Kristján Gísli Gunnarsson, sem starfað hefur hjá Loðnuvinnslunni frá árinu 2008, hefur verið ráðinn sem skipstjóri á Ljósafelli SU-70.

Kristján er fæddur árið 1974 á Akureyri en flutti um 5 ára aldur til Dalvíkur þar sem rætur hans liggja. Síðustu ár hefur hann búið á Akureyri ásamt eiginkonu sinni, Kolbrúnu Sjöfn Magnúsdóttur, og dætrunum Magneu Björgu og Guðrúnu Rögnu.

Kristján útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum á Dalvík árið 1996 og lá þá leiðin til Samherja þar sem hann starfaði í rúman áratug. Kristján var ráðinn um borð í  Ljósafellið árið 2008 og síðan þá hefur hann gengt flestum stöðum um borð í Ljósafellinu. Árið 2019 var hann ráðinn sem yfirstýrimaður og síðustu 2 ár hefur hann starfað sem skipstjóri í fjarveru Hjálmars.

Loðnuvinnslan óskar Kristjáni til hamingju með nýju stöðuna og óskar honum velfarnaðar í starfi.