Undanfarnar tvær vikur hafa tvær konur frá Ástralíu verið í heimsókn á Fáskrúðsfirði.
Það er langt ferðalag að ferðast frá Ástralíu til Íslands en þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þær stöllur gera það. Þær tilheyra nefnilega þeim hópi sem gjarnan hefur verið kallaður “áströlsku stelpurnar”, sem var hópur ungra kvenna sem kom til Íslands til þess að vinna í fiski.
Maxine V. Cole kom fyrst til Fáskrúðsfjarðar í október 1978 og dvaldi fram í júlí 1979. Síðan kom hún aftur í janúar 1980 og dvaldi þá fram í júlí 1980.
Lorraine Heazelwood kom einnig í janúar 1980 og dvaldi fram í júlí 1980. Og hér kynntust þær, tvær rúmlega tvítugar konur komnar um langan veg til sex mánaða dvalar á landinu bláa.
Og núna u.þ.b. 40 árum síðar eru þær komnar aftur. Þær Lorraine og Maxine eru skemmtilegar konur, afar viðræðugóðar og vildu gjarnan rifja upp þessa liðnu tíma. “Við vorum ráðnar í gegnum umboðsskrifstofu í London. Þar skrifuðum við undir samning þess efnis að við réðum okkur til starfa í fiskvinnslu á Íslandi en við vissum ekki hvert við færum” sögðu þær, en komust svo að því síðar að þær færu til austurstrandar Íslands í þorp sem hét Fáskrúðsfjörður. Þær eru aldar upp í bæjum sem eru umtalsvert stærri en Búðaþorp við Fáskrúðsfjörð svo það eitt voru heilmikil viðbrigði. Maxine fékk herbergi í Valhöll, húsi sem löngum hefur verið rekið sem verbúð, en Lorraine fékk herbergi í gamla sláturhúsinu, þar sem nú er rekið rafmagnsverkstæði Lvf. Þar hafði verið útbúin gisting fyrir fjórar sálir ásamt salernisaðstöðu. Lorraine rifjar upp hverig þar var að búa: “í þá daga var ekkert land fyrir neðan húsið, það var bara sjór. Og stundum skullu öldurnar á veggjunum og lömdu gluggann og þá lak líka inn þannig að gólfið var alltaf hálf blautt. En þar var samt gott að búa” sagði hún og brosti við tilhugsunina.
Þær voru fljótar að kynnast nýju fólki, öðrum stúlkum, sem voru líkt og þær sjálfar í leit að ævintýrum og auðvitað að afla sér tekna líka, samstarfsfólki í frystihúsinu og öðru ungu fólki úr þorpinu. Við sumt af þessu fólki hafa þær haldið sambandi í öll þessi ár og aðra höfðu þær hvorki séð né heyrt fyrr en þær komu aftur fjórum áratugum síðar. “Sumir hafa ekkert breyst þó að við höfum auðvitað öll elst” sögðu þær og þeim varð tíðrætt um það hvað þorpið hefði breyst. “Það hefur stækkað á alla kanta og öll þessi tré” og þær draga fram ljósmynd máli sínu til stuðnings. Mynd sem sýnir þorpið við Fáskrúðsfjörð í kring um 1980 og á þeirri mynd má greina tvö greinitré og bæði í rýrari kantinum. Já, það er ekki aðeins mannfólkið sem breytist.
Aðspurðar sögðu þær vinnuna í frystihúsinu ekki hafa verið erfiða. “Við lærðum að snyrta og pakka og okkur fannst þetta ekki erfitt, en okkur var stundum kalt” bættu þær við. Fyrir ungar konur, sem jafnvel höfðu dvalist langdvölum í stórborg, var ekki mikið um tómstundir hér í fámenninu svo þær tóku uppá einu og öðru sér til skemmtunnar. Þær höfðu matarboð og samkvæmi og þær léku sér í snjónum og hálkunni þegar það var til staðar. Og þær lærðu að prjóna lopapeysur.
Maxine býr í Brisbane sem er borg í Queensland fylki í Ástralíu. Hún er listakona, og vinnur mikið með pappír en Lorraine er ljósmóðir og býr í Tazmaniu sem er eyja við suðurstönd Ástralíu. Þær eru báðar komnar á eftirlaun.
Er þær tóku þá ákvörðun að heimsækja Ísland ákváðu þær að nota tímann vel og ferðast um landið. Þær leigðu sér bíl og sögðu að það hefði tekið þær svona tvo daga að venjast því að aka “vitlausu megin” á götunni, en í þeirra heimalandi er vinstri umferð. Og þær hafa aldeilis notað tímann vel. Þær dvöldu aðeins í Reykjavík, óku svo vestur á Snæfellsnes, þaðan til vestfjarða, svo norðurland og þaðan lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar. Svo aka þær með suðurströndinni aftur til Reykjavíkur og þegar þær leggja upp í ferðina heim þá hafa þær dvalið í sex vikur á Íslandi.
Loðnuvinnslan tók vel á móti þessum fyrrum starfskonum og bauð þeim að skoða frystihúsið og það þótti þeim afar skemmtilegt. Þær prófuðu meira að segja að snyrta fisk og svo var að sjá að þær hefðu engu gleymt, enda eiga þær báðar hnífana sem þær notuðu við snyrtinguna hér áður fyrr. Hnífarnir fengu að flytja til Ástralíu. Þá var þeim boðið út að borða og fengu lopapeysur og norðurljósamyndir að gjöf.
Lorraine og Maxine voru mjög sáttar þegar við kvöddumst og orð voru látin falla um að vonandi myndum við hittast á nýjan leik og þær ítrekuðu þakklæti sitt á því að allsstaðar þar sem þær hefðu komið og allir sem þær hefðu hitt, hefðu tekið svo fallega og vel á móti þeim. “Við vildum svo gjarnan koma aftur” voru lokaorðin og góðar kveðjur gengu á milli á fallegu haustkvöldi þar sem tunglið lét geisla sína leika við hafflötinn og baðaði fjallhnjúka raðirnar ljósi sínu. Fjöllin sem ekkert hafa breyst á fjórum áratugum.
BÓA