Hoffell var 6 tíma að fylla við Tjörnes
Hoffell var að koma til hafnar með 1400 tonn af loðnu. Var þessi veiðitúr vel heppnaður í alla staði þar sem að hann tók aðeins um 35 klukkustundir. Að sögn Bergs Einarssonar skipstjóra var aflinn fenginn með þremur köstum út af Tjörnesi. “Loðnan er fín og full af hrognum en 70% af aflanum er kerling” sagði Bergur og bætti kankvís við: “ég var ekkert að eltast við karlana”. Úti fyrir Tjörnesinu skein sólin og veðrið var gott svo að þessi stutti en fengsæli túr var í alla staði afbragðs góður.
BÓA
Ljósafell
Ljósafell er nú að landa á Eskifirði. Aflinn er um 50 tonn. Þorskurinn kemur til vinnslu í frystihús LVF en annað á fiskmarkað. Skipið kemur svo yfir á Fáskrúðsfjörð til veiðarfæraskipta, því næsta verkefni skipsins er árlegt „Togararall“ fyrir Hafrannsóknarstofnun. Ljósafell byrjar í því á mánudag.
Ljósafell
Nýr mannauðs- og öryggisstjóri Loðnuvinnslunnar h/f.
Ragnheiður Ingibjörg Elmarsdóttir hefur verið ráðin mannauðs- og öryggisstjóri hjá Loðnuvinnslunni frá 1. mars n.k. Hún er með MS próf í mannauðsstjórnun og BA próf í sálfræði. Hún hefur starfað síðastliðið eitt og hálft ár sem starfsmannastjóri hjá Launafl ehf.
Ragnheiður er 37 ára búsett á Reyðarfirði ásamt eiginmanni og þremur börnum.
Við bjóðum Ragnheiði velkomna til starfa hjá Loðnuvinnslunni.
Hoffell með loðnu á Japansmarkað
Hoffell er á heimleið með um 400 tonn af loðnu. Aflann fékk Hoffellið í tveimur köstum u.þ.b 5 mílum suðvestur af Hornafirði. Að sögn Bergs Einarssonar skipstjóra er loðnan væn og góð og fer beint til frystingar á Japansmarkað. Hrognafylling loðnunnar er um 15% sem gerir hana að afbragðsgóðri vöru fyrir Japan. Áætluð koma til heimahafnar á Fáskrúðsfirði er um miðnætti aðfaranótt 13.febrúar og fljótlega upp úr því hefst löndun og vinnsla. Bergur skipstjóri var inntur eftir því hvort að túrinn hefði gengið vel? „Allt gekk mjög vel og gott að finna loðnulyktina, það fylgir lyktinni ákveðin stemmning, mætti jafnvel kalla hana peninga lykt“ svaraði skipstjórinn og hló við.
BÓA
Ljósafell
Hoffell
Ljósafell
Österbris með fyrsta kolmunnafarminn á árinu til Fáskrúðsfjarðar
Norska fjölveiðiskipið Østerbris kom að landi á Fáskrúðsfirði í dag með 2250 tonn af kolmunna. Mun þetta vera fyrsti kolmunnaaflinn sem landað er á Íslandi á þessu ári. Fiskurinn er vænn og var veiddur í landhelgi Skotlands, en Norðmenn eru með samning við Evrópusambandið um veiðar í skoskri lögsögu. Að sögn Tronds Østervold skipstjóra tók það um 36 tíma að ná þessum afla. Við tók svo 2 1/2 sólarhringa sigling á Fáskrúðsfjörð þar sem aflanum var landað.
Østerbris er 2800 tonna skip, byggt í Tyrklandi árið 2014 og ber þess glögglega merki að ekkert hefur verið til sparað við byggingu og innréttingar í þessu fallega skipi. Útgerðin er fjölskyldufyrirtæki, stofnað af föður þeirra bræðra 1998 og heimahöfn Østerbris er á Austevoll, sem er eyja við vestuströnd Noregs, skammt frá Bergen. Skipinu stýra fjórir bræður, tveir og tveir í senn því á Østerbris eru tvær áhafnir sem sinna veiðum til skiptis. Í þessum velheppnaða kolmunnatúr voru við stjórnartaumana bræðurnir Trond Østervold skipstjóri og Cristian Østervold fyrsti stýrimaður. Bræðurnir buðu greinarhöfundi að ganga um borð og skoða skipið. Athygli vakti hve allt var í ljósum og fallegum litum, í setustofu áhafnarmeðlima voru falleg málverk á veggjum og rafknúinn arineldur á marmaravegg. Sagði Christian að sérstaklega hefði verið beðið um að hafa ljósa liti á innréttingum, þiljum og húsgögnum því það væri betra fyrir lundina. Um borð eru líka öll tæki og tól fyrsta flokks, hægt er að líta myndir úr sögu útgerðarinnar og þeir hafa líka líkamsræktaraðstöðu um borð og talandi um hana sögðu þeir bræður “við notum hana nú ekki mikið” og litu kankvísir hvor á annan.
