Fanney Linda

Þegar regnið lemur á gluggum og vindurinn hvín við hvert horn er gott að vera inni og spjalla við skemmtilega konu. Konan er nefnd Fanney Linda Kristinsdóttir og hún starfar á skrifstofu Loðnuvinnslunnar.  Linda, eins og hún er jafnan kölluð, er fædd og uppalinn í Búðarþorpi við Fáskrúðsfjörð. „Ég er fædd 1957 í Stafholti en flutti síðan tveggja ára gömul í Borgarhlíð“ segir Linda. Húsin sem hún nefnir með nafni standa samsíða við Skólaveg 60 og 62 á Fáskrúðsfirði.  Faðir Lindu, Kristinn Gíslason, byggði Borgarhlíð undir stækkandi fjölskylduna en Linda á tvær eldri systur en yngri bróðir hennar er látinn.

Foreldrar Lindu voru líka Fáskrúðsfirðingar, móðir hennar Lára Þórlindsdóttir var úr Hvammi en faðir hennar ólst upp í húsi sem heitir Steinholt. „Ég er hreinræktaður austfirðingur í báðar ættir“ segir Linda og segir greinarhöfundi skemmtilega sögu því tengdu. „ Það kom hér mannfræðingur fyrir allmörgum árum síðan og vildi fá að hitta það sem hann kallaði hreinræktaða austfirðinga og við mamma vorum beðnar að mæta, þetta átti ekki að vera neitt merkilegt og ekki taka mikinn tíma. En þegar við komum inní skóla þar sem hann hafði aðstöðu vorum við mældar í bak og fyrir. Málbandi var brugðið um nefið, á milli augnanna og hér og þar annarsstaðar og svo þurftum við að svara 200 krossaspurningum“.

Linda hefur líka haldið tryggð við sinn fjórðung, hún hefur ávalt búið á Fáskrúðsfirði fyrir utan tvö ár sem hún bjó á Eskifirði en þangað fór hún til að finna sér mannsefni.  Sautján ára gömul batt hún trúss sitt við Árna Sæbjörn Ólason og halda þau bönd enn. Þau hjónin byggðu sér hús og heimili og eignuðust tvo syni.

„Ég er rík manneskja“ segir Linda, „og það er ekkert sjálfgefið. Ég á góða syni, tengdadætur og barnabörnin eru auðvitað alveg dásamlega“ segir hún með stolti ömmunnar.

Ung fór Linda út á vinnumarkaðinn og vann framan af í frystihúsinu, tók síldarvertíðir þegar tækifæri gafst en hóf síðan störf á skrifstofu Kaupfélagsins síðan Loðnuvinnslunnar árið 1990.  Í 27 ár hefur hún starfað þar við bókhald og önnur tilfallandi skrifstofustörf. „Mitt starf felst helst í því að vinna í bókhaldi en svo sinni ég líka uppgjöri „ segir Linda.  Aðspurð að því hvort að starfið hafi breyst mikið í gegn um þessa tæplega þrjá áratugi sem hún hefur sinnt því segir Linda að það hafi gjörbreyst með tilkomu tækninnar.  „Nú fer allt í gegn um internetið og blýantarnir hafa alveg verið lagðir niður“ segir hún brosandi.  Og hún bætir því við að hún hafi alltaf unnið með svo góðu fólki.

Og hvað gerir þú svo í frístundum Linda? „Maður reynir nú aðeins að hreyfa sig og á sumrin förum við hjónin með hjólhýsið og ferðumst.  „Svo finnst mér gaman að sauma út“ segir hún og talið berst að því hvað faðir hennar saumaði fallegar myndir með sínar stóru og verklegu hendur. „Pabbi var sjómaður framan af ævinni, hann var bæði á gamla Hoffellinu og Bárunni en svo starfaði hann í mörg ár í frystihúsinu“.  Hann vann sem sagt með höndunum alla sína ævi en þessar sömu hendur kölluðu fram listaverk með saumnál að vopni.

Linda er mikil fjölskyldumanneskja, hún veit fátt betra en að fá stórfjölskyldunna í kaffi eða mat um helgar og njóta samvista við sitt fólk.  „Öll fjölskyldan er að fara saman til Spánar“ segir hún og tilhlökkunin leynir sér ekki í andlitinu.

Þegar okkar spjalli er lokið rignir enn. En greinarhöfundur er léttur í spori á heimleiðinni því það er mannbætandi að eyða tíma með góðu fólki, fólki eins og Fanney Lindu Kristinsdóttur.

BÓA