Loðnuvinnslan kaupir Þórunni Sveinsdóttur VE 401

Loðnuvinnslan kaupir Þórunni Sveinsdóttur VE 401

Þórunn Sveinsdóttir að sigla inn til Dalvíkur. Myndina tók Kristján Gunnarsson

Loðnuvinnslan og Ós ehf. hafa komist að samkomulagi um kaup Loðnuvinnslunnar á ísfisktogaranum Þórunni Sveinsdóttur VE 401. Skipið er smíðað af Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku árið 2010. Skipið var lengt í sömu stöð árið 2019 og er nú 46,3 metra langt og 11,2 metra breitt.

Skipið mun leysa af hólmi Ljósafell SU 70 sem smíðað var í Narasaki skipasmíðastöðinni í Japan árið 1973. Ljósafell hefur verið afar farsælt skip og þjónað Loðnuvinnslunni og tengdum félögum vel frá komu þess til heimahafnar 31.maí 1973. Áhafnarmeðlimum Ljósafells verður boðið starf á nýju skipi.

Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar segir að um merkileg tímamót sé að ræða í sögu félagsins. Lengi hafi verið stefnt að því að endurnýja Ljósafell en skipið hafi einfaldlega haft alla burði í að sinna hlutverki sínu með sóma og geri í raun enn. Sölu Þórunnar bar brátt að og ákvörðun um að kaupa skipið hefur þurft sinn meðgöngutíma í ljósi ýmissa áskorana fram undan í rekstri útgerðarfyrirtækja. Það hafi þó ekki verið hægt að horfa fram hjá því að Ljósafell er ekki að yngjast. Þórunn Sveinsdóttir er aflmeira veiðiskip sem hefur sýnt sig og sannað á miðunum með öflugri áhöfn í gegnum árin. Skipið getur dregið tvö troll og þannig aukið afla á togtíma verulega. Auk þess er burðargeta skipsins tæplega 60% meiri en Ljósafells.

Það verður mikill söknuður af Ljósafelli en skipið er í góðu ásigkomulagi miðað við aldur þess, enda ekkert verið til sparað í viðhaldi þess í gegnum árin. Gert er ráð fyrir því að skipið verði selt í kjölfar móttöku Þórunnar Sveinsdóttur í lok mars á næsta ári.

Októberfest

Hvað er Októberfest? Gæti einhver spurt eftir af hafa rekið augun í fyrirsögn þessa pistils.  Þá er gaman að segja frá því að fyrirbærið er aldeilis ekki nýtt af nálinni.  Októberfest á rætur sínar að rekja til Munchen, höfuðborgar Bæjaralands í Þýskalandi og hefur hátíðin verið haldin síðan árið 1810.  Á hverju ári sækja um  sex milljónir manna  hátíðina heim og er bjór hafður þar í hávegum.  Hér áður þótti hátíðin tilvalin til þess að tæma bjór ámurnar áður en nýtt bruggtímabil hæfist en nú á dögum er bruggaður sérstakur bjór tileinkaður hátíðinni og verður hann að koma úr brugghúsi í Bæjaralandi til þess að verða gjaldgengur á Októberfest.  

Nú er svo komið að litlar Októberfestir eru haldnar víða, ekkert sem samsvarar þeirri einu sönnu í Munchen, en skemmtilegar engu að síður.  Loðnuvinnslan skellti í eina Októberfest sem teygði sig yfir fimm heila daga. Til að undirbúa og skipuleggja var sett á stofn skemmtinefnd sem vann afar gott verk, hvort heldur var við skreytingar eða skipulag.  Þeir einstaklingar sem skipuðu skemmtinefndina fyrir þennan viðburð voru: Steinar Grétarsson, Eiður Logi Ingimarsson, Þorri Magnússon, Ingólfur Sveinsson auk þess sem Arek Grzelak lagði hönd á plóg. Mannauðs-og öryggisstjóri LVF, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir var þeim til halds og traust.

Starfsfólk varð mest vart við hátíðarhöldin í matsal frystihússins, sem er mötuneyti fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins. Var matsalurinn skreyttur með fánum og veifum og matseðilinn var ekki af verri endanum.

