Þegar flestir bæjarbúar fara að ganga til náða er ákveðin hópur fólks ennþá í vinnunni. Það er fólk sem vinnur næturvaktir. Í Bræðslunni var hópur fólks við vinnu aðfaranótt mánudagsins 13.febrúar. Tunglið speglaði ásjónu sína í sjónum, veðrið var milt og fjörðurinn var stilltur. En í Bræðslunni var unnið að miklu kappi. Verið var að landa uppúr norska fjölveiðiskipinu Roaldsen, 400 tonnum af loðnu til flokkunar.  Þorgeir Einar Sigurðsson er annar tveggja vaktformanna og var hann við vinnu umrædda nótt. Aðspurður að því hvort að það væri öðruvísi að vinna á nóttunni eða daginn svaraði hann því til að það væri svo, hann sagði allt utanaðkomandi áreiti væri umtalsvert minna og að sama skapi væri erfiðara með alla aðstoð ef hennar þyrfti með. „Ef eitthvað bilar sem við getum ekki lagað sjálfir, þurfum við að kalla út mannskap eða bíða til morguns, en öll aðstoð frá Rafmagnsverkstæðinu eða Vélsmiðjunni er auðfengin og við truflum ekki þeirra nætursvefn nema í neyð“ sagði vaktformaðurinn.   Hann sagði að sami kjarni starfsmanna hefði unnið í Bræðslunni um langt skeið og samanlögð reynsla þeirra og kunnátta væri allmikil og þau  reyndu að vera sjálfbær um flesta hluti.

Auka mannskapur kemur til stafa þegar verið er að flokka en annars eru það u.þ.b 14 starfsmenn sem sinna sínum störfum í Bræðslunni á ársgrundvelli. Þeirra starf felst í því að framleiða mjöl og lýsi og þar sem vinnustaðurinn er tæknilegur og allar upplýsingar um framleiðsluna birtast á tölvuskjám er eftirlit með þeim stór hluti starfsins auk almenns viðhalds og umsjónar með tækjum, búnaði og húsnæði.

Þegar undirrituð lagði höfuðið á koddann var unnið af kappi við verðmætasköpun á þessum vinnustað Loðnuvinnslunnar sem lætur sér í léttu rúmi liggja hvort það er nótt eða dagur. „Við vinnum þegar það er vinna“ sagði vaktformaðurinn um leið og hann bauð góða nótt.

BÓA