Það er margt sem mannanna hönd hefur byggt og margt sem mannanna hugur hefur hannað.  Eitt af því er róbóti eða þjarki eins og  fyrirbærið hefur verið nefnt  á íslensku. Þykir flestum það snjöll nafngift því það er náskylt orðinu þjarkur sem þýðir: „duglegur maður og fylginn sér“ eins og stendur í íslensku orðabókinni.

Loðnuvinnslan hefur slíkan búnað í sínum fórum.  Það er armur sem sér um að raða frosnum kössum með frosnum afurðum á bretti. Þennan búnað er hægt að forrita með mismunandi hætti þannig að þjarkinn hitti ávallt á réttan stað. Frosnir fiskikassar eru þungir og það er lýjandi fyrir mannlega arma að sinna því starfi.  Ekki er hægt að leggja það að jöfnu að fá annars vegar þjarka til þess að vinna verkin eða hins vegar mannlegan vinnuþjark.  Næg eru samt verkefni fyrir mannlega greind og eitt af þeim verkefnum er að forrita þjarkann svo að hann sinni sínu starfi vel og nákvæmlega.  Rétt eins og með önnur mannanna verk getur búnaður sem þessi bilað, það þarf að smyrja, laga og bæta.

Þriðjudaginn 24.október, kom starfsmaður Samey Robotics til þess að hafa námskeið fyrir þá starfsmenn Loðnuvinnslunnar sem sinna viðhaldi og starfsemi þjarkans. Á heimasíðu Samey Robotics segir um starfsemi fyrirtækisins: „Samey Robotics hefur í yfir 32 ár verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensks iðnaðar og brautryðjandi í notkun þjarka í sjálfvirkni.  Samey Robotics hefur með þessum lausnum aðstoðað fjölda fyrirtækja til  lands og sjávar á farsælan og árangursríkan hátt við að auka framleiðni og rekstrarhagkvæmni.   Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá Samey Robotics“.

Sven Wegner er starfsmaður hjá Samey og hann sá um kennslu á umræddu námskeiði. Þegar hann var inntur eftir því hver væri munurinn á vél og þjarka svaraði hann því til að vélar væru framleiddar til þess að sinna einu ákveðnu verki, t.d. hefði bílvél þann eina starfa að knýja áfram bifreið, en þjarki er tæki sem getur gert hvað sem helst, það tekur við skipunum frá tölvu sem segir því hvað gera skal og það getur verið mismunandi. „Námskeiðið gekk vel“ sagði Sven.  „Nú geta þeir sem voru á námskeiðinu gert litlar breytingar og skilja betur hvernig þetta virkar allt og þá eru menn hæfari til að bjarga sér í hita leiksins ef þarf“ sagði Sven.

Steinar Grétarsson verkstjóri síldarverkunar var einn af þeim sem sóttu námskeiðið. Hann sagði að námskeiðið hefði aðallega snúist um almenna umsjón með róbótnum og þeir sem hefðu kunnað eitthvað fyrir hefðu bætt við sig þekkingu og tækifærið hefði verið nýtt í að kenna fleirum.  „Maður lærir alltaf eitthvað nýtt og þrátt fyrir að fólkið hjá Samey séu búin að þróa þetta kerfi ansi vel þá er alltaf eitthvað sem getur bilað og þá er gott að vita hvað á til bragðs að taka“ sagði Steinar og bætti því við að búnaðurinn sem er í vinnslu LVF væri búinn að reynast mjög vel.

BÓA