Sylwia   Wisniewska hefur staðið vaktina í eldhúsinu þessa dagana og sagði hún að það hefði verið mjög gaman að taka þátt. „Við höfum boðið upp á pretzels (saltkringlur) á hverjum degi, höfðum snitsel í matinn  og alltaf kökur og sætindi með kaffinu. Að auki var nóg af áfengislausum bjór og gosdrykkjum“ sagði Sylwia sem skartaði skemmtilegri svuntu sem minnti á hefðbundin alþýðubúning frá Bæjaralandi.  Sylwia sagði einnig að starfsfólkið hefði kunnað vel að meta þessa tilbreytingu og það hefðu verið óvenju margir í mat, á hverjum degi eða um og yfir eitt hundrað manns.  Já, það er fátt sem gleður mannfólkið meira en matur og drykkur.

Hápunktur Októberfestar Loðnuvinnslunnar var skemmtikvöld í félagsheimilinu Skrúði á föstudagskvöldi. Húsið var skreytt í anda bjórhátiða og greinilegt að skemmtinefndin hafði lagt sig fram um að vanda til verka. Var mjög vel mætt, nánast húsfyllir og allir skemmtu sér afar vel.  „Það var rosalega góð stemmning og ekki annað að sjá er að allir skemmtu sér vel, það var dansað og sungið“ sagði Steinar Grétarsson einn af skipuleggjendunum.  Boðið var upp á bjór og léttar veitingar og Regína Ósk og Svenni Þór sáu um veislustjórn og héldu upp fjörinu og það gerðu þau sannarlega af mikilli fagmennsku og fjöri.

BÓA

Úr matsal frystihússins. Ljósmynd: Selma Kahrima

Hér getur að líta óáfengan bjór, gosdrykki og sætindi af ýmsum toga. Ljósmynd: Selma Kahrima

Matur, matur. Ljósmynd Selma Kahrima.

Það var margt um manninn í matsalnum. Enda gott í matinn. Ljósmynd: Sylwia Wisniewska.

Þeir félagar úr skemmtinefndinni Arek Jan Grzelak og Ingólfur Sveinsson í hefbundnum búningi karla frá Bæjaralandi.

Salurinn í Skrúð svo fallega skreyttur. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak.

Veitingarnar sem boðið var upp á í Skrúð. Fallegir smáréttir sem brögðuðust líka afar vel. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak

Á bjórhátíð er bjór ómissandi. Og ekki skemmir af hafa alvöru krúsir undir veigarnar. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak.

Björgvin smiður

Hver vegur að heiman er vegurinn heim segir í dægurlagi sem gerir það væntanlega að verkum að leiðin heim sé jafnlöng leiðinni að heiman.  Hugtakið „heima“ getur líka átt við fleiri en einn stað í huga manneskju. Þannig er það hjá Björgvini Mar Eyþórssyni húsasmiði.  Hann er uppalinn hér í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð, sleit hér barnsskónum og unglingaskónum líka, hér gekk hann um fjöll og fjörur og varð að manni. Hann fór ungur að vinna sem handlangari hjá föður sínum, sem líka er smiður, og lærði þá að drekka kaffi með mikilli mjólk og miklum sykri og dýfa kringlu ofan í.  Sextán ára gamall fór hann í Verkmenntaskólann í Neskaupstað, sem þá hét Iðnskóli, til þess að læra að verða smiður.  Þar kynntist hann ungri konu og skemmst er frá því að segja að Björgvin hefur búið á Neskaupstað allar götur síðan fyrir utan þrjú ár sem þau hjúin dvöldu á Akureyri til að mennta sig. Nú, öllum þessum árum síðar, á Björgvin fjögur börn á aldrinum 6 til 20 ára.

Nú er Björgvin komin heim til að smíða. Heim til Fáskrúðsfjarðar, svo um helgar þegar hann á frí fer hann heim til Neskaupstaðar, það er fallegt að geta átt meira en einn stað til þess að kalla þessu fallega orði „heima“.  En hvað er hann að smíða?  „Við hjá Nestak erum að smíða grunn fyrir Loðnuvinnsluna sem á fer stálgrindahús“ svaraði Björgvin.  Um er að ræða rúmlega 1300 fermetra hús að grunnfleti sem á að nýtast sem vinnsluhús fyrir uppsjávarfisk auk þess sem þar verður líka nýtt löndunarhús. Verður það mikil bragabót að fá nýtt hús fyrir þessa vinnslu því að húsin sem það kemur til með að leysa af hólmi eru ekki í takt við nýja tíma. 

