Rannsóknarsetur verslunarinnar gerði könnun meðal þjóðarinnar þar sem spurt var hvað fólk vildi helst óska sér til jólagjafa og niðurstaðan var skýr; samvera og eða upplifun var svarið. Það er falleg ósk og auðveld að uppfylla fyrir marga.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar bauð sínu fólki í jólabingó á dögunum. Félagsfólk bauð með sér gestum á borð við maka, börn, barnabörn eða hverjum öðrum fjölskyldumeðlim sem fólk kaus. Og boðinu var vel tekið og greinilegt að félagsfólk kann vel að meta frumkvæðið. Bingó er skemmtilegt fjölskyldu spil. Það geta allir verið með og þeir heppnu fá vinning, þannig er það í spilum, það geta ekki allir unnið til vinninga, en það geta allir notið ánægjunnar við að spila með og njóta samvistanna og gleðjast með þeim sem duttu í lukkupottinn að þessu sinni.

Um 90 manneskjur mættu í félagsheimilið Skrúð síðdegis á mánudegi til þess að spila bingó, en það var nú aldeilis ekki allt og sumt. Það var líka boðið upp á heitt súkkulaði og jólakökur og slíkar veitingar eru aðeins til þess fallnar að gera gott betra. Og ekki nóg með það heldur mættu tveir jólasveinar, sem höfðu eflaust fylgst með veðurspá og sáu að besta ferðaveðrið var einmitt þennan tiltekna mánudag,  og þessir tveir jólasveinar komu ekki tómhentir heldur færðu börnunum glaðning svo að kannski mætti segja sem svo að allir hafi unnið. Börnin fengu öll glaðning og hinir fullorðnu glöddust yfir brosum barnanna.

Steinunn Björg Elísdóttir er félagi í Starfsmannafélaginu og hún mætti í Bingóið með tvö barnabörn, 3ja ára og 8 ára. „Þetta var fínasta skemmtun, passlega langt því þarna var fólk á öllum aldri og börnunum fannst auðvitað spennandi að fá glaðning frá jólasveinunum“ sagði Steinunn  og bætti því við að þetta hefði verið sönn gæðastund.

Guðjón Anton Gíslason er stýrimaður á Ljósafellinu og hann ásamt konu sinni og þremur sonum tóku einnig þátt í bingóinu og aðspurður svaraði Guðjón því til að þetta hefði verið mjög skemmtilegt. „Það kom enginn vinningur í okkar hlut að þessu sinni en þetta var mjög vel lukkað og bara gaman af þessu“ bætti hann við. Yngri drengir Guðjóns eru 3ja og 4ja ára gamlir og þeir, eins og svo mörg börn, upplifa heilan hrærigraut af tilfinningum þegar kemur að jólasveinum, spenna, pínu hræðsla, gleði og eftirvænting allt í bland. En það sem jólasveininn gefur er alltaf jafn vel þegið.

Þegar félagar í starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar héldu heimleiðis að loknu jólabingói voru ungir sem aldnir sáttir og glaðir, með súkkulaði og kökur í maganum, glaðning frá jólasveininum í hendinni og ef til vill svolitla jólagleði í hjartanu.

BÓA

Horft yfir salinn. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Horft yfr salinn út gangstæðri átt með veitingarnar í forgrunni. Ljósmynd: Arnfiður Eide Hafþórsdóttir

Bingóstjórarnir að störfum, Selma og Bryndís. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Eftirvæntingarfullir bingógestir. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir