Á dögunum kom hópur kvenna til Fáskrúðsfjarðar til þess að kynna sér starfssemi Loðnuvinnslunnar auk þess að kynna sína eigin starfssemi. Konur þessar tilheyra félagsskap sem kallast Konur í sjávarútvegi. (Skammstafað KIS)
KIS var stofnað árið 2013. Tíu konur tóku sig til og boðuðu til stofnfundar því að þeim þótti sem rödd kvenna mætti heyrast betur í sjávarútvegi. Það er skemmst frá því að segja að um eitt hundrað konur mættu á fundinn. Tilgangur félagsins er að styrkja og efla konur sem starfa í sjávarútvegi ásamt því að gera þær sýnilegri innan iðnaðarins sem og utan hans.
Freyja Önundardóttir er formaður KIS og hefur gengt því embætti síðan 2015. Hún er alin upp í Vestamannaeyjum og Raufarhöfn, byggðarlögum sem byggja á sjávarútvegi. Fyrir hartnær fimmtíu árum stofnuðu foreldrar hennar útgerðafélagið Önundur og reka það enn frá Raufarhöfn, þannig að óhætt er að segja að Freyja sé fædd inní „bransann“,en hún starfar nú sem útgerðastjóri hjá Önundi.
En þú býrð í Reykjavík, hvernig gengur að vera útgerðastjóri fyrirtækis á Raufarhöfn? Hver sleppir og bindur? „Mér þykir afskaplega gaman að sleppa og binda“ svaraði Freyja, „og að taka til hendinni heima á Raufarhöfn, en mitt aðalstarf er unnið í gegn um tölvu og síma og þá skiptir ekki máli hvar maður situr“, bætti hún réttilega við.
Aðspurð um félagsskapinn Konur í sjávarútvegi sagði hún félagið vera öflugt, „það eru 210 konur í félaginu, frá öllum mögulegum greinum sem tengjast sjávarútvegi. Félagið hefur vaxið jafnt og þétt og býr nú yfir rödd sem hlustað er á innan sjávarútvegsins. „Við viljum sífellt vera að efla tengslanetið því það er svo mikilvægt og þess vegna höfum við þessa fundi út á landi því að þar eru margar konur sem vinna við sjávarútveg og við viljum að þær þekki til KIS og fyrir hvað við stöndum“.
Félagsskapurinn skipuleggur vorferð á hverju ári, að þessu sinni til Austurlands, auk þess eru farnar dagsferðir til þess að heimsækja fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi, þær hafa átt fund með sjávarútvegsráðherra og forsetanum. KIS reynir að komast sem víðast til þess að kynna sína starfsemi og kynnast fyritækjum og ráðamönnum í samfélaginu. Eru ferðir þessar auglýstar tímanlega þannig að þeir sem eiga lengra að sækja gefist kostur á að koma með. T.d. voru 25 konur hvaðanæva af landinu með í ferðinni á Austurlandið. „Við bjóðum líka uppá námskeið, í haust buðum við uppá námskeið um að koma fram í fjölmiðlum, auk þess að koma fram almennt“ sagði Freyja. Félagsmenn sem búa á höfuðborgarsvæðinu hittast einu sinni í mánuði og hafa myndast innan hópsins viðskipta og vináttusambönd.
Aðspurð um hvernig ferðin á Austurland hefði reynst svaraði Freyja: „Við erum í skýjunum með ferðina, það var svo vel tekið á móti okkur hvar sem við komum enda landsbyggðafólk gestrisið með afbrigðum“.
Konur hafa unnið við sjávarútveg frá örólfi alda og lengi framan af var rödd þeirra veik og samtakamáttur lítill en nú hefur orðið breyting á. Með tilkomu félagsskapar eins og KIS geta konur í sjávarútvegi látið til sín taka og þar eru allar konur sem starfa í sjávarútvegi eða tengdum greinum velkomnar því eitt af femstu markmiðum félagsins Konur í sjávarútvegi eru: jákvæðni, samstaða og hjálpsemi. Nánar má fræðast um félagið á kis.is
BÓA