Nestak er fyrirtæki sem er stofnað í Neskaupstað 1988, það er í eigu 6 starfsmanna en hjá þeim starfa u.þ.b 25 einstaklingar.  „Við vorum mjög sátt þegar við fengum þetta verk hjá Loðnuvinnslunni“ sagði Björgvin og hann rifjaði upp að hann hefði á sínum yngri árum farið í starfskynningu innan all nokkurra deilda eins og í vélsmiðjunni, rafmagnsverkstæðinu, vörutalningu í verslun Kaupfélagsins á sínum tíma, í salthúsinu og meira að segja farið einn túr á Ljósafellinu.

Það er gott að vinna úti í góðu veðri, en veðrið undanfarið hér á austurlandi hefur ekki verið sérlega spennandi til útiverka en fólkið frá Nestak lætur það ekki á sig fá. „Fyrstu vikuna var alveg frábært veður, sól og blíða, en svo tók rigningin við. Þá göllum við okkur bara upp, tökum lýsi á morgnana og hugsum bara um að vinna, ekki um veðrið“ sagði Björgvin brosandi enda þurrt og fallegt veður þegar við áttum spjall.

Það tekur tíma að koma upp byggingu af þessari stærðargráðu og margir þættir sem þurfa að ganga saman, það þarf sérfræðinga af öllu tagi til þess að fullklára en Björgvin og félagar eru sérfræðingar í smíða og gera það ötullega og hafa á staðnum á bilinu 5 til 11 starfsmenn hverju sinni.

En þegar Björgvin var spurður að því hvernig væri að vinna á æskuslóðum sagði hann það vera gott, hann gistir hjá foreldrum sínum á virkum dögum og „við pabbi dottum yfir fréttunum, það er heimilislegt“ sagði hann kankvís, kvaddi svo og snéri sér aftur að vinnunni.

BÓA

Björgvin Mar Eyþórsson

Hér sést hvað þetta verður vegleg bygging. Ljósmynd: Björgvin Mar Eyþórsson.

Tilkynning um ráðningu

Loðnuvinnslan hf. hefur ráðið Þórunni Maríu Þorgrímsdóttur í starf við bókhald hjá fyrirtækinu.

Þórunn  er menntuð sem viðskiptafræðingur og hefur starfað sem skrifstofustjóri hjá Terra frá árinu 2008 og býr yfir víðtækri reynslu af bókhaldskerfum, rekstri og innleiðingu stjórnkerfa. Hún hefur jafnframt sinnt hlutverki staðgengils rekstrarstjóra. Meðal verkefna hennar eru reikningagerð, skýrslugerð vegna græns bókhalds, tollskýrslugerð og gerð útflutningsskjala ásamt fjölbreyttum almennum skrifstofustörfum. Að auki hefur Þórunn gegnt hlutverki gjaldkera í fjölda félagasamtaka.

Við bjóðum Þórunni hjartanlega velkomna til starfa hjá Loðnuvinnslunni.

Berlínarferð Starfsmannafélagsins

Þann 28.maí sl. fóru félagar í Starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar í borgarferð til Berlínar í Þýskalandi. Var þetta fimm nátta ferð og flogið var frá Egilsstöðum sem er til mikillar bótar fyrir Austfirðinga vegna þess hve stutt er heim.  Berlín tók á móti hópnum með blíðskapar veðri sem einkenndi alla þá daga sem stoppað var. Hitastigið á bilinu 20 til 28 gráður.  Hótelið var í þeim borgarhluta sem áður tilheyrði austur Berlín og á næstu grösum voru merkilegir sögustaðir sem skemmtilegt og fróðlegt var að heimsækja og sjá.

Berlín bíður upp á afþreyingu af ýmsum toga. Það er hægt að fara í hjólatúra með leiðsögn, hægt að fara í útsýnistúr á Trabant bifreið, róla sér í rólu fram af háhýsi og svona mætti lengi telja. Þá er afar rík matarmenning í borginni, þar er hægt að krækja sér í mat frá öllum hugsanlegum hornum matarmenningar og frá hinum ýmsu álfum veraldarinnar.

Á föstudagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum hópnum til kvöldverðar. Komu rútur að sækja mannskapinn á hótelið og ekið var í gegn um borgina á fallegan veitingastað þar sem tekið var á móti gestum með fordrykk og fingramat. Síðan var gengið inn og matur fram borinn sem var með glæsilegasta móti. Fengu gestir skemmtun á meðan á borðhaldi stóð, þar sem frábær píanóleikari fór á kostum á fallegum hvítum flygli.

Samkvæmt spjalli við hina ýmsu meðlimi starfsmannafélagsins var ánægja með ferðina. Hver og einn fann sér afþreyingu við eigið hæfi og fullyrða má að allir hafi notið lífsins og daganna í Berlín í góðum félagsskap og blíðskapar veðri og ef félagsskapur og veður er gott mælast lífsgæði nokkuð hátt og það er auðvitað það sem við mannfólkið sækjum eftir.

Lent var svo á Egilsstöðum að kvöldi 2.júní, hvar rigning, vindur og 3 gráðu hiti mætti hópnum, en engin lét það nokkuð á sig fá, allir búnir að fá góðan sólarskammt og skemmtun svo það var bara að bæta á sig peysu, setja undir sig hausinn og halda heim með huga og hjarta fullt af góðum minningum frá skemmtilegri ferð.

BÓA

Hópurinn fyrir utan veitingastaðinn

Borðhald

Gestir fengu sérmerktan matseðil

Símaklefi sem fengið hefur nýtt hlutverk

Svipmynd frá Berlín

Leifar frá síðari heimstyrjöldinni

Sigursúlan á Grosser Stern torginu.

Metafli úr einu skipi

Þann 3.maí sl. tók fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar á móti 3.606 tonnum sem    landað var úr færeyska uppsjávarveiðiskipinu Götunes. Langstærstur hluti þess afla var kolmunni en lítilræði af makríl flaut með. Er þetta lang stærsti farmur sem hefur komið úr einu skipi við löndunarbryggju LVF.

Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðjunnar sagði að verksmiðjan réði vel við slíkt magn hráefnis. „Það tók einn og hálfan sólarhring að landa þessum afla og svo tekur svona fjóra sólarhringa að vinna hráefnið“ sagði Magnús. 

Sagði Magnús einnig að hráefnið væri nokkuð gott, en þar sem kolmunninn er farinn að horast verður afurðin að mestu mjöl. 

Skipverjar á Götunesi fylgdust vel með vigtinni og fögnuðu hverju nýju kílói undir lok löndunar því að þetta var líka mesti afli sem skipið hefur aflað í einum túr hingað til.

Það er alltaf gaman að ná nýjum áföngum líkt og taka á móti mesta afla  til vinnslu úr einu skipi. En vertíðin er ekki búin þó svo að hún sé farin að styttast í annan endann og aldrei að vita hvenær næsta met fellur. Starfsfólk fiskmjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar stendur sína vakt og vinnur sín verk hvort heldur um metafla er að ræða eða ekki, en full ástæða er til að staldra við og fagna skemmtilegum áföngum.

BÓA

Götunes á leið til hafnar á Fáskrúðsfirði, Skrúður tignarlegur í baksýn. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Kolmunnaveiðum lokið í bili

Nú hefur Hoffell SU 80 lokið kolmunna veiðum í bili. Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli sagði að það hefði gengið afar vel að afla þeirra 8600 tonna sem Hoffell hefur landað í apríl mánuði. „Apríl hefur aldrei verið eins góður“ sagði Sigurður, „ það var mokveiði og þrátt fyrir að við hefðum ekki verið í neinu stressi, náðum við þessum tonnum í fjórum túrum“ bætti skipstjórinn við.

Kolmunni er fiskur sem Íslendingar hafa nýtt til bræðslu og framleitt úr honum mjöl og lýsi.  Hoffell hefur landað öllum sínum afla í heimahöfn hér á Fáskrúðsfirði en þar að auki hafa allnokkur erlend skip landað sínum kolmunnaafla hér og því hefur Fiskmjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar haft ærin verkefni að undan förnu.

