Þann 28.maí sl. fóru félagar í Starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar í borgarferð til Berlínar í Þýskalandi. Var þetta fimm nátta ferð og flogið var frá Egilsstöðum sem er til mikillar bótar fyrir Austfirðinga vegna þess hve stutt er heim. Berlín tók á móti hópnum með blíðskapar veðri sem einkenndi alla þá daga sem stoppað var. Hitastigið á bilinu 20 til 28 gráður. Hótelið var í þeim borgarhluta sem áður tilheyrði austur Berlín og á næstu grösum voru merkilegir sögustaðir sem skemmtilegt og fróðlegt var að heimsækja og sjá.
Berlín bíður upp á afþreyingu af ýmsum toga. Það er hægt að fara í hjólatúra með leiðsögn, hægt að fara í útsýnistúr á Trabant bifreið, róla sér í rólu fram af háhýsi og svona mætti lengi telja. Þá er afar rík matarmenning í borginni, þar er hægt að krækja sér í mat frá öllum hugsanlegum hornum matarmenningar og frá hinum ýmsu álfum veraldarinnar.
Á föstudagskvöldinu bauð Loðnuvinnslan öllum hópnum til kvöldverðar. Komu rútur að sækja mannskapinn á hótelið og ekið var í gegn um borgina á fallegan veitingastað þar sem tekið var á móti gestum með fordrykk og fingramat. Síðan var gengið inn og matur fram borinn sem var með glæsilegasta móti. Fengu gestir skemmtun á meðan á borðhaldi stóð, þar sem frábær píanóleikari fór á kostum á fallegum hvítum flygli.
Samkvæmt spjalli við hina ýmsu meðlimi starfsmannafélagsins var ánægja með ferðina. Hver og einn fann sér afþreyingu við eigið hæfi og fullyrða má að allir hafi notið lífsins og daganna í Berlín í góðum félagsskap og blíðskapar veðri og ef félagsskapur og veður er gott mælast lífsgæði nokkuð hátt og það er auðvitað það sem við mannfólkið sækjum eftir.
Lent var svo á Egilsstöðum að kvöldi 2.júní, hvar rigning, vindur og 3 gráðu hiti mætti hópnum, en engin lét það nokkuð á sig fá, allir búnir að fá góðan sólarskammt og skemmtun svo það var bara að bæta á sig peysu, setja undir sig hausinn og halda heim með huga og hjarta fullt af góðum minningum frá skemmtilegri ferð.
BÓA

Hópurinn fyrir utan veitingastaðinn

Borðhald

Gestir fengu sérmerktan matseðil

Símaklefi sem fengið hefur nýtt hlutverk

Svipmynd frá Berlín

Leifar frá síðari heimstyrjöldinni

Sigursúlan á Grosser Stern torginu.


