Að kvöldi 11.desember  s.l. lagðist að bryggju á Fáskrúðsfirði firna mikið flutningaskip sem ber nafnið Sigyn. Um borð var þurrkari sem koma á fyrir í fiskimjölsverksmiðju Loðnuvinnslunnar. Um er að ræða samskonar þurrkara og áður hafa verið settir þar inn og er þessi sá þriðji sömu gerðar, framleiddir hjá Haarslev í Danmörku. Þessir þrír þurrkarar leysa af hólmi fjóra eldri þurrkara sem allir voru af mismunandi gerð. Þessir nýju þurrkarar hafa þurrkflöt upp á 690m2 sem er umtalsvert meira en hinir eldri réðu við.  Til að setja hluti í örlítið samhengi þá hefur sá sem settur verður upp núna 50% meiri afkastagetu heldur en sá sem hann leysir af hólmi.  Þurrkarar sem þessir eru stórir og þungir eða um 120 tonn hver um sig, og mun það taka nokkrar vikur að koma honum fyrir og tengja við þann búnað sem fyrir er. Magnús Ásgrímsson verksmiðjustjóri áætlar að hann geti verið komið í gagnið um miðjan janúar n.k.

Þá er einnig verið að setja upp nýja skilvindu í fiskimjölsverksmiðjuna. Þá eru þar  komnar sex skilvindur. “Þessar skilvindur eru allar brúkaðar á mismunandi hátt” sagði Magnús, og bætti við: “þessi nýja verður notuð á soð”. 

Fiskimjölsverksmiðja Loðnuvinnslunnar er orðin afar tæknileg verksmiðja. Þar hefur mikið verið endurnýjað af tækjum og tólum á síðustu misserum og tilgangurinn er að sjálfsögðu að halda í við tæknina, auka rekstaröryggi sem leiðar af sér aukna möguleika í afköstum og framleiðslu.

BÓA

Verið að hífa þurrkarann frá borði. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Þurrkarinn kominn að verksmiðjuhlið. Stór og mikill. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Og kominn inn. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson
Nýja skilvindan. Ljósmynd: Friðrik Mar Guðmundsson