“Sæmd er hverri þjóð að eiga sægarpa enn” segir í ljóði Ólínu Andrésdóttur og þrátt fyrir að það ljóð sé samið á síðustu öld eiga þessi ljóðmæli enn vel við.
Áhöfnin á línubátnum Hafrafelli er skipuð sægörpum sem hafa dregið úr sjó afla að verðmæti 400 milljóna króna á árinu. 1.600 tonn af fiski. Loðnuvinnslan færði þeim köku að þessu tilefni og kunni áhöfnin vel að meta það.
Andrés Pétursson er skipstjóri á Hafrafelli og þegar hann var inntur eftir því hverju hann þakkaði þennan góða árangur svaraði hann að áhöfnin væri afbragðs góð og útgerðin væri flott. “Maður gerir ekkert einn” sagði Andrés.
Þegar greinarhöfundur náði símasambandi við Andrés hafði áhöfnin rétt lokið við að leggja línu og ætluðu að fara í kaffi og njóta þess að borða það sem eftir var af kökunni góðu. “Það var æðslegt að fá kökuna, hún er mjög góð og svo er alltaf gaman að fá viðurkenningu á vel unnu starfi” sagði skipstjórinn.
Á Hafrafelli eru tvær fjögurra manna áhafnir sem vinna tvær vikur í senn. Sækja þá stíft sjóinn og þegar það verða áhafnaskipti eiga menn frí í tvær vikur.
Áhafnarmeðlimum á Hafrafelli eru færðar hamingjuóskir með góðan árangur og þeim fylgja áframhaldandi óskir um gott gengi og gæfu.
BÓA