Það er kominn nýr karl í brúnna! Þessi fleyga setning, sem er svo samgróin íslenskunni þar sem tilvísanir til sjómennsku eru ríkar, á að þessu sinni við því að það er kominn nýr aðili sem hefur tekið að sér starf framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar og þar með Kaupfélagsstjóri Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga.
Maðurinn sem um ræðir heitir Garðar Svavarsson og er fæddur á því herrans ári 1983 og fyllir því fjóra áratugi. Hann er spengilegur maður, hefur fallegt bros og er afskaplega viðræðugóður.
Þegar Garðar var inntur eftir því hvaðan hann væri svaraði hann: „Ég er úr Kópavogi, en á móðurætt að rekja á Eskifjörð“. Garðar ólst upp í Kópavogi, gekk í Snælandsskóla og æfði sund og handbolta hjá Breiðablik. Hann átti góða æsku við leik og störf í Kópavoginum en þegar grunnskóla lauk valdi hann að fara í Menntaskólann við Sund þaðan sem hann útskrifaðist sem stúdent.
Garðar var aðeins sextán ára gamall þegar hann byrjaði að vinna hjá Granda. Þar var faðir hans framleiðslustjóri og því lá beinast við að hefja starfsferil þar. „Í fyrstu vann ég að mestu við snyrtingu og pökkun, en eftir því sem aldurinn leyfði bættust við önnur störf innan frystihússins eins og hausari, flökunarvél og annað“ sagði Garðar og bætti því við að hann hefði líka prófað að stunda sjómennsku eitt sumar bæði á ísfisktogara og frystitogara og þegar hann var inntur eftir því hvort honum hefði fallið betur var hann snöggur til svars: „Frystitogaranum, þar voru störfin kunnugleg úr frystihúsinu og svo var afbragðsgóður matur, jú og svo voru góð laun“. Á meðan Garðar var í skóla, bæði mennta – og háskóla, vann hann í fiski öll sumur. Sem ungur stúdent skráði hann sig í efnaverkfræði í Háskóla en á fyrstu önn fann hann að það var ekki það sem hann langaði að leggja lagi sitt við til framtíðar svo hann kvað sínu kvæði í kross og fór að vinna í leikskóla og sagði að sig hefði alltaf langað til að prófa slíkt starf því hann hefði alltaf haft gaman af börnum.
En eins og áður sagði voru sumrin tileinkuð Granda, hann starfaði þar t.a.m sem verkstjóri á næturvöktum en þá var unnið allan sólarhringinn í frystihúsi Granda. „Það var svo mikill fiskur, karfi og ufsi svo að frystihúsið var látið ganga allan sólarhringinn á vöktum“ sagði Garðar og rifjaði það upp að á þessum næturvöktum þurfti hann að vera sjálfstæður og úrræðagóður því að ekki var stoðþjónustan í gangi að næturlagi svo að sú ábyrgð að halda vélum og tækjum gangandi féll innan hans verksviðs á nóttunni. „ Þá var gott að geta bjargað sér með teip og spotta“ sagði hann og brosti að þessum góðu endurminningum.
Svo að eftir alla þessu reynslu taldi okkar maður sig vera búinn að finna sinn farveg í lífinu og ákvað að fara í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og útskrifaðist hann þaðan sem sjávarútvegsfræðingur. „Ég vissi að ég vildi starfa við sjávarútveg því mér hefur alltaf liðið vel í störfum tengdum fiski og útgerð“ sagði Garðar sem veit hvað hann syngur í þeim efnum hafandi unnið öll möguleg störf innan fagsins.
Og Garðar fetaði í rólegheitum stigann upp á skrifstofu. Með háskólanáminu vann hann á markaðsdeild HB Granda og leysti meðal annars sölustjórana af og tók síðan við starfi sem sölustjóri á mjöli og lýsi. Auk þess vann hann með öðrum að sölu á uppsjávarafurðum. „Svo vann ég náið með Vilhjálmi Vilhjálmssyni þáverandi framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs við allskonar skipulag og framleiðslu, en tók svo við því framkvæmdastjórastarfi árið 2013 og var í því þangað til ég kom til Loðnuvinnslunnar á haustmánuðum 2023. Garðar Svavarsson hóf störf hjá Granda þann 1.júní 1999 og lét af störfum þar haustið 2023 svo að tuttugu og fjögur ár á sama vinnustað, við hin ýmsu störf , er vel gert.