Hoffell á þó inni einhvern kvóta í kolmunna og verður sá kvóti geymdur fram á haustið þegar fiskurinn verður orðinn feitur og fínn eftir sumarið.  „Á þessum árstíma horast fiskurinn töluvert, við sáum það glögglega á síðasta farminum“ fræddi Sigurður skipstjóri greinarhöfund og bætti því svo við að þegar fiskurinn væri fitulítill færi hann að mestu í mjöl en ef hann er feitur þá vinnst töluvert af hráefninu í lýsi, og öll vitum við hvað lýsi er hollt fyrir allar lifandi verur.

Svo næstu vikur mun Hoffell SU 80 vagga við bryggju hér heima á Búðum við Fáskrúðsfjörð, því verður eflaust klappað eitthvað og undirbúið fyrir makríl veiðar sem hefjast að öllum líkindum í júní. 

BÓA

Hoffell við bryggju á Fáskrúðsfirði þann 1.maí 2025. Ljósmynd: Jónína Guðrún Óskarsdóttir

Styrkir út í samfélagið

Aðalfundir Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunnar voru haldnir föstudaginn 25.apríl sl.  Sú hefð hefur skapast að útdeila styrkjum til félagasamtaka og stofnana á aðalfundum félaganna. Er þá um að ræða vænar upphæðir sem afhentar eru með formlegum hætti, en bæði Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrkja hin ýmsu málefni stór og smá allt árið um kring.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar hlaut 10 milljónir króna í styrk í sína starfsemi. Gengur sú starfsemi út á að bjóða félagsfólki  upp á afþreyingu og skemmtun í formi samveru og ferðalaga og er starfsmannafélagið ötult í sínu starfi. Þórhildur Elfa Stefánsdóttir er í stjórn starfsmannafélagsins og var að vonum ánægð með styrkinn. „Við  þökkum kærlega fyrir okkur, þessi peningur mun nýtast vel í okkar starfi“ sagði Þórhildur.

Björgunarsveitin Geisli fékk styrk að upphæð 6 milljónir króna.  Loðnuvinnslan hefur verið dyggur bakhjarl Geisla um árabil. Að þessu sinni rennur styrkurinn upp í kostnað vegna endurnýjunar á bíl sveitarinnar, en nýr,  glæsilegur og sérútbúinn jeppi til björgunarstarfa er væntanlegur innan tíðar. Sá gamli var komin á átjánda ár og orðið tímabært að Útkallsbíll 1 yrði uppfærður. Grétar Helgi Geirsson er formaður björgunarsveitarinnar Geisla. „Það er sannarlega gott að eiga góða að þegar á reynir“ sagði Grétar Helgi og bað um að þökkum til Loðnuvinnslunnar yrði komið á framfæri. „Það er stór biti fyrir litla sveit að kaupa bíl upp á 40 milljónir króna og því er styrkurinn okkur afar mikilvægur“ bætti formaðurinn við.

Þá hlaut Ungmennafélagið Leiknir 19 milljónir króna í styrk. Leiknir er félagsskapur þar sem ungir sem aldnir stunda hinar ýmsu íþróttir. Það hefur margar deildir innan sinna vébanda og sinnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Vilberg Marinó Jónasson er formaður Leiknis og þakkaði hann fyrir þennan rausnarlega styrk. „Þetta er ómetanlegt og við erum afar sátt“, sagði Vilberg.

Félagsskapur um Franska daga hlaut 2,5 milljónir króna í styrk frá Loðnuvinnslunni og aðrar 2,5 milljónir frá Kaupfélaginu. Bæjarhátíðin Franskir dagar, sem haldin er árlega á Búðum við Fáskrúðsfjörð, er vettvangur samveru og gleði. Íbúar og gestir njóta fjölbreyttrar dagskrár sem skipuleggjendur hátíðarinnar setja upp og styrkir sem þessir geta gert það að verkum að dagskrá og umbúnaður verði með glæsilegasta móti.  Birkir Snær Guðjónsson er formaður félags um Franska daga. „Við erum gríðarlega þakklát fyrir styrkinn, bæði frá Loðnuvinnslunni og Kaupfélaginu. Þetta skiptir virkilega miklu máli fyrir okkur, án þessa styrkja yrðu Franskir dagar vart svipur hjá sjón“ sagði Birkir Snær.

