Það er óhætt að segja að veðurguðirnir hafi verið með Fáskrúðsfirðingum þessa helgi þar sem veðurspáin um úrhellisrigningu gekk ekki eftir og fengu gestir okkar flott veður í Sjómannadagssiglingunni. Eftir löndun úr Ljósafelli á laugardagsmorgun fór áhöfnin beint í að þrífa skipið hátt og lágt áður en gestum var boðið að koma um borð og í siglingu út fjörðinn. Að vanda var boðið uppá gos og getterí sem tilheyrir þessum degi og mátti sjá bros í andliti barnanna sem virtust skemmta sér vel í siglingunni.
Um kvöldið hélt starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar veglega skemmtun fyrir starfsólk sitt í félagsheimilinu Skrúð þar sem Jógvan Hansen var veislustjóri og spilaði hann ásamt Jóni Hilmari Kárasyni og hljómsveit fram á nótt. Allir virtust skemmta sér konunglega og var mikil ánægja starfsfólks með þessa skemmtun. Sjórn starfsmannafélagsins tilkynnti einnig að Sjóamnnadagsskemmtunin væri komin til að vera. Meðal skemmtiatriða var að setja saman hljómsveit með Jógvani og Jóni Hilmari sem tóku síðan lagið Smoke on the water með Deep Purple, þetta vakti mikla lukku og tókst þetta atriði einstaklega vel.
Á sjálfan Sjómannadaginn var hátíðleg messa í Fáskrúðsfjarðarkirkju þar sem var mjög góð mæting, gestir héldu síðan í veglegt kaffihlaðborð sem Slysó konur stóðu fyrir í Skólamiðstöðinni.
Ljósmynd: Sverrir Gestsson