Á árum áður var gjarnan talað um bjargræðistíma þegar annríki var mikið við að færa björg í bú hvort heldur var til sjávar eða sveita.  Í sjávarútvegi kemur annríkið með vertíðunum sem skipa sér hver á eftir annarri eftir því sem fiskar af hinum ýmsu tegundum synda inn og út af veiðisvæðum. Einum slíkum annríkistíma er rétt lokið hjá Loðnuvinnslunni og er það loðnuvertíðin.  Met voru slegin og markmiðum náð og er það ávallt fagnaðarefni.

Loðnuvinnslan tók á móti 37.000 tonnum af loðnu. 28.000 tonn fóru í bræðslu, 3700 tonn voru heilfryst á markaði í Asíu og Úkraníu og 5300 tonn af hrognum var unnið úr þessum afla og er LVF stærsti einstaki framleiðandi hrogna á Íslandi.

Loðnuhrogn eru afar verðmæt afurð og því skiptir miklu máli að meðhöndla þau af fagmennsku svo að úr verði vara sem er eftirsótt um heim allan.

Þorri Magnússon er framleiðslustjóri Loðnuvinnslunnar og sér til þess að öll framleiðsla á þessum verðmætu matvælum fari fram eins og til er ætlast.

Er Þorri var spurður að því hvernig vertíðin hefði gengið svaraði hann:

„Það er fátt hægt að segja annað en að starfsmenn til sjávar og lands unnu þrekvirki á þessari vertíð eins og oft áður, stoðdeildir og verktakar tryggðu að allt gekk smurt. Það unnu allir að einu markmiði að gera mikið og það tókst“.

Þorri vildi líka þakka þeim er héldu opnum götum í þorpinu, því að undan farið hefur verið mikið fannfergi á Austfjörðum,  sem síðan varð að heilmiklum krapa svo að færð innan þorpsins spilltist mjög auðveldlega.  „Þeir eiga skilið þakkir fyrir frábært starf“ sagði Þorri og hinn almenni borgari hér á Búðum getur tekið heilshugar undir það.

Nýja frystikerfi í Fram stóð allar væntingar og sagði Þorri að „ýtt hefði verið á græna takkann í upphafi vertíðar og þann rauða við lok, hreint frábær búnaður“.

En það eru ekki aðeins vélar og búnaður sem stóðu sig vel því mannshöndin og mannhugurinn þarf að vera til staðar líka og vel við hæfi að enda á orðum Þorra framleiðslustjóra sem sagði stoltur: „Það er eins og áður við erum með frábæran mannauð“.

BÓA

Loðna