Hjúkrunarheimilið Uppsalir hlaut að gjöf frá Kaupfélaginu búnað til nota á Uppsölum. Um er að ræða veltidýnu og ákveðna gerð af tæknibúnum sturtustól.  Er þetta búnaður sem kemur að afar góðum notum og mun verða bæði heimilisfólki og starfsfólki þar til mikillar bóta. Helga Sturludóttir hjúkrunarfræðingur sagði það vera mjög dýmætt að fá svona stuðning og þakkar fyrir.

Við erum lánsöm sem samfélag að hafa Kaupfélagið og Loðnuvinnslunna sem styðja og styrkja hina ýmsu starfsemi, starfsemi sem eykur lífsgæði íbúa hvort heldur þeir eru ungir eða aldnir.

Eftir þennan pistil eiga þessi lokaorð vel við;

Gefðu alltaf án þess að muna og þiggðu alltaf án þess að gleyma.


BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður Loðnuvinnslunnar, Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri LVF, Helga Sturludóttir deildarstjóri Uppsölum, Birkir Snær Guðjónsson formaður Franskra daga, Þórhildur Elfa Stefánsdóttir frá starfsmannafélagi Lvf, Grétar Helgi Geirsson formaður björgunarsveitarinnar Geisla, Vilberg Marinó Jónasson formaður Leiknis og Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Steinn Jónasson stjórnarformaður Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.

Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Fundagestir

Elvar Óskarsson stjórnarfomaður Loðnuvinnslunnar

Baldur Einarsson tekur við sem útgerðarstjóri Loðnuvinnslunnar.

Baldur Einarsson hefur verið ráðinn í starf útgerðarstjóra Loðnuvinnslunnar. Baldur er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur víðtæka reynslu úr sjávarútvegi til sjós og lands. Baldur hefur m.a starfað sem útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði s.l 7 ár en lét af störfum þar á síðasta ári.

Baldur mun hefja störf fljótlega og vinna fyrst um sinn samhliða Kjartani Reynissyni fráfarandi útgerðarstjóra. Kjartan hefur óskað eftir því að láta af störfum í vor eftir einstaklega farsælan starfsferil fyrir Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, Loðnuvinnsluna og forvera hennar.

Samhliða þessum breytingum mun Steinþór Pétursson taka við hlutverki Kjartans sem fulltrúi Kaupfélagsstjóra og aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar. Steinþór mun áfram sinna skrifstofustjórn félagsins en starfsheiti hans verður breytt í fjármálastjóra.

Félagið bíður Baldur velkominn til starfa og og þakkar Kjartani fyrir einstakt framlag hans.

Tilkynning um ráðningu skipstjóra á Ljósafelli SU70

Kristján Gísli Gunnarsson, sem starfað hefur hjá Loðnuvinnslunni frá árinu 2008, hefur verið ráðinn sem skipstjóri á Ljósafelli SU-70.

Kristján er fæddur árið 1974 á Akureyri en flutti um 5 ára aldur til Dalvíkur þar sem rætur hans liggja. Síðustu ár hefur hann búið á Akureyri ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Sjöfn Magnúsdóttur, og dætrunum Magneu Björgu og Guðrúnu Rögnu.

Kristján útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum á Dalvík árið 1996 og lá þá leiðin til Samherja þar sem hann starfaði í rúman áratug. Kristján var ráðinn um borð í  Ljósafellið árið 2008 og síðan þá hefur hann gengt flestum stöðum um borð í Ljósafellinu. Árið 2019 var hann ráðinn sem yfirstýrimaður og síðustu 2 ár hefur hann starfað sem skipstjóri í fjarveru Hjálmars.

Loðnuvinnslan óskar Kristjáni til hamingju með nýju stöðuna og óskar honum velfarnaðar í starfi.

