Til eru samtök sem bera hið tungulipra nafn; Samtök stjórnenda stjórnsýslu- og fjármálasviða sveitafélaganna, skammstafað FSSFS. Samtök þessi halda árlegan vorfund þar sem blandað er saman fræðslu og skemmtun. Að þessu sinni var vorfundurinn haldinn í Neskaupstað og gestgjafinn var Fjarðabyggð. Dagskráin náði yfir tvo daga þar sem þátttakendur fengu fræðsluerindi sem gagnast í þeirra störfum auk þess sem þeim var boðið í útsýnisferðir og heimsóknir til fyrirtækja og stofnana.
Loðnuvinnslan bauð hópnum í heimsókn þar sem gestirnir fengu kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Það þykir góður siður að bjóða gestum hressingu af einhverju tagi þegar þeir bera að garði og á því var engin undantekning að þessu sinni. Veitingarnar voru hinar bestu en mesta góðgætið þóttu svartfuglseggin sem voru á boðstólnum. Gestirnir kunnu afar vel að meta þau.
Þórdís Sif Sigurðardóttir er fráfarandi bæjarstjóri Vesturbyggðar og var hún í hópi gestanna frá FSSFS. „Þetta er búið að vera afar vel lukkuð ferð „ sagði hún og bætti því við að vorferðirnar væru dýrmætar því þær gæfu góða innsýn í atvinnulíf á því svæði sem fundurinn er haldinn hverju sinni. „ Og svo er mikilvægt að styrkja tengslanetið milli einstaklinga sem vinnu sömu störf á mismunandi stöðum“ sagði Þórdís Sif. „Það var mjög gaman að koma í heimsókn til Loðnuvinnslunnar, við fengum góða kynningu á starfseminni og afskaplega vel tekið á móti okkur“ sagði Þórdís Sif og þegar talið barst að veitingunum sagði hún hlæjandi „það var hápunktur ferðarinnar að fá svartfuglseggin og kærar þakkir fyrir“.
Snorri Styrkársson er fjármálastjóri Fjarðabyggðar og einn skipuleggjandi heimsóknarinnar. „Almennt var gerður góður rómur af heimsókninni til Fjarðabyggðar og heimsóknin og kynningin hjá Loðnuvinnslunni fékk mjög góð meðmæli“ svaraði Snorri er hann var inntur eftir hvernig vorfundurinn hefði gengið.
Sú var tíðin að allir Íslendingar sem komnir voru af barnsaldri höfðu á einhverjum tímapunkti unnið í frystihúsi og einhvern tímann mjólkað kú, en nú er önnur tíð og gaman að geta þess að a.m.k tveir þátttakendur höfðu aldrei stigið fæti inn í frystihús þegar þeim var boðið í kynnisferð um tæknivætt og nútímalegt frystihús Loðnuvinnslunnar.
BÓA
Frá vinstri: Þórdís Sif Sigurðardóttir, Ingunn Stefánsdóttir úr Hvalfjarðasveit og Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir.
Frá vinstri: Guðlaugur Sæbjörnsson, Áslaug Ragnarsdóttir, Kristín Ragnarsdóttir og Snorri Styrkársson. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Þátttakendur voru áhugasamir um starfsemi Loðnuvinnslunnar. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Svartfuglsegginn góðu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir