Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn í Wathnesjóhúsinu þann 16.júní 2020. Var síðasta ár afar gott hjá fyrirtækinu en hagnaður þess var rúmlega 2 milljarðar króna og er það mesti hagnaður sem Loðnuvinnslan hefur skilað frá stofnun.  Og þegar vel gengur vill Lvf gjarnan að samfélagið fá að njóta afrakstursins og veitti á fundinum 18,8 milljónir í styrki til nokkurra félagasamtaka. Samanlagt afhentu Kaupfélagið og Loðnuvinnslan styrki að upphæð 22,4 milljón króna.

Knattspyrnudeild Leiknis fékk 11 milljónir í styrk. Magnús Ásgrímsson formaður knattspyrnudeildar tók á móti styrknum og þakkaði hann Loðnuvinnslunni kærlega fyrir dyggan stuðning í geng um árin. Meistaraflokkur knattspyrnudeildar Leiknis leikur í 1.deild þetta sumarið og kallar það á mikil ferðalög milli landshluta sem kosta peninga. Sagði Magnús að Lvf væri helsti og besti stuðningsaðili knattspyrnudeildar og án þessa sterka baklands yrði rekstur deildarinnar illmögulegur.

Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar fékk 6 milljónir í styrk til sinnar starfssemi. Smári Einarsson tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Fer peningurinn til ferðar eða uppákomu til handa starfsfólki og er liður í þeirri viðleitni að þakka þeirra góðu störf.

Björgunarsveitin Geisli fékk 1 milljón króna. Grétar Helgi Geirsson formaður Geisla  tók við styrknum fyrir þeirra hönd. Þakkaði hann vel fyrir styrkin og sagði hann mikilvægan í starfsemi björgunarsveitarinnar sem hefur lagt út í mikin kostnað við að eignast og viðhalda björgunarbátnum Hafdísi og þá hefur björgunarsveitin einnig fest kaup á svokölluðum “rescue runner”, sem eru einskonar sjóþotur, sem reynast afar vel við björgun og leitir.

Þá fékk Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar 800.000 krónur í styrk til þess að kaupa stoðtæki fyrir tölvur, búnaður sem er mikilvægur fyrir nemendur þegar þeir læra forritun og við hina ýmsu tölvuvinnslu. Nútíma námsefni. Eygló Aðalsteinsdóttir skólastjóri tók á móti styrknum og þakkaði fyrir þennan góða stuðning sem nýtast mun nemendum til framtíðar.

BÓA

Frá vinstri: Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Magnús Ásgrímsson, Smári Einarsson, Grétar Helgi Geirsson og Eygló Aðalsteinsdóttir.