Hoffell er á landleið með 940 tonn af makríl. Aflinn fékkst í Smugunni um 360 sjómílum frá Fáskrúðsfirði þannig að langt er sótt. Smugan er alþjóðlegt hafsvæði norður af Færeyjum þar sem myndast smuga á milli landhelgi Íslands, Noregs og Færeyja. Hoffellið er tveimur vikum fyrr í Smugunni heldur en í fyrra og sagði Guðni Ársælsson stýrimaður á Hoffellinu ástæðuna vera þá staðreynd að lítið hafi veiðst af makríl í íslenskri lögsögu þannig að ákveðið hefði verið að freista gæfunnar í Smugunni. Sagði Guðni ennfremur að þeir hefðu verið smá stund að finna makrílinn en þegar hann var fundinn gengu veiðarnar vel. Veðrið var gott við veiðarnar sem og spáin góð fyrir heimferðina sem tekur um 32 klukkustundir. Hoffellið verður í höfn á Fáskrúðsfirði um kl. 24 laugardaginn 18.ágúst.
Þegar þessum afla hefur verið landað hefur Hoffellið komið með 3.800 tonn af makríl að landi sem telst nokkuð gott miðað við fremur trega veiði við Ísland.
BÓA