Færeyska fjölveiðiskipið Finnur Fríði FD 86 er okkur Fáskrúðsfirðingum að góðu kunnugt enda hefur það lagt upp afla hjá Loðnuvinnslunni til fjölda ára. Skipstjóri á Finni Fríða er Andri Hansen, ungur maður með góða nærveru og þétt handtak. Það fékk undirrituð að upplifa í spjalli yfir kaffibolla að morgni dags þar sem rigningin bankaði létt á glugga á milli þess sem sólin reyndi að brjótast fram.
Þegar Andri var inntur eftir því hvaðan nafnið Finnur Fríði kæmi sagði hann að norskur maður að nafni Finnur, með viðurnefnið hinn fríði vegna þess hve fríður og föngulegur hann var, ætti sér sess í færeyskri sögu og t.a.m. hefur verið ort um hann og Hálvdán bróður hans mikill vísnabálkur uppá 97 vísur þar sem sagt er frá því er þeir bræður fara til Írlands til að krækja í dóttur kóngsins, lentu þeir þar í bardaga við menn kóngsins og segir í einni vísunni að Finnur hafi barist við tólf hermenn í einu. Í lok vísnabálksins deyr Finnur en Hálvdán bróðir hans lifir. Við þessar vísur er gjarnan sungið fallegt lag og dansaður færeyskur hringdans. Þannig að segja má með sanni að þetta fallega skip beri nafn með rentu.
Finnur Fríði var smíðaður í Noregi árið 2003 og var Andri ráðinn skipstjóri aðeins 25 ára gamall. „Við vorum tveir“, sagði Andri,“ ég og Bogi Jakobsen sem voru stýrimenn hjá föður mínum Arne Hansen á gamla Þrándi í Götu og hann kenndi okkur allt sem hann kunni til þess að verða góðir skipstjórar“.
Þegar Andri var spurður að því af hverju þeir kæmu aftur og aftur hingað til Fáskrúðsfjarðar svaraði hann því til að ástæðan væri helst sú að útgerð Finns Fríða ætti í góðu sambandi við Loðnuvinnsluna, „hér fáum við gott verð og góða þjónustu“ sagði hann. „Að auki hafa myndast vinasambönd, við þekkjum orðið fólk hér, bæði á skrifstofunni og í Bræðslunni. Sem dæmi um það hve vel er tekið á móti okkur þá ætlar Kjartan (Reynisson) að keyra með okkur í rútu að Kárahnjúkavirkjun til að skoða hana“.
Þegar skip koma að landi eftir langa útiveru þarf oft að versla við heimamenn. Það þarf að kaupa varahluti, olíu, matvöru, fá þjónustu vegna veiðafæra og annað í þeim dúr og þar sem Færeyingar og Íslendingar eiga það sameiginlegt að vera aðdáendur sauðkindarinnar og þeirra afurða sem rekja má til hennar, hefur það sést all oft í verslun hér á Búðum þegar Færeyskir sjómenn kaupa íslenskan lopa í stórum stíl, „hann er ódýrari heldur en heima“ sagði Andri brosandi þegar minnst var á lopakaupin. „Og síldin, marineraða síldin sem er framleidd hér á Fáskrúðsfirði, það er besta síldin, við verðum alltaf glaðir að fá hana“.
Eins og mörgum er kunnugt tók áhöfnin á Finni Fríða þátt í björgunaraðgerðum í utanverðum Skagafirði á dögunum. Neyðarkall barst frá báti með tveimur mönnum innanborðs og er skemmst frá því að segja að mönnunum var bjargað úr gúmmíbáti um borð í Finn Fríða. Þegar undirrituð bað Andra segja svolítið frá þessu atviki sagði hann:“ Við vorum við loðnuveiðar í Faxaflóa og þegar við vorum komnir með 1100 tonn var lagt af stað til Fáskrúðsfjarðar til löndunar, ég ákvað að fara norður fyrir land vegna veðurs. Þegar við vorum úti fyrir Skagafirði kom kallið og við brugðumst strax við, fundum mennina í gúmmíbátnum, tókum þá um borð og gáfum þeim heita súpu og kaffi og teppi til að koma í sig hita. Stuttu síðar kom þyrlan og sótti mennina og við héldum áfram ferð okkar“. Aðspurður að því hvort að menn þurfi að hugsa sig um þegar kall eins og þetta berst svaraði Andri um hæl: „nei, menn fara bara af stað, allt annað má bíða“.
Þegar Finnur Fríði heldur úr höfn á Fáskrúðsfirði er stefnan tekin vestur af Írlandi til að veiða kolmuna en Andri Hansen skipstjóri er að fara í frí, hann fer heim til Færeyja að hitta eiginkonu og börnin sín þrjú og kveður undirritaða með hvatningarorðum um að heimsækja Færeyjar til að sjá sérstaka græna litinn sem einkennir þessar fallegu eyjar.
BÓA