Tania Li Mellado

Oft ráða tilviljanir för.  Að þessu sinni hafði greinarhöfundur ákveðið að næsti viðmælandi skyldi valin af handahófi.  Tilgangurinn með þessari ákvörðun var sú að sannreyna það að allir eru áhugaverðir og allir hafa sögu að segja.  Því gekk greinarhöfundur inní verslun staðarins og ákvað að leggja snörur sínar fyrir fyrstu manneskjuna sem á vegi yrði.  Um leið og gengið var inní verslunina hitti greinarhöfundur tvær konur sem báðar starfa hjá Loðnuvinnslunni. Eftir stuttar samræður var niðurstaðan sú að önnur þeirra gaf sér tíma í spjall.

Tania Li Mellado er ung kona sem starfar hjá Loðnuvinnslunni.  Hún vinnur í frystihúsinu á daginn og skúrar í bræðslunni á kvöldin.  Eins og nafnið hennar gefur til kynna á Tania spænskan föður en móðir hennar er íslensk.  Tania Li er fædd á Akureyri en flutti svo með foreldrum sínum til Spánar þegar hún var ársgömul.  Fjölskyldan settist að á Torremolinos,  bæjarfélag sem stendur við Costa del Sol, þá sólarparadís sem margir Íslendingar þekkja.  Þar var móðir Taniu heimavinnandi en faðir hennar rak bar.  Meðan á dvöl fjölskyldunnar ytra stóð eignaðist Tania tvö yngri systkini.  Hún hóf skólagöngu í sandölum og kjól í heita landinu og naut þess að slíta barnskónum í landi föðurfjölskyldunnar.

Tanía var níu ára gömul þegar foreldrar hennar ákváðu að flytjast aftur búferlum til Íslands og aftur var haldið heim til Akureyrar.  Þar fór Tania í Gerárskóla og lauk grunnskólanum þar.  Á þessum tíma var spænskan hennar aðal tungumál. Hún skildi íslensku vel en talaði bara spænsku.  Þegar móðir hennar talaði við hana á íslensku svaraði hún á spænsku.  Fyrstu skólaárin hér heima urðu því nokkuð strembin. Hún þurfti að hafa fyrir því að gera íslenskuna að því tungumáli sem henni yrði tamari.  Í öllum samskiptum er mikilvægt að skilja hver annan.  Og þar sem þessi níu ára gamla stúlka talaði bara spænsku var erfitt að mynda tengsl við önnur börn en þá segir Tania að íþróttirnar hafi bjargað sér.  “Ég hellti mér út í íþróttir, ég var fljót að hlaupa og fór strax að æfa fótbolta”  Í kappleikjum tjá menn sig á annan máta og það skilja allir.

Íþróttaiðkun hefur ávalt verið stór hluti af lífi Taniu og er enn.  Hún komst í úrtakshóp til landsliðs á unglingsaldri, hún keppti fyrir hönd Leiknis og Fjarðabyggðar í fótbolta og enn sparkar Tania en nú til dags mest sér til ánægju og yndisauka.  Uppeldisfélag hennar er Þór á Akureyri og þar kynntist hún eiginmanni sínum Vilberg Marinó Jónassyni.  “Árið 2000 kom Villi til Akureyrar til þess að spila fótbolta með Þór og fljótlega byrjuðum við saman” segir Tania og rifjar upp til gamans að þegar Villi hafi sagt henni að hann byggi á Fáskrúðsfirði hafi hún ekki haft hugmynd um hvar Fáskrúðsfjörður væri.  “Ég hafði aldrei komið lengra en að Mývatni” segir þessi brosmilda kona og hlær við.

En ástin lætur ekki að sér hæða og ástfangið fólk vill bara fá að vera í samvistum hvort við annað.  Því leið ekki lengri tími en fram á haust að Tania flutti austur á land og hóf búskap með Vilberg.  Hún réð sig til starfa í Grunnskólanum sem stuðningsaðili og starfaði þar um tíma.   Hún hefur einnig strafað í leikskólanum Kærabæ og við heimaþjónustu.

