Sandfell

Sandfelli hefur vegnað ágætlega að undanförnu. 11 tonn í gær og 12 tonn í fyrradag. Samkvæmt nýjustu samantekt Aflafrétta er báturinn kominn með 160 tonn í mánuðinum og er aflahæstur í sínum stærðarflokki. sjá slóð á frétt:http://www.aflafrettir.is/frettir/grein/batar-yfir-15-bt-i-novnr4/4106

Ljósafell

Ljósafell skaust inn í gærkvöld með um 40 tonn, aðallega þrosk. Skipið hélt aftur til veiða að löndun lokinni.

Ljósafell

Ljósafell landaði um 56 tonnum á fimmtudag, 15 nóv og er kominn aftur til löndunar í dag, mánudaginn 19. nóvember. Aflinn að þessu sinni er um 75 tonn og uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 20. nóvember kl 13:00.

Hoffell

Hoffell landaði um 1300 tonnum af kolmunna á fimmtudaginn 15. nóvember. Skipið hélt síðan til síldveiða kl 13:00 á sunnudaginn 18. nóvember.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 90 tonnum og er uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur til veiða á morgunn, þriðjudaginn 13. nóvember kl 13:00.

Sandfell

Sandfell landaði rúmum 188 tonnum í október. Fyrstu 7 dagana í nóvember hefur Sandfellið landað fimm sinnum og er aflinn samtals um 57 tonn. Í dag, föstudag er hann svo á landleið með 10,6 tonn.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 40 tonnum eftir stuttan túr og er uppistaðan þorskur. Skipið heldur aftur á veiðar að löndun lokinni kl. 13:00 í dag.

Ljósafell

Ljósafell landaði í gær um 75 tonnum. Uppistaða aflans var þorskur til vinnslu í frystihúsi LVF. Skipið heldur aftur til veiða í dag, þriðjudaginn 6. nóvember kl. 13:00.

Ljósafell

Ljósafell er nú að landa um 50 tonnum eftir tvo daga á veiðum. Aflinn er nánast eingöngu þorskur. Skipið fer aftur á veiðar að löndun lokinni um kl 14:00 í dag.

Starfsmannafélagið á faraldsfæti

Steinþór Pétursson og Guðný Elísdóttir
Hjálmar Heimisson og Kristín Hanna Hauksdóttir

Um nýliðna helgi fór Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar til Gdansk í Póllandi. Flogið var frá Egilsstöðum fimmtudaginn 25.október og heim aftur mánudaginn 29.október. Voru um það bil 90 manns með í för, félagsmenn og makar.  Gdansk tók vel á móti ferðalöngum, veðrið var þokkalegt haustveður og borgin heilsaði hlýlega.

Hjónin Kristín Hanna Hauksdóttir og Hjálmar Heimisson eru bæði í Starfsmannafélaginu og að auki er Kristín Hanna í stjórn Starfsmannafélagsins og kom að skipulagningu og undirbúiningi fararinnar.  Aðspurð sögðu Kristín Hanna og Hjálmar að þetta væri fyrsta ferðin þeirra til Póllands og það hefði komið þeim skemmtilega á óvart hversu hrein og falleg borgin reyndist vera. Þau höfðu orð á því hvað byggingastíll borgarinnar væri fallegur og sér í lagi í gamla bænum þar sem falleg og reisuleg hús umlykja torgið.  “Við fórum líka í kirkjuna Oliwa þar sem leikið var á orgelið og það var rosalega flott” sögðu þau Kristín Hanna og Hjálmar.  En orgelið sem um ræðir skartar tæplega átta þúsund pípum ýmist úr tini eða tré, þar sem minnsta pípan er á stærð við eldspýtustokk en sú stærsta er 10 metra löng.

Steinþór Pétursson og Guðný Elísdóttir voru í sinni fyrstu ferð með Starfsmannafélaginu og þegar greinarhöfundur króaði þau af við morgunverðarborðið  tóku þau vel í stutt spjall.  “Þetta er búið að vera góð ferð” sögðu þau hjónin og bættu því við að þau hefðu komið með “galopinn hugann” því þau hefðu ekki haft neinar fyrir fram ákveðnar hugmyndir um Pólland.  Þau höfðu einnig orð á því að borgar umhverfið allt væri vinalega og viðmót heimamanna huggulegt.  Þegar þau Guðný og Steinþór voru innt eftir því hvort að eitthvað hefði staðið uppúr í ferðnni nefndu þau safnið um seinni heimstyrjöldina (Museum of the Second World War – Muzeum II Wonjy Swiatowej) sem er á heimsmælikvarða sambærilegra safna, eftir því sem ferðamannahandbækur upplýsa. “Svo höfum við haft það eins og fólk gerir gjarnan í útlöndum, gengið um götur, kíkt í búðir og borðað mikið af góðum mat” sögðu þau Steinþór og Guðný.