Á skipi eins og Østerbris eru 9 til 10 menn um borð í einu, en við skipið starfa tvöfallt fleiri vegna skiptakerfisins sem er við lýði og er sami mannskapur búinn að starfa við skipið árum saman. “Það hættir enginn, þetta er góð vinna sem gefur öruggar tekjur og góð frí á milli” sagði Trond aðspurður um áhöfn sína. Þegar bræðurnir voru inntir eftir því hvað þeir gerðu í frístundum þá kom það ekki á óvart að þeir sögðust stunda skíðamennsku líkt og megin þorri Norðmanna og sinna fjölskyldum sínum.
Af hverju komið þið með aflann til Loðnuvinnslunnar? “Friðrik (Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF) bauð best” svaraði Trond. “Ég er mjög ánægður með það því það er alltaf svo gott að koma til Fáskrúðsfjarðar” bætti hann við. “Hér er tekið vel á móti okkur, öllum okkar þörfum og óskum er sinnt og við finnum vel að við erum velkomnir” sagði Trond skipstjóri og því til staðfestingar fékk Cristian sér stóra tertusneið af tertunni sem LVF hafði fært áhöfninni við komuna. “Þetta er skemmtilegur íslenskur siður, við fáum aldrei tertu þegar við löndum í Noregi” sögðu skipstjórnendurnir á Østerbris brosandi.
Reiknað er með að það muni taka um 24 klukkustundir að landa aflanum úr Østerbris og þegar því er lokið fer skipið til loðnuveiða og hvar þeim afla verður landað er óvíst. Því ræður eftirspurn og kaupverð.
Østervold fjölskyldan getur verið stolt af Østerbris, þetta er fallegt skip og bræðurnir Trond og Cristian bera greinilegan hlýhug til áhafnar og skips, það skynjaði greinarhöfundur skýrt eftir að hafa gengið um skipið í þeirra félagsskap. Og þegar nóg var komið var það skipstjórinn Trond sem fylgdi gestinum alla leið í land og rétti fram hjálparhönd til að auðvelda landgönguna.
BÓA
Ljósafell
Hann lifir ekki á sælunni
Magnús Björn Ásgrímsson er fæddur í risherbergi í húsinu sem hann ólst upp í á Borgarfirði eystri. Húsið ber nafnið Svalbarð og af þeim fjórum drengjum sem hjónunum í Svalbarð varð auðið er Magnús næst elstur, fæddur árið 1963. Aðspurður að því hvernig það hefði verið að alast upp á Borgarfirði svaraði Magnús um hæl: “það var dásamlegt, ég var viss um að við Borgfirðingar værum Guðs útvalda fólk” segir hann hlæjandi og bætir svo við að það hafi síðan smá saman verið að renna af honum þrátt fyrir að enn sé hann þeirrar skoðunar að Borgarfjörður sé dásamlegur. En þegar greinarhöfundur spyr hvers vegna hann hafi ekki valið sveitina sína fyrir sinn svefnstað og skjól svara hann snöggur uppá lagið: “Það er ekki hægt að lifa á sælunni”. Og eru það orð að sönnu, í það minnsta ekki lengi.
Í fallegu umhverfi Borgarfjarðar, þar sem álfar og huldufólk eiga jafn ríka sögu og mannfólkið, sleit Magnús barnskónum. Ekki voru allir dagar sæludagar því aðeins 10 ára gamall missti hann föður sinn í sjóslysi. Heimilisfaðirinn í Svalbarði drukknaði frá eiginkonu og fjórum ungum drengjum og þá var gott að fjölskylda og vinir voru nálægir til þess að styðja og styrkja. Er það einn stærsti kostur lítilla samfélaga að þegar eitthvað bjátar á leggjast menn á eitt. Þegar Magnús var 24 ára missti hann elsta bróður sinn en þrátt fyrir stór áföll hefur þessi lífsglaði, brosmildi maður náð að umfaðma lífið.
Magnús fer síðan til náms í Alþýðuskólann á Eiðum og þaðan í Menntaskólann á Egilsstöðum og líkur stúdentsprófi þaðan. Þá lá leiðin til borgarinnar þar sem hann hóf nám í Tækniskólanum í Útvegsfræði, bætti svo við sig önn og varð iðnrekstarfræðingur og útskrifaðist úr Tækniskólanum með B.S gráðu og titilinn iðnaðartæknifræðingur af matvælalínu. Ef til vill ekki mjög þjált en virðulegt.
