Hvað er Októberfest? Gæti einhver spurt eftir af hafa rekið augun í fyrirsögn þessa pistils. Þá er gaman að segja frá því að fyrirbærið er aldeilis ekki nýtt af nálinni. Októberfest á rætur sínar að rekja til Munchen, höfuðborgar Bæjaralands í Þýskalandi og hefur hátíðin verið haldin síðan árið 1810. Á hverju ári sækja um sex milljónir manna hátíðina heim og er bjór hafður þar í hávegum. Hér áður þótti hátíðin tilvalin til þess að tæma bjór ámurnar áður en nýtt bruggtímabil hæfist en nú á dögum er bruggaður sérstakur bjór tileinkaður hátíðinni og verður hann að koma úr brugghúsi í Bæjaralandi til þess að verða gjaldgengur á Októberfest.
Nú er svo komið að litlar Októberfestir eru haldnar víða, ekkert sem samsvarar þeirri einu sönnu í Munchen, en skemmtilegar engu að síður. Loðnuvinnslan skellti í eina Októberfest sem teygði sig yfir fimm heila daga. Til að undirbúa og skipuleggja var sett á stofn skemmtinefnd sem vann afar gott verk, hvort heldur var við skreytingar eða skipulag. Þeir einstaklingar sem skipuðu skemmtinefndina fyrir þennan viðburð voru: Steinar Grétarsson, Eiður Logi Ingimarsson, Þorri Magnússon, Ingólfur Sveinsson auk þess sem Arek Grzelak lagði hönd á plóg. Mannauðs-og öryggisstjóri LVF, Arnfríður Eide Hafþórsdóttir var þeim til halds og traust.
Starfsfólk varð mest vart við hátíðarhöldin í matsal frystihússins, sem er mötuneyti fyrir allt starfsfólk fyrirtækisins. Var matsalurinn skreyttur með fánum og veifum og matseðilinn var ekki af verri endanum.
Sylwia Wisniewska hefur staðið vaktina í eldhúsinu þessa dagana og sagði hún að það hefði verið mjög gaman að taka þátt. „Við höfum boðið upp á pretzels (saltkringlur) á hverjum degi, höfðum snitsel í matinn og alltaf kökur og sætindi með kaffinu. Að auki var nóg af áfengislausum bjór og gosdrykkjum“ sagði Sylwia sem skartaði skemmtilegri svuntu sem minnti á hefðbundin alþýðubúning frá Bæjaralandi. Sylwia sagði einnig að starfsfólkið hefði kunnað vel að meta þessa tilbreytingu og það hefðu verið óvenju margir í mat, á hverjum degi eða um og yfir eitt hundrað manns. Já, það er fátt sem gleður mannfólkið meira en matur og drykkur.
Hápunktur Októberfestar Loðnuvinnslunnar var skemmtikvöld í félagsheimilinu Skrúði á föstudagskvöldi. Húsið var skreytt í anda bjórhátiða og greinilegt að skemmtinefndin hafði lagt sig fram um að vanda til verka. Var mjög vel mætt, nánast húsfyllir og allir skemmtu sér afar vel. „Það var rosalega góð stemmning og ekki annað að sjá er að allir skemmtu sér vel, það var dansað og sungið“ sagði Steinar Grétarsson einn af skipuleggjendunum. Boðið var upp á bjór og léttar veitingar og Regína Ósk og Svenni Þór sáu um veislustjórn og héldu upp fjörinu og það gerðu þau sannarlega af mikilli fagmennsku og fjöri.
BÓA

Úr matsal frystihússins. Ljósmynd: Selma Kahrima

Hér getur að líta óáfengan bjór, gosdrykki og sætindi af ýmsum toga. Ljósmynd: Selma Kahrima

Matur, matur. Ljósmynd Selma Kahrima.

Það var margt um manninn í matsalnum. Enda gott í matinn. Ljósmynd: Sylwia Wisniewska.

Þeir félagar úr skemmtinefndinni Arek Jan Grzelak og Ingólfur Sveinsson í hefbundnum búningi karla frá Bæjaralandi.

Salurinn í Skrúð svo fallega skreyttur. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak.

Veitingarnar sem boðið var upp á í Skrúð. Fallegir smáréttir sem brögðuðust líka afar vel. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak

Á bjórhátíð er bjór ómissandi. Og ekki skemmir af hafa alvöru krúsir undir veigarnar. Ljósmynd: Arek Jan Grzelak.


