Í dag, þriðjudaginn 17.október, fékk Loðnuvinnslan góða gesti þegar hópur fólks sem tengist þingmannanefnd um norðurskautsmál leit við. Voru þar á ferð nefndarmeðlimir ásamt öðrum gestum.
Á heimasíðu Alþingis er eftirfarandi útlistun á starfsemi og tilgangi nefndarinnar:
„Þingmannanefnd um norðurskautsmál er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Fundir eru haldnir að jafnaði þrisvar á ári. Aðildarríkin eru Bandaríkin, Kanada, Norðurlönd ( Noregur, Svíþjóð, Grænland, Færeyjar, Danmörk , Ísland) og Rússland. Í nefndinni situr einn þingmaður frá hverju aðildarríki en auk þess tilnefnir Evrópuþingið einn fulltrúa. Fulltrúi Alþingis er jafnan formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Á fyrstu árum sínum vann þingmannanefndin ötullega að stofnun Norðurskautsráðsins.
Helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúta að sjálfbærri þróun, umhverfis- og náttúruvernd. Sérstök áhersla er einnig lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta norðlægra þjóðflokka sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins.“
Formaður Íslandsdeildarinnar er Líkeik Anna Sævarsdóttir þingmaður og er hún gestgjafi nefndarinnar að þessu sinni. Líneik sagði að nefndin hefði setið á fundi til kl. 15.00 í dag en þá var farið af stað til þess að sýna gestunum eitt og annað markvert á Austurlandi. Þar á meðal var heimsókn til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði þar sem tekið var á móti gestunum í Whatnes sjóhúsinu. Boðið var upp á síld og rúgbrauð auk viðeigandi drykkja.
Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstýra Fjarðabyggðar heilsaði gestum og bauð þau velkomin í Fjarðabyggð, þá sagði hún lítillega frá sveitafélaginu og helstu einkennum þess. Því næst kynnti Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF starfsemi félagsins og sýndi gestum nokkrar stuttar kvikmyndir sem gerðar hafa verið um mismunandi þætti starfseminnar.
Þá sagði Jónína Guðrún Óskarsdóttir nokkur orð um ljósmyndirnar sem prýða veggi Whatnes sjóhússins, en þar gefur að líta glæsilegar myndir af norðurljósum.
Formaður þingmannanefndarinnar um norðurskautsmál er Aaja Chemnitz þingmaður. Hún er grænlensk og situr á danska þinginu, annar tveggja fulltrúa sem Grænlendingar eiga þar. Hún sagði það afar mikilvægt fyrir lönd á norrænum slóðum að starfa saman og því væru fundir líkt og haldinn var á Austurlandi í dag þýðingarmiklir. „Það er einnig áhugavert að heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og kynnast starfseminni“ sagði Aaja og bætti því við að það hefði komið henni skemmtilega á óvart hversu tæknileg öll starfsemi er hjá Loðnuvinnslunni. „Móttökurnar á Austurlandi hafa verið stórkostlegar“ sagði Aaja Chemnitz þingmaður.
Það er mikilvægt að taka vel á móti gestum því með þeim ferðast orðspor gestgjafanna og glöggt mátti sjá og heyra og gestirnir sem sóttu Loðnuvinnsluna heim í dag voru sáttir og glaðir.
BÓA
Gestirnir í Whatnes sjóhúsinu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Veitingarnar ekki af verri endanum. Rúbrauð og síld. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Friðrik Mar Guðmundsson framkvæmdastjóri Lvf í pontu. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir
Jóna Árný Þórðardóttir bæjarstýra Fjarðabyggðar ávarpar gestina. Ljósmynd: Arnfríður Eide Hafþórsdóttir