Garðar er kvæntur Aldísi Önnu Sigurjónsdóttur og eiga þau fjögur börn. 18 ára, 11 ára, 8 ára og 5 ára. Svo fjölskyldan er stór og ekki sjálfgefið að allar þessar manneskjur, ungar sem aldnar, séu reiðubúnar til þess að rífa sig upp með rótum og flytja búferlum yfir landið. En þegar Garðar var spurður um það sagði hann að það hefði jafnvel komið honum lítilega á óvart hvað konan hans og börnin tóku vel í hugmyndina þegar hún kom upp fyrst. „Við Aldís sáum þetta fyrir okkur sem tækifæri til þess að öðlast nýja reynslu og öðlast nýjan lærdóm því að lífið er góður skóli“. Og hingað eru þau komin, í Búðaþorp við Fáskrúðsfjörð þar sem þau hafa komið sér fyrir í fallegu húsi sem kallast Tröð og er í eigu Kaupfélagsins. Húsið hafa þau aðlagað að sinni fjölskyldu eins og vera ber. Garðar talaði um hversu dýrmætt þeim hjónum þætti hvað allir hafa tekið vel á móti fjölskyldunni og svo þekkja allir foreldrar þá tilfinningu sem færir yl í brjóstið þegar börnunum líður vel og þrífast vel félagslega og það segir Garðar að börnin hans geri.
Þau hjónin eiga góða vini á Vopnafirði frá þeim tíma sem Garðar sinnti störfum á vegum HB Granda þar. Og vegalengdin á milli Vopnafjarðar og Fáskrúðsfjarðar er töluvert styttri en til Reykjavíkur svo að þau sjá fyrir sér að njóta þess að geta fengið vini í heimsókn auk þess sem fjölskyldan er dugleg að koma. Foreldrar Garðars eru einstaklingar á eftirlaunaaldri og hafa gjarnan tækifæri til þess að koma og dvelja í nokkra daga í senn og þegar mannfólk deilir svefnstað og skjóli verða tengslin sterkari. Og það þykir fjölskyldumanninum Garðari mikilvægt.
Aldís Anna stefnir á að nýta menntun sína sem náms-og starfsráðgjafi til góðra verka innan sveitafélagsins. Hún er ásamt Sigrúnu Evu Grétarsdóttur náms-og starfsráðgjafa, að stofan fyrirtæki með það í huga að bjóða upp á þjónustu sem hingað til hefur oft þurft að sækja út fyrir sveitafélagið.
Að búa og starfa í litlu samfélagi er nýlunda fyrir Garðar og ekki þarf að undrast þó að það beri á svolitlum kvíða þegar kemur að því að flytja búferlum og hefja störf á nýjum stað þar sem allir og allt er ókunnugt. „Það var mikill léttir þegar ég var búinn að vera hér í nokkurn tíma og mér hafði ekki mætt neitt nema alúð og fagmennska“ sagði Garðar og lesa mátti í svip hans að hann meinti hvert orð. Fjölskyldan er að búa sér heimili í samfélagi sem þau sjá fyrir sér til langframa, „við erum ekki komin til að tjalda til einnar nætur“ sagði Garðar í því samhengi. Og bætti svo við „ við höfðum gert okkur í hugarlund að við þyrftum að skreppa nokkuð reglulega til borgarinnar til þess að verða okkur úti um eitt og annað en sú hefur aldeilis ekki orðið raunin, hér höfum við allt sem við þurfum og þjónusta og afþreying er miklu ríkari í nærsamfélaginu en við höfðum gert okkur grein fyrir“.
Og nú þegar börnin eru farin að taka þátt í tómstundum og eru að aðlagast nokkuð vel þá er skapast einhver tími fyrir Garðar til þess að sinna eigin áhugamálum. Og þegar hann er inntur eftir því hvar hans áhugi liggur svaraði hann því til að hann hefði gaman af veiðum. „Ég er mikill áhugamaður um skot- og stangveið og hef gaman af golfi líka“. Þá minntist hann á að hann hefði hug á því að ganga eitthvað til fjalla þegar sumarið hefði breytt út faðm sinn og fært allt í grænan búning. „Og Aldís konan mín er mjög spennt fyrir því að fara í berjamó, og ég skal með ánægju borða berin“ bætti hann við kíminn. Og þar verða þau ekki svikin því mikið er af góðu berjalandi í Fáskrúðsfirði.
Garðar, Aldís og börnin eru boðin hjartanlega velkomin til Fáskrúðsfjarðar og Loðnuvinnslunnar. Þessum óskum fylgir líka einlæg von um að þeim muni farnast vel í leik og starfi og að lífið og lánið muni leika við þau.
BÓA
Garðar Svavarsson framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnur og kaupfélagsstjóri.