“Á íslensku má alltaf finna svar” segir í ljóði eftir Þórarinn Eldjárn. Það á nú eflaust við önnur tungumál líka en við, unnendur íslenskunnar, kunnum að meta þegar fallega er talað um tungumálið. 

Hjá Loðnuvinnslunni vinnur margt fólk. Fólk sem kemur héðan og þaðan úr veröldinni og meðferðis hefur það auðvitað sitt móðurmál. En tungumálakunnátta er dýrmæt þekking sama hvaðan einstaklingur kemur  og hvert hann fer. -Svo sagði músin sem bjargaði lífi sínu með því að kunna að gelta. 

Eydís Ósk Heimisdóttir vinnur á skrifstofu LVF og henni er margt til lista lagt. Hún er með  Bsc í viðskiptafræði og spænsku ásamt því að vera með master gráðu í kennslufræði.  Að auki eru tungumál hennar áhugamál og getur hún tjáð sig á  allmörgum tungum.  Það lá því beint við að fá hana til þess að vera með íslenskunámskeið fyrir það starfsfólk LVF sem óskar eftir slíku námskeiði.  Síðan í september hefur námskeið verið í gangi og  jafnan nokkuð vel sótt. Þar sem mæting er frjáls þá stjórnast hún svolítið af önnum í fyrirtækinu.

„Ég legg áherslu á orðaforða sem tengist daglegu lífi. T.d. þegar manneskja verslar eða á í samræðum“ sagði Eydís Ósk þegar hún var spurð um áherslur í náminu.  Þá sagði Eydís að það færi alltaf nokkur tími í að læra hin ýmsu orð um veður. Það er jú okkur, íbúum á landinu bláa, hugleikið umtalsefni. „Þá er farið í orðaforða sem er hagnýtur eins og tölur,  mánuði, daga og helstu sagnir“, sagði Eydís líka og bætti við síðasta tímanum fyrir jól yrði varið í orð tengd jólum.

Aðspurð sagði Eydís Ósk að nemendunum gengi vel, þau væru áhugasöm og dugleg.  Fyrirhugað er framhalds námskeið á vorönn.

Ein af þátttakendum námskeiðsins er Caro Robert, hún kemur frá Argentínu. Caro sagði að það væri mikilvægt fyrir sig að læra íslensku. „Jafnvel þótt flestir Íslendingar tali góða ensku þá finnst mér það sýna vott af virðingu og áhuga á landinu að vilja læra tungumálið“ sagði Caro  og bætti því við að það gæti jafnvel aukið möguleika til þess að taka þátt í félagsstarfi og öðru slíku með innfæddum.  „Ég hef nú þegar lært nógu mikið til þess að geta spjallað svolítið á íslensku“ bætti Caro við og greinarhöfundur getur staðfest það.  Þegar Caro var innt eftir því hvort að kennslan hefði staðið undir væntingum svaraði hún um hæl að Eydís væri afar góður kennari.  „Hún er líka opin og góð persóna, og mjög svo viljug að svara öllum okkar spurningum og svo er hún svo góð í öðrum tungumálum að allar útskýringar eru auðskiljanlegar“ sagði Caro frá Argentínu.

Það er grundvallar atriði í samskiptum fólks að skilja hvert annað. Oft þurfum við sem höfum íslensku að móðurmáli að bregða fyrir okkur erlendu tungumáli til að gera okkur skiljanleg og ávallt er það gleðilegt þegar fólk sem hefur annað móðurmál en íslensku langar að læra okkar ástkæra ylhýra.

Því mun Loðnuvinnslan bjóða upp á námskeið í íslensku á meðan einhver mætir í tíma.

BÓA

Eydís Ósk Heimisdóttir

Nemendur dagsins: Sophie frá Sviss og Justine frá Frakklandi, þær eru skiptinemar en fá góðfúslega að fylgja Eydísi. Síðan eru það Agustin og Carolina, starfsfólk Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Eydís Ósk.

Námsgögn. Ljósmynd: Eydís Ósk.