Töluverðar breytingar hafa verið gerðar á frystihúsi Loðnuvinnslunnar sem staðsett er húsi sem gengur undir nafninu Fram og er við Hafnargötu á Fáskrúðsfirði. Þar eru frystar afurðir af uppsjávarskipum eins og loðna, síld, makríll og síðast en ekki síst loðnuhrogn.

Komið hefur verið fyrir nýjum frystitækjum og húsið allt lagað og endurbætt.

Samkvæmt Þorra Magnússyni framleiðslustjóra var mikil og góð undirbúningsvinna á haustmánuðum til þess að allt gekk með miklum ágætum.

“Þegar við ýttum á græna takkann fór allt í gang” sagði Þorri og hrósaði á hásterti bæði iðnaðarmönnum sem og starfsfólki LVF og sagði að það hefði allt staðið sig með prýði.

Vinnsla á heilfrystri loðnu gekk vel og voru fryst 2.800 tonn.  Stór markaður fyrir heilfrysta loðnu hefur verið í Úkraníu, en eðli málsins samkvæmt hefur myndast skarð í þann markað. Vonandi er það tímabundið fyrir það góða fólk sem þar býr.

Þegar Þorri var spurður út í gengi á hrogna vinnslunni svaraði hann:

“Vinnsla á hrognum gekk hreint frábærlega bæði til sjós og lands og megum við vera stolt af okkar fólki þar bæði þjónustudeildum, vinnslufólki og sjómönnum sem gerði enn og aftur hreint frábæra hluti sem víða er tekið eftir”.

2.751 tonn af loðnuhrognum voru fryst hjá Loðnuvinnslunni og þykir það gott miðað við magn veiðiheimilda og sem hlutfall af heildarframleiðslu í landinu en sú framleiðsla var 11.200 tonn.

Hráefnið kom frá Hoffelli, auk 10.000 tonna af loðnu til hrognatöku frá þremur  skipum frá Götu í Færeyjum.

Um er að ræða mjög góða markaðsvöru enda þykja loðnuhrogn herramanns matur víða um heim.

Næst verður það makrílvertíð, og segir Þorri að undirbúningur hennar sé kominn á fullt skrið. “Við hlökkum bara til” sagði framleiðslustjórinn að lokum.

BÓA