Á sunnudagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum í mat. Veitingahúsið sem varð fyrir valinu var í fallegu gömlu húsi og þar var boðið uppá góðan mat og afar fallega fram borin. Síðan var tækifæri á mánudagsmorgni til að hlaupa í verslanir og sækja það sem uppá vantaði, fá sér gönguferð í bæinn, setjast á veitingahús eða bara kúra frameftir áður en haldið var heim á leið eftir vel heppnaða ferð til Gdansk í Póllandi.

BÓA

Heilsufarsskoðanir

Sonja Gísladóttir

Undanfarna tvo daga hafa staðið yfir heilsufarsskoðanir fyrir starfsfólk Loðnuvinnslunnar.  Er það fyrirtækið Liðsemd, sem er í eigu Sonju Gísladóttur hjúkrunarfræðings, sem hefur framkvæmt skoðanirnar.  „Heilsufarsskoðununum skiptum við í tvennt, þ.e. skoðun fyrir starfsfólk sem er 40 ára og eldra og fer sú skoðun annars vegar fram hjá hjúkrunarfræðingi sem sér, meðal annars, um mælingar á blóðþrýstingi, blóðsykri, kólesteróli og heildar blóðmagni í líkamanum  og hins vegar hjá lækni sem  athugar  með heyrn og sjón, bregður hlustarpípu að brjósi og athugar með stoðkerfi.  Að auki svarar fólk spurningarlista þar sem spurt er um andlega og líkamlega líðan.  Að skoðun lokinni fær fólk ráðleggingar í samræmi við niðurstöðu skoðanna ef við á“ svaraði Sonja aðspurð um framkvæmd heilsufarsskoðanna. Síðan er boðið uppá skoðun fyrir starfsfólk 40 ára og yngra og er sú þjónusta framkvæmd eingöngu af hjúkrunarfræðingi þar sem algengt er að yngra fólk sé heilsuhraustara en þeir sem eldi eru.

Liðsemd bíður uppá allskyns þjónustu er tengist heilsu og vinnuverndarmálum.  „Ég tek að mér allkyns verkefni sem tengjast heilsu“ segir Sonja „Ég bíð uppá mismunandi  heilsufarsskoðanir,  ýmist er um almennar skoðanir að ræða sem krefjast aðeins aðkomu hjúkrunarfæðings eða ýtarlegri skoðanir sem krefjast aðkomu bæði hjúkrnunarfæðings og læknis og fæ ég þá lækni til liðs við mig og að þessu sinni var það Fjölnir Guðmannsson sem vann með mér að skoðunum á  starfsfólki Loðnuvinnslunnar.  Svo bíð ég uppá  bólusetningar og skyndihjálpar námskeið“ bætti Sonja við.

Til gamans má geta þess að Fjölnir Guðmannsson er ættaður frá Brimnesi við Fáskrúðsfjörð.

Heilsufarsskoðanir fyrir 40 ára og yngri fara svo fram á næstu vikum þannig að allt starfsfólk Loðnuvinnslunnar, sem þiggur boð um skoðun,  ætti að vera búið að fá upplýsingar um heilsufar sitt fyrir jól.

BÓA

 

Góðir gestir í kaffi

Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Ljósmynd: Kjartan Reynisson

„Sælt er að eiga sumarfrí

sveimandi út um borg og bí

syngjandi glaður aka í

óbyggðaferð í hópi“.

Þessar textalínur eftir Ómar Ragnarsson komu upp í hugann þegar greinarhöfundur sá myndir af stæðilegum jeppum félaga í Ferðaklúbbnum 4X4 á Austurlandi en laugardaginn 13.október s.l. bauð Ferðaklúbburinn skjólstæðingum Félagsþjónustunnar í Fjarðabyggð og á Héraði í árlega jeppaferð. Voru 8 bílar með í ferðinni sem fluttu um 30 ánægða  og syngjandi glaða farþega.  Er ferðalag af þessu tagi árlegur viðburður. “ Þetta eru alltaf mjög skemmtilegar og sama fólkið kemur aftur og aftur“ sagði Sigurður Kári Samúlesson skipuleggjandi ferðarinnar í ár, og bætti því við  að þetta hefði líklegast verið tíunda ferðin sem Ferðaklúbburinn 4X4 á Austurlandi bíður einstaklingum sem ekki eiga þess kost sjálfir að aka stórum breyttum jeppum.   „Við ókum sem leið lá frá Egilsstöðum inn Skriðdalinn, tókum þá Þórdalsheiðina niður í Reyðarfjörð. Þaðan ókum við svo á Fáskrúðsfjörð þar sem öllum hópnum var boðið í kaffi á vegum Loðnuvinnslunnar. Veitingarnar voru hrikalega flottar og allir voru mjög ánægðir“ sagði Sigurður Kári.  Ferðalangarnir fengu dásamlegt veður til fararinnar sem gerir upplifunina enn betri og sagði Sigurður Kári að allir hefðu verið í skýjunum að ferðalokum.

BÓA