Tap af rekstri Loðnuvinnslunnar h/f árið 2006 nam kr. 38,8 millj. eftir skatta, en árið 2005 var hagnaður félagsins kr. 44 millj.
Það sem einkum veldur þessum viðsnúningi á rekstrarniðurstöðu miðað við fyrra ár er, að fjármagnsliðir eru nú neikvæðir um kr. 361 millj., en voru jákvæðir um kr. 558 þús. árið 2005, sem stafar aðallega af breytingum á gengi íslensku krónunnar.
Rekstrartekjur félagsins að frádregnum eigin afla voru kr. 2.521 millj. og hækkuðu um kr. 257 millj. eða um 11,4% frá fyrra ári. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam kr. 513 millj., sem er 20,3% af tekjum, en var kr. 246 millj. eða 10,9% árið áður. Veltufé frá rekstri var kr. 357 millj. eða 14,2% samanborið við kr. 180 millj. og 8% árið 2005. Afskriftir voru kr. 199 millj. og hækkuðu um 2,8% á milli ára.
Eigið fé félagsins í árslok var kr. 1.568 millj., sem er 48% af niðurstöðu efnahagsreiknings, en árið 2005 var eiginfjárhlutfallið 50%. Nettó skuldir voru í árslok kr. 1.133 millj. og hækkuðu um kr. 3 millj. frá árinu 2005. Veltufjárhlutfall var nú 0,92 miðað við 0,77 árið á undan.
Hlutafé Loðnuvinnslunnar er kr. 700 millj. og voru hluthafar 207 í árslok. Stærsti hluthafinn er Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga með um 83% eignarhlut. Gengi hlutabréfa félagsins var í árslok 3,8.
Aðalfundur Loðnuvinnslunnar var haldinn 29. mars s.l. og samþykkti fundurinn að greiða 5% arð til hluthafa eða kr. 35 millj.