Magnús er giftur Líneik Önnu Sævarsdóttur og eiga þau fjögur börn. Líneik og Magnús kynntust ung að árum og hófu búskap í Reykjavík á námsárum. Nýlega eignuðust þau hjónin fysta barnabarnið sitt, fallegan lítinn dreng og þegar Magnús var inntur eftir því hvernig það væri að vera orðinn afi svaraði hann snöggur uppá lagið: “það var kominn tími til, ég var farinn að bíða en það er æðislegt að vera afi”.
Magnús starfar í dag sem verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðu Loðnuvinnslunnar. Hans hlutverk er að skipuleggja vinnslu á þeim hráefnum sem verksmiðunni berast, starfsmannahald, afskipanir á mjöli og lýsi, skipulagning landanna svo fátt eitt sé talið. Í verksmiðjunni, sem í daglegu tali er kölluð Bræðslan, vinna að jafnaði um 13 manns. Auka mannskapur kemur til starfa þegar mikið er um að vera. “Það er gaman í vinnunni” segir Magnús, “það er alltaf svolítil spenna í þessum bransa sem skapast af framboði og eftirspurn, bæði eftir hráefni til að vinna sem og vörum til að selja”. Og svo bætir hann því við að með honum vinni hópur af góðu fólki.
En lífið er ekki bara saltfiskur, segir máltækið. Eitt af því sem Magnús gerir sér til ánægju og yndisauka er að spila bridge. Hann lærði að spila í grunnskólanum á Borgarfirði og áhuginn hefur aðeins aukist. Magnús keppir bæði i sveitakeppni og tvímenningi. Í bridge- sveit eru fjórir spilarar en í tvímenningi eru tveir, eins og orðið gefur til kynna. Magnús og félagar hafa náð góðum árangri í spilamennskunni og lentu í öðru sæti á Íslandsmeistarmóti í sveitakeppni í fyrra. Ástríðufulli bride spilarinn bennti líka greinarhöfundi réttilega á að Íslendingar hefðu átt heimsmeistara í bridge. Hver man ekki eftir Bermúdaskálinni?
Annað áhugamál hefur Magnús, en í ljósi aðstæðna mætti kannski kalla það lífstíl frekar en áhugamál. Hann hefur verið formaður kanttspyrnudeildar Leiknis í 21 ár! Hér á Fáskrúðsfirði setja menn gjarnan samasemmerki á milli knattspyrnudeildarinnar og Magnúsar enda hefur hann dregið þennan vagn eins lengi og raun ber vitni. “Ég gæti látið þig hafa langan lista yfir þá aðila sem hafa starfað með mér í stjórninni” segir Magnús hlæjandi og vísar þar til sinnar löngu sjórnarsetu. En með Magnús í broddi fylkingar hefur knattspyrnulið Leiknis farið úr 4.deild og upp í 1. en þetta tímabil leika þeir í 2.deild.
Svo finnst verksmiðjustjóranum líka gaman að ganga á fjöll, sér í lagi til að smala sauðfé. Hann hefur farið 11 til 12 sinnum í smalamennsku sama haustið. Honum þykir ekki verra ef fjallgöngurnar hafa tilgang. Svo er hann svo heppinn að þekkja marga bændur sem þyggja hans framlag með þökkum.
Og útisundlaugar, Magnús er sérlegur áhugamaður um útisundlaugar og á aðgangskort í sundlaugar víðsvegar um landið. Hann taldi þær upp en greinarhöfundur er ekki nógu fljót að skrifa til að ná þeim öllum niður. Útisundlaug er það sem honum þykir helst skorta á Fáskrúðsfirði og án efa eru margir sammála því.
Sumt fólk er ansi leikið í því að finna góðlátleg uppnefni eða gælunöfn á aðra en sjálft sig. Í sumum byggðarlögum mætti líkja þessari iðju við íþrótt, svo mikið er hún stunduð. Magnús á sjálfur nokkar sögur af slíku. Í landafræðitíma í grunnskóla á Borgarfirði var eitt sinn borin upp spurning um hvaða eyja stæði við austurströnd Afríku. Magnús gat svarað: “Madagaskar”. Upp frá því var hann gjarnan kallaður Gaskar . Svo var það á Eiðum að árlega voru gefnar út svo kallaðar minningabækur, það sem nemendur skrifuðu kveðjur til hvers annars ásamt því að ljósmyndir úr lífinu í skólanum prýddu nokkrar síður. Á einni slíkri mynd mátti sjá okkar mann lesa námsbók. Undir myndinni stóð textinn: “námsfús á lestíma” eftir það var Magnús kallaður Fúsi. En hér á Fáskrúðsfirði er það Maggi loðna.
Spjall okkar Magnúsar dróst örlítið lengur en áætlað var, fyrst og fremst vegna þess að hann er viðræðugóður og auðvelt að spjalla við hann. Hann þurfti líka að sinna símtölum og fyrirspurnum samstarfsmanna en lokaspurningin var: “Hvað dreymir þig um Magnús”? “Að setjast í helgan stein”, svaraði hann hlæjandi.
BÓA