasta samstarfsfólki og eru sammála um að þeim hafi ávallt liðið vel í starfi og það hafi verið gott að vinna hjá Loðnuvinnslunni. Þau eru hraust og spræk og hlakka til framtíðarinnar. Og þegar þau eru innt eftir því hvað þau sjái fyrir sér að felist í framtíð þar sem allur tími er til eigin nota, ef svo má að orði komast, stendur ekki á svari: „ Við höfum unun af því að ferðast á húsbílnum og fara í útilegur og ætlum að vera dugleg að gera það, við sjáum fyrir okkur að geta farið út og suður ef okkur langar með litlum fyrirvara hvort heldur það er vetur eða sumar, svo hlökkum við mikið til að njóta meiri samvista við barnabörnin“. Svo er spjallað dágóða stund um áhugamál sem þau hjónin gætu hugsanlega tekið upp. Það er allt frá snjómokstri til sjónvarpsgláps, og mögulega golf, rennismíði, krossgátur og kaffidrykkja. Allt saman góð og skemmtileg iðja. En fyrst þarf að steypa bílastæðið en það mun vera fyrsta verkefni hjónanna Lindu og Árna á eftirlaunum.
Loðnuvinnslan þakkar þeim þeirra góðu störf og þeirra tryggð við fyrirtækið og óskar þeim velfarnaðar.
BÓA
Linda og Árni, njóta sólardagsins.
Kakan sem vinnufélagar Lindu á skrifstofu LVF buðu henni við starfslokin. Þar má sjá gagnlegar upplýsingar eins og eftirlætis fótboltaklúbb og fjölda daga á skrifstofunni.