Miðvikudaginn 18.september komu 22 starfsmenn frá Austurbrú í heimsókn í Loðnuvinnsluna. En Austurbrú gegnir viðamiklu hlutverki á Austurlandi þar sem eitt af markmiðum þess er að “vera í forsvari fyrir þróun samfélags, atvinnulífs, háskólanáms, símenntunar, rannsókna og menningarstarfs á Austurlandi”. (Tekið af heimasíðu Austurbrúar)
“Við ákváðum að nota starfsdag í að kynna okkur fyrirtæki á svæðinu” svaraði Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar aðspurð um ástæðu heimsóknarinnar. “Það hefur ekki farið framhjá okkur þær miklu breytingar sem orðið hafa hjá LVF á undanförnum árum með tilliti til tækninýjunga” bætti hún við. Og þar að auki hefur Austurbrú séð um fræðsluáætlun fyrir fyrirtækið.
Jóna Árný sagði að hópurinn hefði fengið höfðinglegar móttökur hjá Loðnuvinnslunni, Friðrik Guðmundsson framkvæmdastjóri tók á móti þeim og kynnti starfsemina, pælingar um aukna endurnýjun og tækni, hvað væri framundan og síðan var þeim boðið að skoða frystihúsið. “Það er frábært að sjá svona frystihús með áherslu á íslenska tækni” sagði Jóna Árný og sagði ennfremur að gaman væri að sjá samvinnuna við samfélagið. “Þetta er hið áhugaverðasta mál” bætti hún við.
Austurbrú hefur sjö starfsstöðvar allt frá Djúpavogi í suðri til Vopnafjarðar í norðri. Því gefst samstarfsfólki Austurbrúar ekki mikill tími eða tækifæri til þess að kynna sér hina margvíslegu starfssemi á Austurlandi sem hópur, þó svo að þau séu sérfræðingar á þessu sviði hvert í sínu lagi. “Við höfum tvo starfsdaga á ári og þeim er sannarlega vel varið á þennan hátt”, sagði Jóna Árný, “það gefur okkur einstaka innsýn”.
Hópurinn frá Austurbrú heimsótti líka safnið um Frakka á Íslandsmiðum auk þess sem þau fóru til Stöðvarfjarðar og heimsóttu þar Sköpunarmiðstöðina.
BÓA