Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2007 nam kr. 93 millj. eftir skatta, en árið 2006 var tap á félaginu kr. 39 millj.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.695 millj.og hækkuðu um 7% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var kr. 281 millj. sem er 10% af tekjum, en var kr. 513 millj. eða 20% af tekjum árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 221 millj. sem er 8% af tekjum samanborið við kr. 357 millj. og 14% árið 2006. Afskriftir voru kr. 195 millj. og lækkuðu um 2% miðað við árið á undan.
Eigið fé félagsins var í árslok kr. 1.626 millj., sem er 46% af niðurstöðu efnahagsreiknings og hækkaði um 4% frá árinu áður. Nettó skuldir voru kr. 1.143 millj. og hækkuðu um kr. 10 millj. frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 0,85 en var 0,92 í lok árs 2006.
Loðnuvinnslan fjárfesti á síðasta ári fyrir kr. 284 millj. og þar af voru kr. 220 millj. vegna endurbóta á Ljósafelli.
Hlutafé Loðnuvinnslunnar er kr. 700 millj. og fjöldi hluthafa 191. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með 83% eignarhlut. Gengi hlutabréfa félagsins var í árslok 3,8.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 4. apríl s.l. og samþykkti fundurinn að greiða hluthöfum 5% arð að fjárhæð kr. 35 millj.
Loðnuvinnslan hlaut á síðasta ári umhverfisverðlaun LÍÚ.
Stjórn Loðnuvinnslunnar var öll endurkjörin en hana skipa: Friðrik Guðmundsson, formaður, Lars Gunnarsson, varaformaður, Steinn Jónasson, ritari, Elínóra Guðjónsdóttir og Elvar Óskarsson.
Framkvæmdastjóri er Gísli Jónatansson.