Það er mikilvægt að samstarfsfólk eigi í góðum og uppbyggilegum samskiptum. Það hjálpar fólki að skilja hvert annað, stuðlar að aukinni mannvirðingu og síðast en alls ekki síst þá eykur það starfsánægju.

Eitt af þeim tólum sem vinnustaðir hafa til þess að auka á ánægju og gleði starfsfólks eru starfsmannafélög. Félög sem eru stjórnað af starfsfólki sjálfu og hafa gjarnan það markmið að standa fyrir viðburðum og uppákomum til að létta lund og hvíla lúin bein fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar er öflugt félag. Það nýtur stuðnings LVF hvort heldur fjárhagslega eða á annan máta. Til að mynda styrkti LVF starfsmannafélagið um 10 milljónir króna á síðasta aðalfundi og er öllum fjármunum félagsins vel varið.

Þann 1.desember s.l. hélt starfsmannafélagið aðalfund sinn í Whatnes sjóhúsinu. Hefðbundin aðalfundastörf voru viðhafin þar sem formaðurinn Arnfríður Eide Hafþórsdóttir flutti skýrslu stjórnar þar sem fram kom hverju starfsmannafélagið hafði áorkað  frá síðasta aðalfundi. Má þar nefna ferð til Glasgow í nóvember 2022, jólabingó sem var í desember í fyrra og verður aftur á dagskrá núna í desember. Þá var haldin sjómannadagsskemmtun  og félagið kom að skipulagningu og framkvæmd við samkvæmi sem haldið er við vertíðarlok.  En hápunkturinn hjá starfsmannafélaginu var ferð til Sikileyjar sem farin var í október s.l.  Að öllum öðrum viðburðum ólöstuðum var þessi ferð svo vel heppnuð að segja má að engan skugga hafi borið þar á.

Að loknum skyldustörfum aðalfunda var létt yfir mannskapnum. Fólk naut samskipta hvert við annað, tók í spil og spjallaði auk þess sem boðið var upp á bjórkynningu. Annars vegar var þar bjór frá Hannesi Haukssyni sem er áhugamaður um bjórgerð og bruggar til heimabrúks. Hann kom með kút af bjór sem hann kallar Jólalager sem er bjór sem hefur „jólakarakter“ eins og Hannes sagði, með karmellu og malt keim.  „Ég hef gaman af því að prófa mig áfram og er alltaf að betrumbæta uppskriftirnar mínar, ég rek hálfgert tilraunaeldhús“ sagði Hannes og sagði að fólk hefði tekið bjórnum hans vel, „í það minnsta kom fólk aftur og fékk sér ábót“. Það hljóta að vera meðmæli.

Hins vegar var Bjarni Þór Haraldsson með bjór frá sinni framleiðslu sem hann kallar Múli. Múli er stofnað í september 2020 og sígauna brugghús.

Sígauna brugghús eru heimilislaus brugghús og fá aðstöðu hjá öðrum brugghúsum við bruggunina. Allur bjór Múla er bruggaður hjá Austra brugghúsi á Egilsstöðum. 

„Fyrsti bjór Múla var Bessi og er klassískur Vienna lager. Lager er lang vinsælasti stíll bjórs í heiminum og því í lófa lagið að stimpla sig inn með þannig bjór“ sagði Bjarni um upphaf starfseminnar.  Handverksbrugghús hafa verið á mikilli siglingu undanfarin ár og á Austurlandi eru 4-5 starfandi í dag.  Handverksbrugghús eru í eðli sínu smá, með framleiðslu undir milljón lítrum á ári.

Múli er með 11 bjóra í sinni vörulínu og í dag eru fjórir til í vínbúðinni. „Það getur verið mjög erfitt að halda vörum inn í vínbúðinni því það þarf að halda ákveðnum sölutölum“ sagði Bjarni. Þá hafa miðarnir á bjórunum fengið mikla athygli en hönnuður þeirra er Ásbjörn Þorsteinsson frá Eskifirði, þannig að með sanni má segja að allt sem kemur að framleiðslu Múla bjórs sé úr héraði.  

Bjarni sagði einnig að starfsfólk LVF hefði tekið vörum sínum vel og bjórinn hefði fengið góða dóma.

Já, það er sannarlega margt hægt að hafa fyrir stafni og flest verður það allt skemmtilegra í góðum félagsskap og það kom berlega í ljós hjá félögum í starfsmannafélagi Loðnuvinnslunnar, sem skörtuðu mörg skrautlegum jólapeysum, þegar þau skemmtu sér við spil, spjall og góðar veigar.

BÓA

Skemmtileg auglýsing

Úrval höfugra drykkja. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Huggulegt umhverfi. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir

Það er gaman að vera saman. Ljósmynd: Stefán Alex Elvarsson

Sýnishorn af miðunum á Múla bjórum. Ljósmynd frá Múli craft brew.