Árið 2002 réð Tania sig fyrst í frystihúsið.  “Ég hafði aldrei á ævi minni komið inní frystihús áður, en mig vantaði vinnu og þetta var vinna”. Hún segir að sér hafi verið vel tekið þar og ávalt kunnað ágætlega við þessa vinnu.  Börnin komu eitt af öðru, en Tania á þrjú börn, og lífið bar hana í ýmsar áttir eins og gengur hjá fólki.  Hún starfaði um tíma í móttökunni á hóteli hér í bæ og það líkaði henni vel.  “Þar gat ég notað spænskuna, ég nýt þess að geta talað spænsku og sakna þess að gera það ekki daglega”.

Eins og áður sagði vinnur Tania bæði í frystihúsinu og í bræðslunni. “Ég er nú ekki búin að vera í föstu starfi í frystihúsinu nema síðan í apríl, en ég hef oft tekið vertíðir, síldar-, makríl-, og loðnu vertíðir. Það finnst mér skemmtilegt, það er einhver stemmning”.  Og svo sagðist hún vera til þess að gera nýbyrjuð að skúra í bræðslunni.  “Ég hafði spurst fyrir um þetta starf einhvern tímann og nú þegar það losnaði hringdi Magnús (Ásgrímsson, verksmiðjustjóri) í mig og bauð mér starfið og ég kann ekki að segja nei” sagði Tania og horfði fast í augu greinarhöfundar og bætti svo við: “þetta er fínt starf”.  Hún tekur það líka skýrt fram að þau hjónin gætu ekki unnið eins mikið og raun ber vitni nema af því að þau eru svo lánsöm að tengdamóðir Taniu gætir bús og barna á meðan.  “Það er ómetanlegt” segir Tania einlæg.

Þegar Tania Li er ekki að vinna í frystihúsinu, eða bræðslunni, eða að leysa af í Vínbúðinni eins og raunin var þetta síðdegi þegar okkar spjall átti sér stað, þá finnst henni gaman að fara í ræktina, að spila blak og hitta fólk.  “Svo finnst mér líka gaman að ferðast og elska að fara til Costa del Sol þar sem föðurfólkið mitt býr enn”.  Og hún segir frá því að hún hafi tekið þá ákvörðun fyrir nokkru síðan að “gera hlutina og sjá ekki eftir neinu” og á þá við að hún vill gjarnan láta drauma sína og óskir rætast sé þess nokkur kostur og ef eitthvað gengur ekki upp má alltaf draga af því einhvern lærdóm og reynslu.  Góð speki að lifa eftir.

Við sem erum alin upp með íslenska tungu í eyrunum og á vörunum frá fæðingu lærum að nota máltæki og alls kyns orðatiltæki í daglegu tali.  Tania var alin upp við spænsku til níu ára aldurs og því er það skiljanlegt að hún hafi ekki þennan grunn.  En hún reynir. Hún segir greinarhöfundi frá því að hún ætti að skrifa bók sem gæti heitið “gullkorn Taniu”.  “Ég og orðatiltæki eigum enga samleið”. Og hún hvetur greinarhöfund til að skella einhverjum dæmum með í greinina.  Og í því samhengi rifjast upp eftirfarandi:

“Fljótt skipast veður í vindum” sagði hún eitt sinn þegar verðrið breyttist snögglega.

“Fékk hvorki vatn né þurrt” varð henni að orði þegar lítið var um mat og drykk.

“Ég er góðkunnur vinur hans”  varð henni einhvern tímann að orði líka.

Tania Li Mellado býr yfir mannkostum sem margir gætu tekið sér til fyrirmyndar.  Hún hefur húmor fyrir sjálfri sér.

 

BÓA