Nú er loðnuvertíðinni lokið hjá Hoffelli. Ekki náðist að veiða upp í alla heimildina hjá Hoffelli frekar en öðrum loðnuskipum, aðallega vegna tíðarfarsins.  Veður hafa verið vond undan farnar vikur, hver lægðin eftir annarri hafa gert landsmönnum lífið leitt og ekki síst hafa vondu veðrin látið á sér kræla á fiskimiðunum.

Sigurður Bjarnason skipstjóri á Hoffelli var mátulega sáttur við undangengna vertíð og þá sér í lagi þá staðreynd að ná ekki öllum heimildunum. „Það hefði alveg mátt ganga betur“ sagði skipstjórinn en bætti því svo við að öllu öðru leiti  hefði gengið vel og að hrognatakan hefði verið afbragð.  Hoffell veiddi engu að síður tæp 20 þúsund tonn af loðnu sem gerir þennan fyrsta ársfjórðung þann besta frá upphafi í verðmætum talið, rúmlega 1 milljarður króna.

 En Siggi skipstjóri er ekki að dvelja of lengi við það sem liðið er og er nú á fullu að undirbúa næstu vertíð og mun það vera kolmunni á vordögum. Það þarf að þrífa og þvo, gera og græja og það mun áhöfnin á Hoffelli gera næstu vikur.

„Hér eru allir við hestaheilsu og tilbúnir í næsta slag“ sagði Siggi þegar hann var inntur eftir því hvort að hann vildi segja eitthvað að lokum.  Þá er bara að óska þess að áhöfnin  á Hoffelli geti sungið „það hækkar í lest og hleðst mitt skip“ er skipið heldur til   kolmunna veiða.

BÓA