Aðalvél Ljósafells kominn í 200.000 vinnustundir

Ljósafell SU 70 hefur verið nokkuð í kastljósinu undan farin misseri. Og er það vel, því ýmsum áföngum hefur það náð sem vert er að fjalla um. Núna er það vélin sem knýr þetta fagra fley áfram. Vélin sem er af gerðinni Niigata er komin í 200.000 klukkustundir. Þeim áfanga var náð þann 12.desember s.l kl. 13.03.   En hvað þýðir það fyrir þann sem ekki hefur þekkingu á skipsvélum og endingartíma þeirra? Jú það þýðir að vélin hefur verið í gangi í 200.000 klukkustundir síðan hún var sett í skipið í nóvember 1988  í Gdynia í Póllandi.  Til að setja þetta í aðeins meira samhengi fyrir áhugasama þá er þessi tími jafngildi þess að vélin hafi verið stanslaust í gangi í rúm 22 ár af þessum 36 síðan hún var sett í.  Til að setja hlutina í enn frekara samhengi er hægt að setja þetta upp á þann hátt; að ef fjölskyldubílunum væri ekið á 60 kílómetra hraða á klukkustund í 200.000 klukkutíma væri hann kominn í 12 milljón kílómetra á mælinum. Það er mikið.

 Þvílíkar tölur þykja líka háar á skipsvél, en hvað veldur því að hún hefur enst svona vel?

Högni Páll Harðarson var vélstjóri á Ljósfelli þegar vélin var sett um borð og hann svaraði  aðspurður að grunnhönnun vélarinnar væri mikilvægur þáttur, „það er ekki allur búnaður byggður til að endast“ sagði hann og bætti því við að góð umhirða, eftirlit og tímanlega útskipti á slithlutum væri mikilvægur þáttur fyrir heilsu véla.

Kristján Birgir Gylfason er yfirvélstjóri á Ljósafelli og hefur sömu sögu að segja varðandi vélina, þ.e.a.s. hún sé vel smíðaður gripur, „það eru allir íhlutir í þessari vél  sverir og sterkir sem þýðir að þeir þola meira álag“ sagði Kristján Birgir. Hann sagði líka að vélin væri hönnuð til þess að ganga 310 snúninga en hann, og hinir vélstjórarnir,  létu hana aldrei ganga meira en 280 snúninga.  Þegar Kristján Birgir var spurður að því hvort að hann teldi að vélin gæti gengið í mörg ár í viðbót svaraði hann því til að það væri svo sem ekkert sem benti til annars. „Það gæti farið að verða svolítið erfitt að fá varahluti því að hún er jú komin til ára sinna þrátt fyrir að vera við hestaheilsu“ sagði Kristján og bætti því við að það hefði aldrei verið sparað í viðhaldi við þessa vél og ávallt hugsað vel um allar hennar þarfir og því dygði hún svo vel.

Þegar Ljósafell lagðist við bryggju eftir síðasta túr fyrir jól, stóð vélin í 200.041,9 klukkustundum. Nákvæmur teljari heldur utan um tímana, og hann gerir greinilega ekki ráð fyrir svona mikilli notkun því að teljarinn getur aðeins talið upp í 99.999, og þegar þeirri tölu er náð hrekkur hann aftur á byrjunarreit, svo að útsjónarsamir vélstjórar hafa gripið á það ráð að setja límmiða fyrir framan með viðeigandi tölu

Það skiptir máli að gleðjast og fagna stóru sem smáu. Og samkvæmt hefð Loðnuvinnslunnar var áhöfn og gestum Ljósfells boðið upp á köku í tilefni áfangans.  Og svo eru jólin á næsta leiti og því stóð áhöfn Ljósafells í því að hengja falleg ljós á hina öldnu hefðardömu hafsins, því Ljósafell skal skarta sínu fegursta.

BÓA

Verið að taka vélina úr umbúðum. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson

Verið að hífa um borð. Vélin lætur ekki mikið yfir sér þarna í lausu lofti en hún vegur engu að síður 30 tonn. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson.

Það er ekki létt verk að koma vél á sinn stað. Ljósmynd: Högni Páll Harðarson

Mælirinn góði sem heldur utan um vinnustundir vélarinnar. Ljósmynd: Kjartan Reynisson

Frá vinstri: Kristján Birgir Gylfason yfirvélstjóri, Pétur Kristinsson 1.vélstjóri og Þorvaldur Már Elíasson yfirvélstjóri á móti Kristjáni. Ljósmynd: Kjartan Reynisson. Gaman er að geta þess að engin þessara herramanna var fæddur þegar vélin var sett niður árið 1988.