Dagana 27. og 28. ágúst s.l var haldinn á Fáskrúðsfirði stjórnarfundur hjá Norges Sildesalgslag sem er Samvinnufélag útgerðarmanna í Noregi. Stjórn þessi heldur fjóra stjórnarfundi á ári og annað hvert ár er einn fundur haldinn utan Noregs og þá í einhverju landi í Evrópu þar sem góður viðskiptavinur hefur höfuðstöðvar sínar. Að þessu sinni varð Loðnuvinnslan fyrir valinu og var það sannur heiður fyrir fyrirtækið að taka vel á móti þessum 22 manna hópi norðmanna, skipuleggja og aðstoða við framkvæmd funda og auðvitað að bjóða þessum góðu gestum uppá einhverja dagskrá utan fundatíma.

Knut Torgnes er yfirmaður sölumála hjá Norges Sildesalgslag og aðspurður sagði hann að dvölin á Fáskrúðsfirði hefði verið afar góð. “Þrátt fyrir rigningu og lítið skyggni var heimsóknin frábær, Friðrik (Guðmundsson framkvæmdastjóri LVF) og Loðnuvinnslan tóku svo vel á móti okkur, allur aðbúnaður var til fyrirmyndar og öll dagskráin stóðst fullkomlega”

Knut var líka hrifinn af safninu um Frakka á Íslandsmiðum, Steinasafni Petru og siglingu á björgunarbátnum Hafdísi. Hann sagði það vera samfélaginu til sóma að hafa bát sem þennan og hvert sjávarpláss í heimi mætti vera stolt af slíkum bát. “Svo enduðum við heimsóknina á austurlandi með því að fara í Vök –baðhúsið á Egilsstöðum, það var frábært” bætti hann við og vildi taka fram að allur hópurinn væri mjög ánægður með heimsóknina.

Loðnuvinnslan á í töluverðum viðskiptum við Norges Sildesalgslag, kaupir af þeim loðnu og kolmunna en þessi norsku samtök útgerðamanna er einn stærsti söluaðilli heims í uppsjávarfiski. Árlega selja þau 1.5 milljón tonna af fiski.

Knut Torgnes sagði að heimsóknin á Fáskrúðsfjörð og til Loðnuvinnslunnar hefði styrkt þeirra góða viðskiptasamband og ítrekaði þakklæti þeirra Sildesalgslags – fólks og bað fyrir góðar kveðjur.

BÓA

Friðrik Guðmundsson, Knut Torgnes yfirmaður sölumála ogJonny Garvik formaður stjórnar Norske Sildesalslag. Loðnuvinnslan gaf öllum norsku gestunum norðurljósamynd frá Fáskrúðsfirði.
Hópurinn að leggja af stað í siglingu á Hafdísinni
Allur hópurinn fyrir framan Vök baðhús.