Árið 2020 verður flestum í minnum haft vegna ástandsins sem skapað hefur heilsu manna í hættu en hjá Loðnuvinnslunni hefur árið, þrátt fyrir allt, verið gjöfult, afrek hafa verið unnin. Ljósafell hefur komist yfir eins milljarða múrinn í aflaverðmætum. Hefur skipið aldrei áður komist yfir milljarð á fyrstu níu mánuðum ársins líkt og nú.  Hjálmar Sigurjónsson skipstjóri á Ljósafellinu sagði að það væri virkilega gaman að ná þessu marki. “Við erum rígmontnir” bætti hann við og sagði líka að að ekki aðeins hefði gengið vel að veiða, það hefði líka fengist góð verð fyrir aflann.

Langmest af afla Ljósfells fer í frystihúsið og er unninn heima á Fáskrúðsfirði, en karfi fer á markað og stundum annar afli þegar mikið er að gera við vinnslu á uppsjávarfiski. 

Áhöfninni var færð kaka að þessu tilefni og Hjálmar sagði að hún hefði bragðast afar vel “og ég borðaði stefnið í gærkveldi” bætti hann hlæjandi við. Við nánari eftirgrennslan kom það í ljós að menn borða gjarnan fyrst utan af kökunni, líkt og mönnum ói við að borða sjálft skipið en skipstjórinn fullyrti að það færi álíka vel í maga eins og á sjó.

Þegar greinarhöfundur spjallaði við Hjálmar var Ljósfell á karfaveiðum í Lónsdýpi í sól og blíðu. Og segja má að ævi þessa 47 ára gamla happafleys hafi verið líkt og sólskinsdagur.

Hjálmar svaraði því aðspurður að áhöfnin á Ljósafelli væri samheldin og um borð ríkti góður andi. Þegar skipstjórinn sagði frá sá greinarhöfundur áhöfnina fyrir sér, sitjandi við borð í matsalnum, slá á létta strengi og gæða sér á köku sem fengin var fyrir vel unnin störf , og þá datt út úr spyrjandanum; “get ég ef til vill fengið pláss hjá þér”? Hjálmar skipstjóri svaraði að bragði að það væri ekki útilokað en helst ekki á þessum árstíma þegar verður eru válynd, “ég reyni að taka bara nýliða þegar von er á góðu veðri” sagði þessi geðþekki skipstjóri sem lætur sér annt um sitt fólk.

Í ljósi allra þeirra afreka sem unnin eru hjá Loðnuvinnslunni á degi hverjum ljúkum við  með þessum fleygu orðum:

“Ekkert afrek var nokkru sinni unnið án áhuga.” – Ralph Waldo Emerson

BÓA

Áhöfn Ljósafells með kökuna. Ljósmynd: Kjartan Reynisson
Kakan góða. Ljósmynd: Kjartan Reynisson